Alþjóðleg miðstöð tungumála og menningar

Vigdis_Finnbogadottir_og_Irina_Bokova

Á undanförnum árum hefur verið unnið ötullega að því að reisa sérstaka byggingu fyrir Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur sem mun hýsa alþjóðlega tungumálamiðstöð og alla kennslu og rannsóknir í erlendum tungumálum við Háskóla Íslands. Með tilkomu alþjóðlegrar tungumálamiðstöðvar verður starfsemi stofnunarinnar efld til mikilla muna.

Alþjóðleg miðstöð tungumála og menningar hlaut í nóvember 2011 samþykki Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, til að starfa undir merkjum hennar. Í vottun UNESCO felst mikil viðurkenning á störfum Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur og stuðningur við framtíðaráform hennar. Efnt var til samkeppni um hönnun byggingar fyrir tungumálamiðstöðina og aðra starfsemi stofnunarinnar og byggingarframkvæmdir hófust í mars 2015.

 

Fyrsta_skoflustunga

Fyrsta skóflustunga að Alþjóðlegri miðstöð tungumála og menningar var tekin á alþjóðadegi kvenna, sunnudaginn 8. mars 2015.

 

 

 

 

Samningur milli íslenskra stjórnvalda og UNESCO

Samningur um að alþjóðlega miðstöðin starfi undir merkjum UNESCO var undirritaður af Katrínu Jaboksdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, mánudaginn 15. apríl 2013, sjá nánar hér. Samningurinn var svo undirritaður af Irinu Bokovu, aðalframkvæmdastjóra UNESCO, þann 27. júní sama ár í höfuðstöðvum UNESCO í París.

Í tungumálamiðstöðinni verða sérstök heimasvæði fyrir þau 13 tungumál, sem kennd eru við Háskóla Íslands, auk sérhæfðs bókasafns og gagnasmiðju með efni sem tengist tungumálakennslu og menningarfræðslu. Þar verður einnig aðstaða fyrir fundi og ráðstefnuhald og fyrir samstarf við erlenda og innlenda gestafræðimenn. 
Einnig verður starfrækt fræðslu- og upplifunarsetur sem verður glæsilegur vettvangur fyrir erlend tungumál og menningu og allt sem lýtur að samskiptum Íslands við erlendar þjóðir. Þar verða haldnar sýningar og aðrir skipulagðir viðburðir sem tengjast ólíkum menningar- og málsvæðum. Hér geta gestir og gangandi fræðst um og upplifað erlend tungumál og skyggnst inn í ólíka menningarheima. Áhersla verður lögð á listræna og lifandi framsetningu og margmiðlun, m.a. í sýndarveruleika. Einnig verða haldnar sýningar og skipulagðir viðburðir sem tengjast ólíkum menningar- og málsvæðum.
Í tungumálamiðstöðinni verður fyrirlestrasalur tileinkaður Vigdísi þar sem hægt verði að fræðast um líf Vigdísar og störf, ekki síst í þágu tungumála.

Starfsreglur Alþjóðlegrar miðstöðvar tungumála og menningar

Starfsreglur Alþjóðlegrar miðstöðvar tungumála og menningar frá 27. nóvember 2012, með breytingum frá 28. maí 2018.

 

Stjórn Alþjóðlegrar miðstöðvar tungumála og menningar

Stjórn Alþjóðlegrar miðstöðvar tungumála og menningar.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is