2013

Útgefið efni 2013

Milli mála – Tímarit um erlend tungumál og menningu

Milli_mala_2012Út kom hjá Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur og Háskólaútgáfunni Milli mála – Tímarit um erlend tungumál og menningu. Tímaritið kemur í stað ársrits Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur og er hið fjórða í röðinni. Þema heftisins er tungumál frá ýmsum sjónarhornum og eru greinarnar skrifaðar á íslensku, ensku, ítölsku, norsku, spænsku og þýsku. Í tímaritinu eru einnig nokkrar þýðingar af erlendum málum á íslensku.

Þeir fræðimenn SVF sem eiga greinar í tímaritinu Milli mála eru Birna Arnbjörnsdóttir, prófessor í annarsmálsfræðum, Erla Erlendsdóttir, dósent í spænsku, Gro-Tove Sandsmark, sendikennari í norsku, Hafdís Ingvarsdóttir, prófessor í menntunarfræðum, Jessica Guse, sendikennari í þýsku, Oddný G. Sverrisdóttir, prófessor í þýsku, Pétur Knútsson, dósent emeritus í ensku, Stefano Rosatti, aðjunkt í ítölsku, Þórhallur Eyþórsson fræðimaður og Þórhildur Oddsdóttir, aðjunkt í dönsku.

Þeir fræðimenn SVF sem eiga þýðingar í tímaritinu eru Ásdís R. Magnúsdóttir, prófessor í frönskum fræðum, Ásta Ingibjartsdóttir, aðjunkt í frönskum fræðum, Hólmfríður Garðarsdóttir, prófessor í spænsku, og Rebekka Þráinsdóttir, aðjunkt í rússnesku.
Ritstjórar bókarinnar eru Ásdís R. Magnúsdóttir, prófessor í frönskum fræðum, og Sigrún Á. Eiriksdóttir þýðandi.

Sjá nánar hér.

Útgáfa tímaritsins var fjármögnuð af Styrktarsjóði Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur og Rannsóknasjóði Hugvísindastofnunar.

 

Morð í dómkirkju

Murder_in_the_CathedralBókin Morð í dómkirkju eftir T.S. Eliot er komin út hjá Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur og Háskólaútgáfunni. Bókin kemur út í tvímála ritröð stofnunarinnar.

Morð í dómkirkju er vinsælasta leikrit T.S. Eliots, eins þekktasta ljóðskálds tuttugustu aldar. Leikritið var fyrst sett upp árið 1935 í Kantaraborg í Englandi og fjallar um píslarvætti Tómasar Beckets erkibiskups sem var veginn í dómkirkjunni í Kantaraborg 29. desember árið 1170.

Íslensk þýðing Karls J. Guðmundssonar er hér birt í fyrsta skipti í heild sinni við hlið enska frumtextans. Í inngangi að leikritinu er fjallað um ævi Eliots, hugmyndir hans um ljóðaleikritun, tilurð verksins, sögulegan bakgrunn þess og fleira því tengt.

Í sérstökum bókarauka hefur ritstjóri verksins sett saman spurningar og verkefni til að nota í kennslu leikritsins á framhaldsskólastigi.

Ritstjóri bókarinnar er Ingibjörg Ágústsdóttir, lektor í enskum bókmenntum við Háskóla Íslands.

 

Yfir saltan mar

Yfir_saltan_marBókin Yfir saltan mar er komin út hjá Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur og Háskólaútgáfunni. Bókin kemur út í tvímála ritröð stofnunarinnar og í henni er að finna safn þýðinga á ljóðum argentínska ljóðskáldsins, rithöfundarins og Íslandsvinarins Jorge Luis Borges. Þýðingarnar hafa áður birst í blöðum og tímaritum og er þetta í fyrsta sinn sem þær eru teknar saman og gefnar út í heild sinni.

Fjölmargir þýðendur hafa fengist við að snúa ljóðum Borgesar á íslensku og hafa sum ljóðin verið þýdd oftar en einu sinni. Lesendum gefst færi á að bera saman ólíkar þýðingar á sama texta. Ljóðaþýðingunum er fylgt úr hlaði með inngagni um ævi og yrkisefni Borgesar. Í bókinni er ennfremur að finna áður óbirta smásögu eftir Matthías Johannessen.

Ritstjórar bókarinnar eru Hólmfríður Garðarsóttir, prófessor við Háskóla Íslands og Sigrún Á. Eiríksdóttir, þýðandi.

Sjá nánar hér.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is