2008

Útgefið efni 2008

Det norrøne og det nationale

Bókin Det norrøne og det nationale hefur að geyma greinasafn um áhrif íslenskra miðaldabókmennta í Noregi, Svíþjóð, Íslandi, Bretlandi, Þýskalandi og Danmörku.

Íslendingasögurnar, Eddukvæðin og aðrar miðaldabókmenntir gegndu mikilvægu hlutverki fyrir menningu þessara landa á 19. öld, einkum við uppbyggingu þjóðarímyndar þeirra. Rithöfundar og listmálarar sóttu innblástur í þessar bókmenntir fyrir skáldskap sinn og listaverk.

Í bókinni fjalla bæði íslenskir og erlendir fræðimenn um hlutverk miðaldabókmenntanna í þessum löndum frá ýmsum hliðum. Bókin hefur einnig að geyma fjölmargar teikningar og myndir frá þessum tíma sem vísa í gömul íslensk minni.

Ritstjórar bókarinnar eru ritstýrt af Annette Lassen og greinarhöfundar eru auk ritstjóra: Vigdís Finnbogadóttir, Andrew Wawn, Flemming Lundgreen-Nielsen, Sveinn Yngvi Egilsson, Julia Zernack, Þórir Óskarsson, Anna Wallette, Gunnar Karlsson, Gylfi Gunnlaugsson, Jon Gunnar Jørgensen, Gauti Kristmannsson og Pétur Knútsson.

Útgefandi: Háskólaútgáfan, 2008.

 

Rússneska með réttu lagi

Kennslubók í rússneskri hljóðfræði og tónfalli handa íslenskumælandi nemnendum eftir Olgu Korotkova.

Meginefni bókarinnar er bæði á íslensku og rússnesku og sett fram á þann hátt að það nýtist jafnt kennurum og nemendum sem vilja ná réttu lagi á rússneskan framburð.

Efni bókarinnar miðast við 32 kennslustundir og skiptist í 16 kafla. Í hverjum kafla er fengist við hljóð og tónfallsform, og leiðbeiningar gefnar um þjálfun þeirra.

Reynt er að svara spurningum á borð við: Hvar eru tiltekin hljóð mynduð og hvernig? Hvernig er áhersla og tónhæð í fullyrðingasetningum, spurningum, ráðleggingum, kveðjum og skipunum? Hverjum kafla fylgir fjöldi æfinga og í æfingalykli í bókarlok má finna réttar lausnir á stórum hluta verkefnanna. Hljóðdiskur með æfingum fylgir bókinni.

Bókina þýddi Rebbekka Þráinsdóttir.

Útgefandi: Háskólaútgáfan, 2008.  

 

Mál málanna

Mikil gróska hefur verið í rannsóknum innan hagnýtra málvísinda. Þar skipta rannsóknir á tungumálakennslu, tileinkun erlendra tungumála og fjöltyngi sífellt meira máli enda varpa þær ljósi á eðli máltöku, málbeitingar og starfsemi mannsheilans. Sú þekking sem til hefur orðið með rannsóknunum setur nú svip sinn á umræðuna á þessu fræðasviði.

Í þessu fræðiriti er fjallað um nýjar rannsóknir á tileinkun og kennslu annars máls og erlendra tungumála. Mjög lítið hefur verið ritað á íslensku um þetta efni. Hér er því reynt að bæta úr brýnni þörf með því að koma á framfæri nýrri þekkingu í því skyni að styrkja fræðasviðið og efla umræðu um þessi mál á íslensku. Mál málanna inniheldur ellefu kafla eftir erlenda og innlenda höfunda. Nokkrir kaflanna eru frumsamdir fyrir bókina en aðrir hafa birst áður í erlendum tímaritum. Í sumum tilvikum er þar um að ræða lykilgreinar á fræðasviðinu.

Ritstjórar bókarinnar eru Auði Hauksdóttur, dósent í dönsku, og Birnu Arnbjörnsdóttur, dósent í rannsóknum og kennslufræði erlendra tungumála.

Útgefandi: Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum, 2008.

 

Villa á öræfum / Allein durch die Einöde

Bókin er ný tvímála útgáfa á þýsku og íslensku af kunnustu hrakningasögum Pálma Hannessonar, sem var rektor við Menntaskólann í Reykjavík og alþingismaður. Einnig fylgir ýtarleg greinargerð eftir Marion Lerner á þýsku og íslensku, en hún þýddi sögurnar á þýsku. Loks eru kort af sögusviði hverrar frásagnar í óbyggðum Íslands og er án vafa mikill fengur að þessu verki fyrir áhugamenn um hálendið og hrakningasögur Pálma Hannessonar sem hafa verið ófáanlegar árum saman.

Frásagnir Pálma hafa lengi notið hylli meðal landsmanna, bæði sem erindi flutt í útvarpi og á rituðu máli. Þær leika meira að segja hlutverk í glæpasögum Arnaldar Indriðasonar þar sem söguhetjan Erlendur er sífellt að lesa þær. Má því segja að frásagnir Pálma gegna því hlutverki í bókum Arnaldar að undirstrika íslensk sérkenni Erlends rannsóknalögreglumanns.

Þýðing Marion var hluti af viðfangsefni mastersritgerðar hennar í þýðingafræði við Háskóla Íslands.

Útgefandi: Háskólaútgáfan, 2008.

 

Hegravarpið

Þorpið er sögusvið kanadíska rithöfundarins Lise Tremblay í smásagnasafninu Hegravarpið (La héronnière) sem kom út í Montréal árið 2003.

Í grennd við nafnlaust þorp 600 kílómetra norður af Montréal finnst lík aðkomumanns. Íbúar þorpsins þegja þunnu hljóði og morðinginn finnst ekki þótt allir viti hver hann er. Móðir hans var í tygjum við þann látna og var í þann veginn að yfirgefa þetta auma pláss þar sem ekkert er við að vera og lífsafkoman byggist á sumargestum úr borginni, gráhærðum fuglafræðingum og blóðþyrstum veiðimönn-um. Mikil spenna ríkir í samskiptum innfæddra og aðkomumanna og hatrið kraumar undir niðri. Höfundurinn lýsir vanmætti íbúanna og dregur upp ófagra mynd af lífinu á lands-byggðinni þar sem trú og hefðir hafa vikið fyrir breyttum tímum.

Bókin vakti strax mikla athygli gagnrýnenda og hún fór heldur ekki fram hjá íbúum Trönueyjar (Isle-aux-Grues) þar sem Lise Tremblay var þá búsett. Í titilsögunni sækir höfundurinn innblástur í atburði sem gerst höfðu í eynni. Eyjarskeggjar þóttust sjá sjálfa sig í sögupersónum Tremblay og kunnu henni litlar þakkir fyrir. Hún hrökklaðist burt og kom sér fyrir í Montréal þar sem hún kennir bókmenntir og stundar ritstörf. Viðfangsefni hennar ná þó langt út fyrir ónafngreinda bæinn í norðri: Hún skrifar um einmanaleikann, rótlausa einstaklinga og óttann við umheiminn.

Lise Tremblay fæddist árið 1957 í litlum bæ í norðurhluta Québec-fylkis. Hún lauk prófi í blaðamennsku og lagði svo stund á bókmenntir og ritlist við Québec-háskóla í Montréal. Áður en Hegravarpið kom út hafði Lise Tremblay sent frá sér þrjár stuttar skáldsögur en með Hegravarpinu tókst henni að skipa sér í röð efnilegustu rithöfunda í Québec. Fyrir stuttu sendi hún svo frá sér sína fjórðu skáldsögu. Þrátt fyrir alvöru og vægðarleysi hafa verk hennar hrifið fjölmarga lesendur vestan hafs og hlotið mörg verðlaun og viðurkenningar.

Þýðendur bókarinnar eru Ásdís R. Magnúsdóttir, dósent í frönsku, Davíð Steinn Davíðsson, nemanda í frönsku og Linda Rós Arnarsdóttir, nemanda í frönsku.

Útgefandi: Háskólaútgáfan, 2008.

 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is