2006

Útgefið efni 2006

Umskiptin

Umskiptin eftir Franz Kafka er vafalaust ein frægasta bók sem rituð hefur verið á þýska tungu og margar aðrar í þýðingum. Þetta er tvímála útgáfa í fjölmála ritröð Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur og er þýski textinn samhliða þýðingunni. Það er von Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum að hún verði flestum að gagni, hvort sem þeir vilja læra tungumál eða kynna sér heimsbókmenntirnar.

Bókin er þriðja þýðing textans á íslensku og er hún þýdd af þeim Eysteini Þorvaldssyni og Ástráði Eysteinssyni sem áður hafa þýtt fjölmörg verk eftir Kafka. Þýðendur hafa einnig ritað ýtarlegan inngang og útbúið bókarauka með verkefnum og spurningum fyrir bæði nemendur og áhugamenn sem vilja spreyta sig á þeim hugleiðingum sem bókin býður upp á.

Ritstjóri bókarinnar er Gauti Kristmannsson en Ástráður Eysteinsson og Eysteinn Þorvaldsson þýddu.

Útgefandi: Háskólaútgáfan, 2006.

 

Milli vetrar og vetrar

Bókin samanstendur af 25 ljóðum sem eru þýdd á íslensku, ensku og dönsku, auk frummálsins þýsku. Þessi bók er í nýrri ritröð Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur sem helguð er fjölmála útgáfu.

Ljóðabók eftir Manfred Peter Hein kom fyrst út árið 1987 hjá Rowohlt forlaginu í Þýskalandi og hefur nú verið þýdd á þrjú önnur tungumál og myndskreytt fagurlega af myndlistarmanninum og skáldinu Christoph Meckel. Þetta eru knöpp og myndskörp ljóð, nánast höggvin í stein og birtast þýðingarnar hlið við hlið og opna oft hinn sérstæða ljóðaheim Heins enn betur en mörg túlkunin.Myndskreytingar á kápu og við hvern hinna 5 bálka bókarinnar gefa bókinni aukið fegurðargildi.

Manfred Peter Hein er þekkt þýskt ljóðskáld og rithöfundur og eftir hann liggja nú sjö ljóðabækur fyrir fullorðna auk tveggja fyrir börn, skáldævisagan Fluchtfährte, fjöldi ritgerða og prósaverka auk mikils þýðingaverks úr finnskum bókmenntum, samtímaljóðlist, þjóðkvæði og sagnabókmenntir. Manfred Peter Hein hefur hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga, nú síðast Rainer Malkowski verðlaunin sem Listakademían í Bæjaralandi veitir.

Þýðendur bókarinnar eru Gauti Kristmannsson, á íslensku, Tom Cheesman, á ensku og Henning Vangsgaard á dönsku.

Útgefandi: Háskólaútgáfan, 2006.

 

Konur Rómönsku Ameríku sem hreyfiafl

Bókin er samstarfsverkefni Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og Samtakanna HAINA, sem er félag norrænna fræðimanna sem láta sig málefni kvenna í Rómönsku Ameríku varða.

Í bókinni er að finna safn fræðigreina um málefni kvenna í Rómönsku Ameríku, á spænsku og ensku. Greinarnar eru á sviði félags- og stjórnmálafræði, bókmennta- og lista, auk umfjöllunar um mannfræðileg efni.

Bókin er í ritröðinni HAINA V og er gefin út í kjölfar málþings sem haldið var hér á landi árið 2004. Þróunarsamvinnustofnun Íslands [ÞSSÍ] styrkti útgáfu bókarinnar.

Ritstjóri bókarinnar er dr. Hólmfríði Garðarsdóttur, dósent í spænsku.

Útgefandi: Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum, 2006.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is