Ársskýrsla 2002

Starfssvið og hlutverk

Markmið Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur er að stuðla að öflugum rannsóknum í erlendum tungumálum. Helstu fræðasvið sem heyra til stofnunarinnar eru: bókmenntir, kennslufræði erlendra mála og máltaka, málfræði, málvísindi, menningafræði, táknfræði, þýðingafræði og notagildi tungumála í atvinnulífinu. Auk rannsóknastarfs er markmið stofnunarinnar að styðja og efla kennslu í erlendum tungumálum jafnt innan Háskólans sem utan. Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur er til ráðuneytis um þróunarstarf og rannsóknir sem snerta tungumálakennslu og hún er vettvangur fræðilegrar umræðu um erlend tungumál. Stofnunin gengst fyrir ráðstefnum, námskeiðum og málstofum og stendur að útgáfu fræðirita.

Stjórn og fagráð

Forstöðumaður Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur var Auður Hauksdóttir, lektor í dönsku en varaforstöðumaður Oddný G. Sverrisdóttir, dósent í þýsku. Í fagráði sátu auk þeirra Gauti Kristmannsson, aðjunkt í þýðingafræðum, Margrét Jónsdóttir, lektor í spænsku og Matthew J. Whelpton, lektor í ensku. Jórunn Tómasdóttir var verkefnisstjóri í hálfu starfi frá 1. janúar til 1. júní, en hinn 15. júlí tók Guðný Guðlaugsdóttir við starfi verkefnisstjóra í fullu starfi.

Helstu verkefni fagráðs á árinu 2002 voru sem hér segir:

  • stefnmótun m.a. vinna við nýjar starfsreglur SVF og við undirbúning stofnunar styrktarsjóðs stofnunarinnar
  • skipulagning fyrirlestra, málþinga og ráðstefna
  • kynningarmál
  • kynning á SVF í Japan

Stefnumótun

Umtalsverð vinna var lögð í stefnumótun m.a. við að leggja drög að starfsreglum fyrir stofnunina. Haldnir voru tveir fundir með starfsmönnum SVF um nýjar starfsreglur, sem lagðar verða fyrir ársfund SVF í byrjun árs 2003. Þá hefur verið unnið að undirbúningi Styrktarsjóðs Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur, sem settur verður á laggirnar í byrjun árs 2003.

Fyrirlestrar

Á árinu 2002 voru fluttir 16 fyrirlestrar á vegum Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur. Guðrún Björk Guðsteinsdóttir, dósent í ensku reið á vaðið í lok febrúar með fyrirlestur um kanadískar bókmenntir. Næstur á dagskrá var fyrirlestur Eyjólfs Más Sigurðssonar, deildarstjóra Tungumálamiðstöðvar HÍ, sem fjallaði um sjálfsnám í tungumálum. Í samvinnu við Alliance française og franska sendiráðið flutti Torfi H. Tulinius, dósent í frönsku, fyrirlestur um Victor Hugo og Frakkland 19. aldar. Fransk-marokkóski rithöfundurinn Tahar Ben Jelloun fjallaði um verk sín. Í maí voru fluttir þrír fyrirlestrar. Í fyrsta fyrirlestrinum fjallaði Jóhanna Kristjónsdóttir blaðamaður um arabískan menningarheim og menningarlæsi. Jón G. Friðjónsson prófessor flutti fyrirlestur um forsetningar í íslensku, en í lokafyrirlestri vormisseris fjallaði skáldið og þýðandinn Chris Dolan um skoskar og suður-amerískar bókmenntir. Í fyrsta fyrirlestri haustmisseris fjallaði spænski rithöfundurinn Manuel Rivas um verk sín. Þá flutti Margrét Jónsdóttir lektor í spænsku fyrirlestur um miðaldahetjuna El Cid í hugmyndafræði fasisma á Spáni. Lektorarnir Maria Green-Vänttinen og Taina Kaivola frá Helsinkiháskóla kynntu rannsóknaverkefni sitt í fyrirlestrinum "Att undervisa svenska som andraspråk i Finland: Presentation av en studie i attityder och metoder". Miyako Þórðarson, prestur heyrnarlausra, flutti fyrirlestur sem nefndist: Hvernig er að vera Japani á Íslandi? Julian D'Arcy, dósent í enskum bókmenntum, fjallaði um íþróttabókmenntir í fyrirlestrinum "Að færa mörkin" Íþróttabókmenntir, hvað er það? Michael Svendsen Pedersen, lektor við Hróarskelduháskóla, skýrði frá umræðu um tungumálakennslu í Danmörku í fyrirlestrinum "Sprogfagenes faglighed. Glimt af en aktuel diskussion i Danmark".  Í síðasta fyrirlestri ársins fjallaði Hólmfríður Garðarsdóttir aðjunkt í spænsku um tungumálakennslu sem grundvöll samvinnu og samkenndar í fjöltyndri og fjölmenningarlegri Evrópu.

Málstofa um málvísindi

Á kennslutíma Háskólans gekkst Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur að jafnaði vikulega fyrir málstofu um málvísindi, þar sem fræðimenn fjölluðu um rannsóknir sínar eða tengd efni. Málstofurnar voru haldnar á föstudögum kl. 11.15 og umsjón með þeim hafði Matthew J. Whelpton, lektor í ensku. Þar sem Matthew var í rannsóknaleyfi á vormisseri 2002 var umsjónin á þeim tíma á hendi Höskuldar Þráinssonar prófessors.

Málþing um færeyskt mál og menningu

Í apríl gekkst SVF fyrir málþingi um færeyskt mál og menningu. Dagskráin var styrkt af Norrænu ráðherranefndinni og voru einstaka fyrirlestrar haldnir í samvinnu við Íslenska málfræðifélagið, Nafnfræðifélagið, Rannsóknarstofnun KHÍ og Samtök móðurmálskennara. Færeyski nafnfræðingurinn Anfinnur Johansen fjallaði um færeysk mannanöfn. Í fyrirlestrinum "Samanbrotið-samfelagskreppan og politiska læran" fjallaði Jógvan Mörköre, dósent við Sögu- og samfélagsdeild Fróðskaparsetursins um samfélagsþróun í Færeyjum. Málfræðingurinn Zakaris Svabo Hansen hélt fyrirlestur um færeyska stafsetningu og bókmenntafræðingurinn Vár í Ólavsstovu greindi frá stöðu dönsku og færeysku í færeyska skólakerfinu. Martin Næs landsbókavörður hélt lokafyrirlestur málþingsins og nefndist hann "Av Varðagötu á Gljúfrastein" og fjallaði um rithöfundana Heinesen og Laxness.

Málþing um tungutækni og notkun tölva við tungumálarannsóknir, þýðingar og tungumálakennslu

Dagana 12.-14. september stóð SVF fyrir málþingi um tungutækni og notkun tölva við tungumálarannsóknir, þýðingar og tungumálakennslu. Málþingið var styrkt af NorFA. Alls fluttu 10 fræðimenn fyrirlestra um efni málþingsins, þar af 6 erlendir. Bjarki Brynjarsson framkvæmdastjóri nýsköpunarsviðs Nýherja fjallaði um nýjustu tækniþróun í tölvumálum. Birna Arnbjörnsdóttir lektor skýrði frá þróunar- og rannsóknarverkefninu Icelandic - On line. Guðrún Theódórsdóttir aðjunkt kynnti margmiðlunarefnið "Small is beautiful", en þar er um að ræða kennsluefni í íslensku fyrir útlendinga. Anju Saxena dósent við Uppsalaháskóla fjallaði um notagildi textasafna og upplýsingatækni í rannsóknum og í málfræðikennslu á háskólastigi. Allan J. Kristensen lektor í Edinborg og Lene Rybner skýrðu frá tilraunaverkefni um notkun upplýsinga- og samskiptatækni í dönskukennslu á háskólastigi. Jens Allwood prófessor við Gautaborgarháskóla fjallaði um tungumálarannsóknir og kennslu á háskólastigi byggðar á textasöfnum úr töluðu máli. Hanne Fersøe frá Center for Sprogteknologi í Kaupmannahöfn hélt fyrirlestur um þýðingaminni og notkun textasafna við þýðingar og tungumálarannsóknir. Í fyrirlestri sínum fjallaði prófessor Kris Van de Poel forstöðumaður tungumálamiðstöðvarinnar Centrum voor Taal en Spraak í Belgíu um tungumálanám og virk tjáskipti með margmiðlun og loks greindi Daniel Jung, sem starfar við Háskólann í Bergen, frá tilraunaverkefni um notkun upplýsingatækni í þýskukennslu. Fagleg umsjón var í höndum Auðar Hauksdóttur, forstöðumanns SVF.

Ráðstefna um strauma og stefnu í tungumálakennslu og Hnattvæðingaráðstefna Háskóla Íslands

Í tilefni af Evrópska tungumáladeginum þann 26. september stóð menntamálaráðuneytið fyrir ráðstefnu um strauma og stefnur í tungumálakennslu á Íslandi. Ráðuneytið fól SVF að annast skipulagningu og framkvæmd ráðstefnunnar, sem haldin var á Grand Hóteli. Loks má nefna, að Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur átti aðild að tveimur málstofum á Hnattvæðingarráðstefnu Háskóla Íslands, sem fram fór 18. október. Fyrirlesarar af hálfu SVF voru Pétur Knútsson lektor í ensku, Gauti Kristmannsson aðjunkt í þýðingafræðum, Hans J. Vermeer prófessor við Háskólann í Heidelberg og lektorarnir Dilek Dizdar og Sebnem Bahadir við Bogazici háskólann í Istanbul.

Málþing um tungumál og atvinnulíf

Á árinu voru haldin tvö málþing um tungumál og atvinnulíf í umsjón Gauta Kristmannsonar aðjunkts. Hið fyrra var haldið á vormisseri og fjallaði um samskipti þýðenda og verkkaupa. Fyrirlesarar voru: Gauti Kristmannsson, Hrafnhildur Stefánsdóttir lögfræðingur hjá Samtökum atvinnulífsins og þýðendurnir Keneva Kunz  og Vilhelm Steinsen. Seinna málþingið var haldið 28. nóvember undir yfirskriftinni: Hugbúnaðarþýðingar á Íslandi. Fyrirlesarar á ráðstefnunni voru Vigdís Finnbogadóttir fyrrum forseti Íslands, Björn Bjarnason alþingismaður og fyrrum menntamálaráðherra, Peter Weiß deildarstjóri Tungumálamiðstöðvar HÍ, Pálmi Hinriksson, framkvæmdastjóri Skýrr og Anna Sigríður Gunnarsdóttir, verkefnastjóri Skýrr.

Útgáfa

Á árinu 2002 voru eftirfarandi rit gefin út innan vébanda SVF:
 

  • Rediscovering Canada: Culture and Politics. NACS Text Series 19. Ritstjórar verksins eru Guðrún Björk Guðsteinsdóttir og John Erik Fossum. Háskólaútgáfan 2002.
  • Akten des V. Treffen der nordeuropäischen Germanistik, Reykjavík, Island, 1.-6. Juni 1999. Ritstjórar: Oddný Sverrisdóttir og Peter Weiß. Háskólaútgáfan 2002.   

Unnið var að útgáfu rannsóknarits um ráðstefnu í norrænum málum sem öðru og erlendu máli, sem haldin var í Háskóla Íslands í maí 2001 og auk þess að útgáfu efnis frá ljóðaþýðingaráðstefnu Þýðingaseturs, sem fram fór í desember 2001. Efnið verður gefið út í samvinnu við tímarit þýðenda, Jón Á Bægisá.

Rannsóknastaða nýdoktors hjá Rannís

Erla Hallsteinsdóttir Dr. phil hefur starfað á rannsóknastöðustyrk Rannís fyrir nýdoktora hjá Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur. Erla vinnur að íslensk-þýsku rannsóknaverkefni á sviði orðaforða.

Kynningarefni

  • Á árinu var gefinn út kynningarbæklingur um SVF á íslensku, ensku og japönsku.
  • Dagskrár vor- og haustmisseris 2002 voru prentaðar og dreift allvíða.
  • Heimasíða SVF var uppfærð reglulega.
  • Allmikil umfjöllun hefur verið um stofnunina í fjölmiðlum, m.a. í tengslum við málstofur, ráðstefnur og fyrirlestra á hennar vegum.

Kynningarátak í Japan

Dagana 9.-17. nóvember stóð SVF fyrir viðamiklu kynningarátaki í Japan, en japönskukennsla mun hefjast við Háskóla Íslands haustið 2003.

Forstöðumaður SVF og Vigdís Finnbogadóttir tóku þátt í kynningarátakinu, sem skipulagt var í nánu samstarfi við Ingimund Sigfússon sendiherra Íslands í Japan. Kynningarátakið var styrkt af íslenskum stjórnvöldum, P. Samúelssyni h.f. og K.K. Viking/Icelandair í Japan.

Megintilgangur kynningarinnar var að efla tengsl við japanska háskóla m.a. með nemenda- og kennaraskiptum og rannsóknasamstarfi. Jafnframt var tilgangurinn að leita eftir stuðningi við starfsemi SVF.

Auk Háskóla Sameinuðu Þjóðanna voru Wasedaháskóli, Tokaiháskóli og Gakushuinháskóli heimsóttir.

Vigdís Finnbogadóttir fyrrum forseti Íslands og Auður Hauksdóttir forstöðumaður SVF fluttu opinbera fyrirlestra við Wasedaháskóla og jafnframt flutti Vigdís erindi við opnun norrænnar viku í Tokaiháskóla.

Þá áttu fulltrúar SVF fund með Hiroaki Fujii forseta Japan Foundation. Í tengslum við ferðina var gefið út kynningarefni um stofnunina á japönsku.

Ferðin tókst í alla staði mjög vel. Ítarleg skýrsla hefur verið gerð um ferðina, sem send hefur verið menntamálaráðherra, utanríkisráðherra, sendiherra Íslands í Japan, rektor Háskóla Íslands og deildarforseta heimspekideildar. Skýrslan liggur frammi á skrifstofu SVF.

Liðsinni Vigdísar Finnbogadóttur og styrktaraðila

Vigdís Finnbogadóttir hefur reynst stofnuninnni ómetanlegur bakhjarl. Hún hefur tekið virkan þátt í starfi stofnunarinnar og tók hún meðal annars þátt í kynningarátakinu í Japan. Í tilefni af árs starfsafmæli SVF var starfsmönnum og nokkrum velunnurum stofnunarinnar boðið til móttöku í Skólabæ þann 17. desember. Við það tækifæri afhenti Vigdís stofnuninni til varðveislu málverk úr einkasafni sínu. Málverkið, sem er eftir Jóhannes Geir, fékk Vigdís að gjöf frá Alþingi Íslendinga á 60 ára afmæli hennar. Hr. Páll Skúlason, háskólarektor veitti verkinu viðtöku.

Hollvinasamtökum Háskóla Íslands og styrktaraðilum stofnunarinnar var sérstaklega þakkaður veittur stuðningur, en þeir eru:  K.K.Viking/Icelandair Japan, Menningarsjóður Íslandsbanka, Menningar- og styrktarsjóður Búnaðarbankans, Menningarsjóður VÍS, P. Samúelsson hf., Prentsmiðjan Gutenberg, Sjóvá-Almennar, Smith og Norland, Sparisjóðurinn í Keflavík og Sparisjóður vélstjóra.

Samstarfssamningar Þýðingaseturs

Þýðingasetrið gerði samstarfssamning við Skýrr um vinnu við innleiðingu á fjárhags- og mannauðskerfi Oracle fyrir íslenska ríkið og fólst vinnuframlag Þýðingaseturs aðallega í ráðgjöf. Jafnframt hefur Þýðingasetrið starfað með Össuri hf. að þýðingum á erlend mál og veitt fyrirtækinu ráðgjöf um tilhögun á fjölmála þýðingum.
Á byrjun síðu

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is