2011

Útgefið efni 2011

Ný ritröð - Vörður í menningarfræði samtímans.

bók GautaHafin er útgáfa nýrrar ritraðar á vegum Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur sem nefnist Vörður í menningarfræði samtímans. Fyrstu bækurnar í ritröðinni eru tvær, annars vegar Rekferðir, greinasafn eftir Guðna Elísson, prófessor í bókmenntafræðum við Háskóla Íslands og hins vegar Viðbrögð úr Víðsjá, safn ritdóma eftir Gauta Kristmannsson, prófessor í þýðingafræði við Háskóla Íslands.

Að sögn Gauta Kristmannssonar hefur ritröðin það að markmiði að birta greinasöfn sem fjalla um menningar- og fræðileg málefni samtímans. Í formála að ritröðinni ritar Gauti: ,,Menningarhugtakið er skilgreint vítt og verður hér hægt að birta verk sem snúast um afar ólík málefni, en eiga það sameiginlegt að eiga erindi við okkur í samtímanum. Fræðimenn geta hér látið gamminn geisa með dálítið öðrum hætti en í hefðbundnum fræðiritum, án þess að stökkva nokkuð frá hinni fræðilegu ábyrgð. Hér geta þeir hins vegar verið frjálsari í forminu og vafalaust verða sumar vörður veglegri en aðrar, en allar þurfa þær að eiga það sameiginlegt að vísa okkur veginn með einhverjum hætti án þess að benda í austur eða vestur, aðeins með því að vera vegvísar þar sem þær eru.“

bók GuðnaGuðni Elísson er prófessor í almennri bókmenntafræði í Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Hann skrifaði doktorsritgerð um Byron lávarð, en hefur á undanförnum tveimur áratugum ritstýrt fjölda bóka og skrifað greinar um bókmenntir, kvikmyndir og menningarmál. Auk þess hefur hann talsvert fjallað um umhverfisverndarorðræðuna og gagnrýnt pólitísk skrif um loftslagsvísindi.

Gauti Kristmannsson er prófessor í þýðingafræði í Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Hann stundaði nám í ensku við Háskóla Íslands, skoskum bókmenntum við Edinborgarháskóla og lauk doktorsprófi frá Johannes Gutenberg-háskólanum í Mainz/Germersheim og fjallaði doktorsritgerð hans um þátt þýðinga í tilurð þjóðarbókmennta í Bretlandi og Þýskalandi. Gauti hefur á undanförnum árum skrifað, þýtt og ritstýrt fjölda bóka um þýðingar, bókmenntir og fagurfræði. 

 

Tvímála útgáfa: Hliðargötur / Sideroads - Ljóð Jónasar Þorbjarnarsonar

HliðargöturÍ þessari ljóðabók yrkir skáldið Jónas Þorbjarnarson sig frá einum stað til annars. Hann fer í bakarí í Brussel, röltir um Reykjavík og tjaldar á Langanesi. Smám saman birtist ljóðalandakort sem vekur spurningar með lesandanum um staðina í lífinu. Hvar endum við og hvar byrja þeir staðir sem skipta okkur máli?

Útgáfa bókarinnar hlaut styrk frá Styrktarsjóði Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur og forlagi skáldsins, JPV útgáfu, sem gaf leyfi til þess að birta þessa ljóðabók hans í tvímála útgáfu á ensku og íslensku. 

Þýðendur: Ástráður Eysteinsson og Julian Meldon D'Arcy

 

 

Milli mála: Ársrit Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur

arsrit2010Annar árgangur ritsins er helgaður þýðingum. Í heftinu eru greinar eftir tólf fræðimenn Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur og kennara í Deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda og í Uppeldis- og menntunarfræðideild Háskóla Íslands. Sex greinanna fjalla á einn eða annan hátt um þýðingar og auk þess eru sex greinar um annað efni. Höfundum er gefinn kostur á að skrifa á móður- eða kennslumáli sínu og að þessu sinni eru birtar greinar á íslensku, dönsku, ensku og frönsku.

Ritstjórar bókarinnar eru Erla Erlendsdóttir og Rebekka Þráinsdóttir.

Útgefandi: Stofnun Vigdisar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum, 2011.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is