Ársskýrsla 2011

Stjórn og starfsmenn 

Hjá Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum starfa að jafnaði á fjórða tug fræðimanna. Á árinu gegndi Auður Hauksdóttir starfi forstöðumanns stofnunarinnar og varaforstöðumaður var Oddný G. Sverrisdóttir. Fagráð stofnunarinnar var kosið vorið 2010 til tveggja ára, en í því eiga sæti, auk forstöðumanns og varaforstöðumanns, þau Birna Arnbjörnsdóttir, Gauti Kristmannsson, Geir Sigurðsson, Kristín Guðrún Jónsdóttir og Rebekka Þráinsdóttir. Verkefnastjóri var Hrefna Ingólfsdóttir.

Fagráðið kom saman sjö sinnum á árinu, en auk þess voru haldnir nokkrir fundir með starfsmönnum stofnunarinnar. Dagana 14.-15. apríl átti fagráðið fund með prófessorunum Jens Allwood við Gautaborgarháskóla og Peter Austin við SOAS í Lundúnum, en þeir eiga báðir, ásamt Anju Saxena, prófessor við Uppsalaháskóla, og Bernard Comrie, prófessor og forstöðumanns hjá Max Planck stofnuninni í Leipzig, sæti í alþjóðlegri nefnd sem hefur verið SVF til ráðgjafar um alþjóðlegu tungumálamiðstöðina.

Í ritstjórn Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur sátu Ásdís R. Magnúsdóttir, Erla Erlendsdóttir og Gauti Kristmannsson.

Á árinu hlaut Gauti Kristmannsson framgang í starf prófessors.

Starfssvið og hlutverk 

Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum er rannsóknastofnun innan Hugvísindastofnunar Háskóla Íslands og rannsóknavettvangur kennara í Deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda. Rannsóknir stofnunarinnar snúast um erlend tungumál frá ýmsum sjónarhornum, en helstu rannsóknarsviðin eru:

• Málvísindi, m.a. samanburðarmálvísindi, máltaka, orðaforði, hljóðfræði, annarsmálsfræði

• Bókmenntir, m.a. bókmenntir einstakra þjóða og málsvæða t.d. enskar og þýskar bókmenntir, asískar og rómanskar bókmenntir og Norðurlandabókmenntir

• Menningarfræði í tengslum við ákveðin málsvæði og í samanburði milli málsvæða í sögu og samtíð

• Samskipti á erlendum málum og notagildi þeirra í atvinnulífi

• Kennsla erlendra tungumála, m.a. þróun kennslugagna

• Þýðingar m.a. bókmennta- og nytjaþýðingar

Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur leggur áherslu á að auka skilning á því að fjölmenningarleg viðhorf og þekking á öðrum þjóðum og tungumálum fela í sér persónulegan, menningarlegan og efnahagslegan ávinning. Hnattvæðing kallar á þekkingu og færni sem tekur mið af sívaxandi samskiptum á öllum sviðum. Einstaklingar, stofnanir og fyrirtæki sem nýta sér tungumálakunnáttu og menningarinnsæi standa betur að vígi á alþjóðavettvangi en ella. Í rannsóknastarfi er haft að leiðarljósi að auka skilning á mál tileinkun og tungumálakunnáttu á öllum sviðum þjóðlífsins og efla menningarmiðlun. Þannig stuðlar stofnunin að auknum og jákvæðum samskiptum við fólk af erlendu þjóðerni og aukinni menningarfærni einstaklinga og þjóðfélagsins í heild. Lögð er sérstök áhersla á miðlun upplýsinga um nýjungar í kennslu tungumála á öllum menntastigum, enda er það markmið stofnunarinnar að styðja kennslu í erlendum tungumálum og byggja upp öflugar rannsóknir á því sviði.

Auk rannsókna stuðlar stofnunin að upplýstri umræðu í þjóðfélaginu um tungumál, tungumálanám, samskipti á erlendum tungum og menningarfræði. Þetta hlutverk sitt rækir hún með fyrirlestra- og ráðstefnuhaldi auk útgáfu fræðirita og kennsluefnis. Stofnunin tekur þátt í krefjandi verkefnum á fræðasviði sínu í samstarfi við íslenska og erlenda fræðimenn og háskólastofnanir. Stofnunin fær árlegt framlag frá Háskóla Íslands en auk þess hafa fyrirtæki og stofnanir, ásamt menningar- og rannsóknarsjóðum veitt styrki til að hrinda sérstökum verkefnum í framkvæmd. Starfsmenn hafa einnig hlotið fjölda styrkja úr innlendum og erlendum samkeppnissjóðum til rannsókna sinna. Styrktarsjóður Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur hefur það að markmiði að stuðla að vexti og viðgangi stofnunarinnar og á árinu 2011 fór fyrsta styrkveiting fram hjá sjóðnum þegar úthlutað var tveimur milljónum króna til fimm verkefna á fagsviðum stofnunarinnar. Styrkirnir voru afhentir við hátíðlega athöfn í Hátíðarsal Háskólans föstudaginn 15. apríl. Nánari upplýsingar um Styrktarsjóðinn má finna síðar í skýrslunni og á vefsíðu stofnunarinnar http://www.vigdis.hi.is/styrktarsjodur

Starfsemi stofnunarinnar

Árið 2011 var tíunda starfsár Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. Á þessum tímamótum var lögð áhersla á að efla innra starf stofnunarinnar og móta framtíðarstefnu um rannsóknir og alþjóðlegt samstarf. Að venju var lögð áhersla á að miðla rannsóknum fræðimanna stofnunarinnar með því að standa fyrir ráðstefnum, málþingum og fyrirlestrum og með útgáfu fræðirita. Auk málþinga og fyrirlestra stóð stofnunin fyrir tveimur viðamiklum alþjóðlegum ráðstefnum á árinu 2011. Annars vegar var um að ræða ráðstefnuna NORDAND 10, þar sem fjallað var um rannsóknir á norrænum málum, sem öðru og erlendu máli, og hins vegar ráðstefnuna Milepæl i nordisk fremtidsforskning på sprog- og kulturområdet, sem haldin var í tilefni af 100 ára afmæli Háskóla Íslands. Báðar ráðstefnurnar voru fjölsóttar og þóttu takast með eindæmum vel. Í tilefni af afmæli Vigdísar Finnbogadóttur 15. apríl hélt hinn þekkti málvísindamaður Peter Austin, prófessor við University of London, opinn fyrirlestur í Hátíðarsal Háskólans, sem bar heitið: 7000 tungumál veraldar-Fjölbreytni tungumála og menningar-staðbundið og á heimsvísu. Við þetta tækifæri var úthlutað í fyrsta sinn úr Styrktarsjóði Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur.

Að venju var Evrópski tungumáladagurinn haldinn hátíðlegur. Að þessu sinni var efnt til fjölbreyttrar dagskrár í Hátíðarsal Háskólans í samvinnu við mennta- og menningarmálaráðuneytið, STÍL – samtök tungumálakennara og samtökin AUS, AFS og Móðurmál.

Áfram var unnið að undirbúningi fyrir byggingu Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur sem mun rísa á horni Suðurgötu og Brynjólfsgötu. Efnt var til hönnunarsamkeppni um bygginguna sem verður um fjögur þúsund fermetrar að stærð þegar bílakjallari er talinn með. Niðurstöður í hönnunarsamkeppni verða kynntar um miðjan maí 2012 og er áætlað að verklegar framkvæmdir geti hafist á fyrri hluta árs 2013 og að byggingin verði tekin í notkun haustið 2014. Íslensk stjórnvöld leituðu eftir samþykki Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, um að alþjóðlega tungumálamiðstöðin fengi að starfa undir formerkjum hennar og var það samþykkt á ársfundi UNESCO í nóvember. Í þessu felst mikil viðurkenning á störfum Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur og mikilvægur stuðningur við framtíðaráform hennar.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is