Ársskýrsla 2010

Stjórn og starfsmenn 

Hjá Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum starfa 35 fræðimenn. Á árinu gegndi Auður Hauksdóttir starfi forstöðumanns stofnunarinnar og varaforstöðumaður var Oddný G. Sverrisdóttir.

Á ársfundi vorið 2010 var kosið nýtt fagráð til tveggja ára. Í því eiga sæti, auk forstöðumanns og varaforstöðumanns, þau Birna Arnbjörnsdóttir, Gauti Kristmannsson, Geir Sigurðsson, Kristín Guðrún Jónsdóttir og Rebekka Þráinsdóttir. Úr fagráði gengu Lars Göran Johanson, Júlían M. D’Arcy og Hólmfríður Garðarsdóttir.

Laufey Erla Jónsdóttir lét af starfi verkefnastjóra á vordögum. Svanhvít Aðalsteinsdóttir var tímabundið ráðin verkefnastjóri í byrjun árs 2010 til að annast skipulagningu hátíðardagskrár, sem haldin var í tilefni af stórafmæli Vigdísar. Þegar Laufey lét af störfum tók Svanhvít við starfi verkefnastjóra og sinnti því uns Hrefna Ingólfsdóttir var ráðin til stofnunarinnar í október. 

Á árinu 2010 hlutu þær Ásdís R. Magnúsdóttir, Guðrún Björk Guðsteinsdóttir, Hólmfríður Garðarsdóttir og Oddný G. Sverrisdóttir framgang í stöðu prófessors.

Starfssvið og hlutverk 

Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum er rannsóknastofnun innan Hugvísindastofnunar Háskóla Íslands. Stofnunin er rannsóknavettvangur kennara í deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda, sem starfar innan Hugvísindasviðs. Rannsóknir stofnunarinnar snúast um erlend tungumál frá ýmsum sjónarhornum, en helstu rannsóknarsviðin eru: 

• Málvísindi, m.a. samanburðarmálvísindi, máltaka, orðaforði, hljóðfræði 

• Bókmenntir, m.a. bókmenntir einstakra þjóða og málsvæða, t.d. enskar og þýskar bókmenntir, asískar og rómanskar bókmenntir og Norðurlandabókmenntir 

• Menningarfræði í tengslum við ákveðin málsvæði og samanburð milli málsvæða í sögu og samtíð 

• Samskipti á erlendum málum og notagildi þeirra í atvinnulífi 

• Kennsla erlendra tungumála, m.a. þróun kennslugagna 

• Þýðingar, m.a. bókmennta og nytjaþýðingar

Tungumál eru lykill að menningu þjóða. Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur leggur áherslu á að auka skilning á því að fjölmenningarleg viðhorf og þekking á öðrum þjóðum og tungumálum fela í sér persónulegan, menningarlegan og efnahagslegan ávinning. Hnattvæðing kallar á þekkingu og færni sem tekur mið af sívaxandi samskiptum á öllum sviðum. Einstaklingar, stofnanir og fyrirtæki sem nýta sér tungumálakunnáttu og menningarinnsæi standa betur að vígi á alþjóðavettvangi en ella. Í rannsóknastarfi er haft að leiðarljósi að auka tungumálakunnáttu á öllum sviðum þjóðlífsins og efla menningarmiðlun. Þannig stuðlar stofnunin að auknum og jákvæðum samskiptum við fólk af erlendu þjóðerni og aukinni menningarfærni einstaklinga og þjóðfélagsins í heild. Stofnunin leggur sérstaka áherslu á miðlun upplýsinga um nýjungar í kennslu tungumála á öllum menntastigum, enda er það markmið stofnunarinnar að styðja kennslu í erlendum tungumálum og byggja upp öflugar rannsóknir á því sviði. 

Auk rannsókna stuðlar stofnunin að upplýstri umræðu í þjóðfélaginu um tungumál, tungumálanám, samskipti á erlendum tungum og menningarfræði. Þetta hlutverk sitt rækir hún með fyrirlestraog ráðstefnuhaldi auk útgáfu fræðirita og kennsluefnis. Stofnunin tekur þátt í krefjandi verkefnum á fræðasviði sínu í samstarfi við íslenska og erlenda fræðimenn og háskólastofnanir. 

Stofnunin fær árlegt framlag frá Háskóla Íslands en auk þess hafa fyrirtæki og stofnanir, ásamt menningarog rannsóknarsjóðum, veitt styrki til að hrinda sérstökum verkefnum í framkvæmd. Starfsmenn hafa einnig hlotið fjölda styrkja úr innlendum og erlendum samkeppnissjóðum til rannsókna sinna. 

Í tengslum við SVF er starfræktur styrktarsjóður, sem hefur að markmiði að stuðla að vexti og viðgangi stofnunarinnar. Sjóðurinn veitir styrki, fjárframlög og annan stuðning við verkefni af ýmsu tagi. Sjá nánari upplýsingar um Styrktarsjóð Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum á http://www.vigdis.hi.is/styrktarsjodur

Starfsemi stofnunarinnar 

Helstu þættir í starfsemi stofnunarinnar eru rannsóknir fræðimanna og miðlun þeirra. Í þessu skyni stendur stofnunin fyrir ráðstefnum, málþingum og fyrirlestraröðum auk þess sem útgáfa fræðirita er ríkur þáttur í starfseminni. Stofnunin á í víðtæku samstarfi við fræðimenn og háskólastofnanir víðs vegar um heim, sem fjöldi fyrirlestra erlendra gestafyrirlesara er til vitnis um. 

Stærsti viðburður ársins var alþjóðlega vísindaráðstefnan Varðveisla framtíðar: Sjálfbærni tungumáls, menningar og náttúru, sem efnt var til dagana 15.17. apríl í tilefni af 80 ára afmæli Vigdísar Finnbogadóttur. Auk þess stóð stofnunin, í samvinnu við rektor Háskóla Íslands, menntamálaráðuneytið, utanríkisráðuneytið, Reykjavíkurborg og fjölmörg félagaog áhugamannasamtök, fyrir hátíðardagskrá á afmælisdaginn. Skipuð var sérstök afmælisnefnd, sem hafði yfirumsjón með viðburðunum tveimur, en í henni áttu sæti: Anna Soffía Hauksdóttir, fulltrúi rektors, Einar Hreinsson, fulltrúi menntamálaráðuneytisins, Helgi Ágústsson fulltrúi utanríkisráðueytisins, Regína Ásvaldsdóttir frá Reykjavíkurborg og Auður Hauksdóttir, Gauti Kristmannsson, Geir Sigurðsson og Oddný G. Sverrisdóttir frá Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur. 

Að venju var haldið upp á Evrópska tungumáladaginn í samvinnu við STÍL – Samtök tungumálakennara á Íslandi og efnt til menningartengdra viðburða svo sem kvikmyndasýninga og bókmenntakynninga. 

 

Miðlun rannsókna árið 2010

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is