Bókmenntir Mesópótamíu

Kolbrún Lilja Kolbeinsdóttir heldur fyrirlestur um merkilega sögu og menningu bókmennta Mesópótamíu, ásamt því að fara í saumana á hinum ríka bókmenntaarfi. Fyrirlesturinn verður í Veröld – húsi Vigdísar, fimmtudaginn 30. nóvember kl. 18

 

Saga Mesópótamíumanna er löng og ríkuleg. Súmerar eru taldir hafa fundið upp ritmálið og því skapað elstu bókmenntaverk heims. Þeir þróuðu fleygrúnir og notuðu þær til að skrá niður allt á milli himins og jarðar. Nálægir menningarhópar hófu síðar að nota fleygrúnirnar og aðlöguðu að sínum eigin tungumálum. Þar má helst nefna Akkadíumenn, sem síðar hófu landvinninga og tóku meðal annars yfir Súmera og menningu þeirra. Síðar deildust völdin á svæðinu helst á milli Babýlóníumanna og Assyrínga, allt þar til Persar lögðu svæðið undir sig. Bókmenntaflóra þessa tímabils er mikil og áhugaverð. Þau 3000 ár sem menning Mesópótamíumanna lifði þróuðust bókmenntir mikið. Súmerar skrifuðu helst helgisöngva til guða og konunga en þegar líður á urðu bókmenntirnar persónulegri og á margan hátt hversdagslegri.

Í fyrirlestrinum verður þessi merkilega menning kynnt og saga hennar rakin, ásamt því að farið verður í saumana á hinum ríka bókmenntaarfi og textabrot kynnt, sem þýdd hafa verið beint af frummálinu.

Kolbrún Lilja Kolbeinsdóttir er bókmenntafræðingur að mennt og sérhæfði sig í mesópótamískum bókmenntum í meistaranámi sínu. Námið stundaði hún í Kaupmannahafnarháskóla við deild Assyríufræða, og nam þar tungumál þessarar fornu menningar, súmersku og akkadísku. Hlaut hún þar einnig bakgrunn í bókmenntum og menningu Mesópótamíumanna. Meistaraverkefni Kolbrúnar var þýðing úr súmersku á ljóðum Enhedúönnu, sem er fyrsta nafngreinda skáld mannkynssögunnar, og ný hyggur hún á doktorsnám þar sem hún mun þýða fleiri verk frá tíma Mesópótamíumanna. Einnig er í farvatninu þýðing á lögum Hammúrabí, sem áætlað er að líti dagsins ljós á næsta ári.

Dagsetning: 
fim, 11/30/2017 - 18:00
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is