2014

Útgefið efni 2014

Rangan og réttan – Brúðkaup – Sumar: Þrjú ritgerðasöfn 

Albert_CamusÚt er komin hjá Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur og Háskólaútgáfunni bókin Rangan og réttan – Brúðkaup – Sumar: Þrjú ritgerðasöfn eftir franska rithöfundinn og heimspekinginn Albert Camus, í íslenskri þýðingu Ásdísar R. Magnúsdóttur.

Albert Camus var einn af þekktustu rithöfundum Frakka á 20. öld. Hann hóf rithöfundarferil sinn sem blaðamaður og ritgerðasmiður og fyrsta útgefna verk hans var ritgerðasafnið Rangan og réttan (L’envers et l’endroit) sem kom út í Algeirsborg árið 1937. Brúðkaup (Noces) kom út tveimur árum síðar en Sumar (L’été) árið 1954. Í þessum þremur verkum sem hér birtast í íslenskri þýðingu má finna skáldlegustu skrif Camus. Þar fléttar höfundurinn saman endurminningar og hugleiðingar um manninn og veröldina sem hann er hluti af.

Bókin er þriðja verkið sem út kemur í einmála ritröð Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. Þýðandi er Ásdís R. Magnúsdóttir og ritstjóri Rebekka Þráinsdóttir.

Útgáfa bókarinnar er styrkt af Miðstöð íslenskra bókmennta og Hugvísindastofnun.

 Latína er list mæt

Latina_er_list_maetLatína er list mæt er úrval greina Sigurðar Péturssonar um latínumenntir Íslendinga á tímabilinu 1550–1800. Í bókinni er fjallað um fjölda latneskra kvæða eftir íslenska höfunda og allnokkur kvæði birt í tvímála útgáfum ásamt umfjöllun og skýringum. Rætt er um nám í latneskri málfræði, latínumenntun kvenna, þýðingu latínukunnáttu í embættiskerfi fyrri alda, klassísk stef í meðförum íslenskra skálda og aðlögun latneskra bókmenntaforma að íslenskum veruleika. Bókinni fylgir kvæðaskráin Index carminum ab Islandis latine compositorum sem geymir brag- og bókfræðilegar upplýsingar um latínukvæði íslenskra skálda í aldanna rás.

Ritstjórar bókarinnar, sem gefin var út af SVF og Háskólaútgáfunni, voru þeir Gunnar Marel Hinriksson og Hjalti Snær Ægisson.

Útgáfa bókarinnar var fjármögnuð af Styrktarsjóði Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur, Miðstöð íslenskra bókmennta og Rannsóknasjóði Hugvísindastofnunar.

Frá hjara veraldar (Vom Rand der Welt)

Melitta_UrbancicÚt er komin í tvímála ritröð Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur og Háskólaútgáfunnar ljóðbókin Frá hjara veraldar (Vom Rand der Welt) eftir Melittu Urbancic. Þýðandi ljóðanna á íslensku er Sölvi Björn Sigurðsson en eftirmála ritar Gauti Kristmannsson.

Melitta Urbancic, fædd Grünbaum (1902-1984) leitaði hælis á Íslandi árið 1938 ásamt eiginmanni sínum, tónvísindamanninum, tónskáldinu og hljómsveitarstjóranum Victor Urbancic (1903-1958) og börnum þeirra. Fjölskyldan fluttist hingað frá heimalandinu, Austurríki, eftir valdatöku nasista, en Melitta var af gyðingaættum. Bæði hafa þau markað varanleg spor í menningarlíf Íslendinga.

Melitta Urbancic lagði stund á heimspeki og germönsk málvísindi við háskólann í Vínarborg og Ruprecht-Karls háskólann í Heidelberg. Hún lauk doktorsgráðu í Heidelberg með rannsókn sinni á verkum skáldsins Christian Dietrich Grabbe. Meðfram háskólanáminu stefndi hún á feril sem leikkona og fékk fyrsta ráðningarsamning sinn við leikhúsið í Koblenz undir listamannsnafninu Makarska. Hún hafði einnig áhuga á sviðum leikstjórnar og leikbókmennta.

Ferill hennar sem listakona tók snöggan enda vegna ofsókna nasista, hún flúði til Íslands og sneri ekki til baka til Austurríkis eftir lok stríðsins 1945. Á Íslandi starfaði Melitta við tungumálakennslu, bæði í MR og sem einkakennari heima fyrir. Hún kenndi ensku, frönsku og þýsku.

Ljóðabókina Vom Rand der Welt skrifaði Melitta um reynslu sína af útlegðinni á Íslandi en bókin kemur nú út í fyrsta sinn. Útgáfan er á þýsku og íslensku, með ítarlegum eftirmála um ævi og verk Melittu eftir Gauta Kristmannsson. Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur og Háskólaútgáfan gefa út. Melitta má heita óþekkt sem höfundur nema meðal þeirra sem hafa rannsakað verk fólks í útlegð. Engu að síður er framlag hennar á sviði ljóðlistar, bréfaskrifta, þýðinga og menningarlegra samskipta landanna tveggja verulegt, að ógleymdu frumkvæði hennar á sviði býflugnaræktar á Íslandi.

Útgáfa bókarinnar er styrkt af Miðstöð íslenskra bókmennta og Mannréttindaráði Íslands. 

 

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is