Ávarp Vigdísar

Tungumál heimsins eru gersemar. Hugmyndir sem túlkaðar eru með orðum hafa lagt heimsbyggðinni til alla þá þekkingu sem samtíðin býr yfir; allt sem við eigum af miklum auði í speki, listum og verkhæfni. Með orðgnótt sinni, hugarflugi og sköpunarkrafti bregður mannshugurinn á leik um alla velli í víðáttum andans.

„Tungan er tæki sem við notum til að vera við sjálf,“ hefur góður hugsuður sagt. Að hafa góð tök á tungumáli, eigin tungu sem öðrum, og meta það að verðleikum er uppspretta ómældrar gleði. Gleðin er fólgin í því að eiga þess kost að njóta alls þess sem skapað hefur verið á tungumálinu, að skilja hvað að baki liggur í orði og verki og ekki síst að tjá það sem hverjum og einum liggur á hjarta.

En tungumál getur líka á stundum verið fjötur um fót. Fátækt til orða er sem vatn í klakaböndum. Það þekkja allir sem ekki geta komið hugsun sinni í farveg eða skilja ekki það sem fram fer. Þekking á erlendum tungumálum er fámennri þjóð með eigin tungu og menningu bráð nauðsyn. Hún er lykill að auknum skilningi og víðari sýn á heiminn í veröld þar sem allt og allir koma okkur við í síauknum mæli.

Ljóst er að við jarðarbúar erum nánari grannar hver annars en nokkru sinni fyrr. Tungumál heimsins túlka aftur á móti ólíka reynslu og hafa skapað ólík menningarsvæði. Þau þarf að skilja svo samvinna, samstaða og viðskipti geti farið farsællega fram. Eins og tungumálið sameinar þjóð til einingar á góð þekking á öðrum tungumálum sinn þátt í að skapa traust. Um leið skerpir kunnátta í erlendum þjóðtungum skilning á eigin högum og háttum. Tungumálafærni er hverjum einstaklingi styrkur.

Mér hefur lengi verið það metnaðarmál að við Íslendingar aukum enn styrk okkar í flóknum heimi með því að hafa á takteinum svo sem kostur er a.m.k. tvö erlend tungumál og færum okkur þannig nær því besta í þeirri heimsmenningu sem við höfum notið góðs af um aldir.

Vigdís Finnbogadóttir

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is