(Drama)drottningar og dægurmenning: um merkar breskar drottningar í sjónvarpi og kvikmyndum á 21. öldinni

VHV-023 Miðvikudaginn 25. apríl kl. 12-13Fyrirlestur í fyrirlestraröð Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum um bókmenntir og menningu.

Stórbrotið, töfrandi og átakamikið líf kóngafólks er vinsælt efni í sjónvarpi og kvikmyndum. Sem dæmi má nefna þættina The Crown sem Netflix framleiðir og hafa slegið í gegn svo um munar, en þeir fjalla um fyrstu áratugi Elísabetar II í embætti Bretlandsdrottningar. Líf drottninga frá ýmsum tímabilum Bretlandssögunnar, hvort sem þær eru lífs eða liðnar, virðist heilla áhorfendur svo mjög að því sem næst endalaus markaður virðist vera fyrir framleiðslu sjónvarpsþátta og kvikmynda um þetta efni. Að auki hafa á netinu sprottið upp heilu aðdáendaklúbbarnir sem virðast taka hlutverk sitt mjög alvarlega og berjast með kjafti og klóm fyrir málstað drottninga sem létust fyrir jafnvel hundruðum ára.

Hér verður farið um víðan völl og fjallað um merkar breskar drottningar frá mismunandi tímaskeiðum og hvernig ævi þeirra, persónuleika og áhrifum í samfélagi og sögu er miðlað í sjónvarpi og kvikmyndum á tuttugustu og fyrstu öldinni. Leitast er við að greina áhrif þeirra á dægurmenningu í tengslum við aðdáendaklúbba internetsins og samfélagsmiðlanna. Sérstök áhersla er lögð á umfjöllun um Elísabetu fyrstu, móður hennar Önnu Boleyn og Maríu Stúart Skotadrottningu, en kvikmyndir og þættir um Viktoríu og Elísabetu II verða einnig til umfjöllunar að einhverju leiti.

 

Dagsetning: 
mið, 04/25/2018 -
12:00 to 13:00
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is