2009

Útgefið efni 2009

Raddir frá Kúbu: Smásögur kúbanskra kvenna

Smásagnasafn með fjórtán sögum eftir konur frá Kúbu.

Sögurnar eru skrifaðar á áratugunum eftir byltingu og eru fjölbreyttar að stíl og efni. Þær fjalla um líf og dauða, ástir og hatur, sorgir og gleði, en einnig um lífsbaráttuna á Kúbu og flóttann frá eyjunni.

Meðal höfunda smásagnanna er Dora Alonso, einn þekktasti smásagnahöfundur 20. aldar í hópi kvenna á Kúbu og Ena Lucía Portela sem er nú talin meðal efnilegustu rithöfunda landsins.

Bókin er ritstýrt af Kristínu Guðrúnu Jónsdóttur en Erla Erlendsdóttir, dósent í spænsku, valdi sögurnar og þýddi. Inngang rituðu Luisa Campuzano, forstöðumaður rannsóknastofu í kvennafræðum við Casa de las Américas stofnunina í Havana, og Erla Erlendsdóttir.

Útgefandi: Háskólaútgáfan, 2009.

 

Útlendingurinn

Þetta fræga skáldverk eftir Albert Camus kom fyrst út í Frakklandi árið 1942. Þar segir frá skrifstofumanninum Meursault sem fær sér kaffi og sígarettu við kistu látinnar móður sinnar vegna þess að honum þykir kaffi gott og langar að reykja. Við jarðarförina er hann þjakaður af hita og brennandi sól en finnur ekki til sorgar. Þegar hann verður svo manni að bana í óbærilegu sólskini er hann dæmdur fyrir að hafa jarðað móður sína með hjarta glæpamanns.

Útlendingurinn er ein af perlum heimsbókmenntanna og kemur nú öðru sinni fyrir almenningssjónir hér á landi. Irma Erlingsdóttir er ritstjóri bókarinnar en Ásdís R. Magnúsdóttr þýddi. Ásdís ritar einnig eftirmála um ævi höfundarins og verk hans. Í bókarlok er viðauki með hugleiðingum og æfingum fyrir nemendur.

Bókin er fimmta verkið í tvímála útgáfu á vegum Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. Önnur verk sem hafa komið út í ritröðinni eru leikritið Yerma eftir spænska skáldið Federico García Lorca, Umskiptin eftir rithöfundinn Franz Kafka, Gustur úr djúpi nætur, Ljóðasaga Lorca á Íslandi og Villa á öræfum eftir Pálma Hannesson.

Útgefandi: Háskólaútgáfan, 2009.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is