Ársskýrsla 2001

Nafnbreyting í Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum

Á fundi í heimspekideild þann 26. apríl 2001 var samþykkt tillaga um nafnbreytingu á Stofnun í erlendum tungumálum í Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. Í greinargerð með tillögunni stendur m.a.:

„Tilgangurinn með nafnbreytingunni er tvíþættur. Annars vegar að heiðra frú Vigdísi fyrir ötult starf í þágu tungumála. Hins vegar að styrkja rannsóknir og kennslu í erlendum málum og íslensku sem erlendu máli. Frú Vigdís Finnbogadóttir hefur sem kunnugt er verið öflugur talsmaður mikilvægis tungumálakunnáttu, jafnt erlendra mála sem móðurmálsins og hefur lagt drjúgan skerf til þessa málaflokks í störfum sínum sem kennari, forseti Íslands og nú síðast á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.

Með því að að kenna stofnunina við frú Vigdísi Finnbogadóttur sýnir heimspekideild hug sinn í verki til merkilegs framlags hennar á þessu sviði. Jafnframt mun það verða Stofnun í erlendum tungumálum mikil lyftistöng að tengjast nafni og störfum frú Vigdísar.“

Samþykkt heimspekideildar um nafnbreytingu var bókuð á fundi í háskólaráði þann 3. maí 2001.

Hinn 1. október var haldin hátíðarsamkoma í tilefni af stofndegi Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og var hún fyrsti liðurinn í afmælisdagskrá sem haldin var í tilefni af 90 ára afmæli HÍ. Ávörp fluttu Páll Skúlason rektor og Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands. Þorsteinn Gylfason, prófessor flutti erindið „Vesenið við Babelsturninn“ og Barnakór Kársnesskóla söng lög frá ýmsum löndum undir stjórn Þórunnar Björnsdóttir. Undirleik annaðist Martin Hunger Friðriksson. Athöfnin, sem fór fram í Hátíðasal HÍ, var fjölsótt.

Starfssvið og hlutverk

Markmið Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum er að styðja og efla kennslu í erlendum tungumálum og byggja upp öflugar rannsóknir á sviði málvísinda, bókmennta- og menningarfræði, þýðinga og kennslufræði erlendra mála. Auk rannsókna er það eitt af markmiðum stofnunarinnar að miðla upplýsingum um nýjungar í kennslu erlendra tungumála fyrir öll stig menntunar og efna til fræðilegrar umræðu í þjóðfélaginu um framangreind rannsóknasvið og um hlutverk tungumála í þjóðfélaginu almennt. Auk útgáfu fræðirita stendur stofnunin fyrir fyrirlestrahaldi, ráðstefnum og málstofum um efni sem tengjast fræðasviðum hennar.

Stjórn

Pétur Knútsson var forstöðumaður í Stofnun í erlendum tungumálum mestan hluta ársins 2001, en aðrir í stjórn voru Oddný G. Sverrisdóttir og Torfi H. Tulinius. Á aðalfundi þann 1. nóvember var kosin ný stjórn, en hana skipa: Auður Hauksdóttir forstöðumaður og Oddný G. Sverrisdóttir varaforstöðumaður. Í fagráði sitja auk þeirra Gauti Kristmannsson, Margrét Jónsdóttir og Matthew J. Whelpthon. Guðrún H. Tulinius starfaði sem verkefnisstjóri í hálfu starfi frá 1. ágúst til áramóta.

Ráðstefnur og málstofur

Dagana 23.-25. maí var haldin norræn ráðstefna um rannsóknir á norrænum málum sem öðru og erlendu máli. Sérstakir gestir á ráðstefnunni voru Richard Schmidt, prófessor við University of Hawaii og Paul Meara, prófessor við University of Swansea en auk þeirra voru aðalfyrirlesarar Esther Glahn, Gisela Håkansson, Maisa Martin, Karen Lund, J. Normann Jørgensen, Juni Söderberg Arnfast, Kenneth Hyltenstam og Niclas Abrahamsson. Auk sameiginlegrar dagskrár voru fluttir 38 fyrirlestrar í 12 málstofum. Fjöldi þátttakenda var 124 þar af 110 erlendir gestir. Umsjón með ráðstefnuninni höfðu Sigríður Þorvaldsdóttir, María Garðarsdóttir, Birna Arnbjörnsdóttir og Auður Hauksdóttir. Ráðstefnan var styrkt af Norræna menningarsjóðnum, Styrktarsjóði Clöru Lachmann, Háskóla Íslands og menntamálaráðuneytinu.

Dagana 14.-16. desember stóð stofnunin í samvinnu við Þýðingasetur og Hugvísindastofnun fyrir ráðstefnunni Menningarmiðlun í ljóði og verki. Ráðstefnan var haldin í tilefni af evrópsku tungumálaári og var hún styrkt af Evrópusambandinu, Bókmenntakynningasjóði, menntamálaráðuneytinu og Rithöfundasambandinu. Ráðstefnan hófst með málþingi í Hátíðasal undir yfirskriftinni Margtyngdar bókmenntir; draumórar eða veruleiki. Helstu fyrirlesarar voru Manfred Peter Hein, Andreas F. Kelletat, Christopher Whyte, Þorsteinn Gylfason og Ástráður Eysteinsson. Laugardaginn 15. desember voru haldnar vinnustofur og verkstæði í ljóðaþýðingum, þar sem þýðendur, skáld, fræðimenn og áhugamenn báru saman bækur sínar. Ráðstefnunni lauk á sunnudeginum 16. desember með ljóðahátíð í Borgarbókasafni. Umsjón með ráðstefnunni hafði Gauti Kristmannsson.

Málfræðimálstofa undir stjórn Matthews Whelptons lektors í enskum málvísindum var haldin vikulega - á bæði vor- og haustmisseri. Um tuttugu kennarar í heimspekideild auk gesta frá öðrum deildum og skólum héldu fyrirlestur þar sem þeir kynntu rannsóknarverkefni sín. Viðfangsefni spönnuðu vítt svið, frá kennslufræði tungumála til talmeinafræði, íslenskrar málverndar, setningarfræði og samanburðarhljómfallsfræði. Fundirnir voru að jafnaði haldnir í hádegini og urðu fjörugir og allfjölmennir.

Dagana 5. og 6. júní gekkst stofnunin fyrir málstofu um málnotkunargreiningu og gagnvirk tjáskipti. Fyrirlesari á málstofunni var Gabriele Kasper, prófessor við University of Hawaii.

Evrópskt tungumálaár

Í tilefni af evrópsku tungumálaári gekkst stofnunin fyrir dagskrá í Hátíðasal Háskóla Íslands á Degi tungumálanna þann 26. september. Á dagskránni voru þrjú erindi: Guðbergur Bergssson fjallaði um þýðingar bókmenntaverka, Fríða Björk Ingvarsdóttir fjallaði um menningarlæsi og Gauti Kristmannson fjallaði um fjölmiðla og fjöltyngi.

Rannsóknarstyrkur

Stofnunin veitti Birnu Arnbjörnsdóttur, aðjunkt við enskuskor, 400.000 kr. styrk til að vinna undirbúningsrannsókn á tengslum milli kenninga og reyndar í tungumálakennslu. Rannsóknin nær til tungumálakennara og nemenda í 4 framhaldsskólum.

Útgáfustarfssemi

Stofnun gaf út tvö greinasöfn á árinu 2001. Hið fyrra kom út undir nafni Stofnunar í erlendum tungumálum, en hið síðara undir nafni Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. Ritin voru gefin út í samvinnu við Norræna félagið um kanadísk fræði (The Nordic Association for Canadian Studies, NACS), en þau eru fyrst og fremst afrakstur fjölþjóðlegrar ráðstefnu sem NACS hélt á vegum Stofnunar í erlendum tungumálum við Háskóla Íslands í ágúst 1999 undir yfirskriftinni Rediscovering Canada. Fyrra ritið Rediscovering Canada - Image, Place and Text, sem inniheldur 23 greinar er nr. 16. í fræðiritröðinni NACS TEXT Series. Síðara ritið Rediscovering Canadian Difference er nr. 17 í sömu ritröð. Ritstjóri og höfundur inngangs að greinasöfnunum er Guðrún Björk Guðsteinsdóttir, sem er aðalritstjóri NACS Text Series.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is