Esperanto: raunhæf lausn tungumálvandans

Esperanto: raunhæf lausn tungumálvandans

Erindi um erlend tungumál, Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur, 6. desember 2005

Baldur Ragnarsson

Í fyrstu viku ágústmánaðar síðastliðins var 57-a þing Hins alþjóðlega esperantosambands járnbrautarstarfsmanna - á Esperanto Internacia Fervojista Esperanto-Federacio - haldið í borginni Brashov í Rúmeníu. Þingið sátu nær 300 járnbrautarstarfsmenn frá 23 Evrópulöndum auk Kína. Því nefni ég þetta að það er gott dæmi um lifandi notkun Esperantos meðal starfsstétta og fagfélaga á alþjóðlegum vettvangi. Tugir slíkra samtaka nota Esperanto sem samskiptamál og eiga sum þeirra sér langa sögu, þar á meðal þau samtök sem ég nefndi í upphafi og stofnuð voru 1909. Réttmætt er að telja að fyrir félaga í slíkum alþjóðlegum samtökum er Esperanto raunhæf lausn tungumálavandans. Þó er það svo að yfirskrift þessa fyrirlestrar - Esperanto - raunhæf lausn tungumálavandans -    má setja fram hvort sem er sem fullyrðingu eða sem efablandna spurningu - hvort tveggja á rétt á sér.  Fer það eftir bakgrunni viðkomandi, reynslu og þekkingu. En þeir sem hafa haft löng kynni af Esperanto og notkun þess í tali og riti velkjast ekki í vafa um fullyrðingargildið og að það sé byggt á staðreyndum.

Esperanto á sér ekki langa sögu - 118 ár eru ekki langur tími í sögu tungumáls - en á þeim tíma hefur þetta mál, sem Zamenhof lagði grundvöllinn að, vaxið og þróast bæði sem talmál og ritmál í þeim mæli að það er í engum skilningi vanbúið að gegna því hlutverki sem því var ætlað af frumkvöðlinum: að vera hlutlaust hjálparmál í samskiptum manna sem tala mismunandi tungumál. Og í raun er það þegar svo og hefur lengi verið þótt esperanto hafi ekki enn hlotið þann stuðning alþjóðlegra stofnana sem enst hafi til þess að málið yrði almennt skyldunámsgrein í skólum. Þar hafa lengst náð rannsóknir, tillögur og samþykktir á vegum Þjóðabandalagsins gamla á árunum 1921- 1924. Ályktanir Unesko, Menningar- og fræðslustofnunar Sameinuðu þjóðanna, 1954 og 1986 eru að vísu hliðhollar esperanto en hafa þó aðeins gildi sem hvatning til aðildarríkjanna um stuðning við alþjóðamálið. Zamenhof hafði reyndar aldrei trú á beinum stuðningi ofan frá við alþjóðamálshugsjónina, enda hefur það komið á daginn að voldug ríki sjá hagsmunum sínum ógnað ef alþjóðlegt hlutlaust hjálparmál nær að breiðast út sem almennt samskiptamál á kostnað stórþjóðamálanna. Zamenhof treysti á grasrótina og þannig hefur Esperanto náð fótfestu í öllum heimshlutum, nú síðast í nokkrum ríkjum Afríku. Vaxandi notkun málsins á veraldarvefnum er líka áberandi, einkum meðal ungs fólks.

Reyndar hefur ekki skort stuðning við esperanto frá málsmetandi mönnum og stofnunum í meira en aldarlangri sögu þess. Í bók sinni Alþjóðamál og málleysur rekur Þórbergur Þórðarson ummæli nafnkunnra manna í tugatali, eru þar á meðal allmargir málvísindamenn sem voru heimskunnir á sínum tíma, menn eins og Antoine Meillet og Otto Jespersen. Í seinni tíð hafa nöfn Umberto Eco og André Martinet borið þar einna hæst. Og ekki hefur skort á heillaóskir og viðurkenningarorð stofnana eins og Unesko, svo sem við setningu heimsþinga Alþjóðlega esperantosambandsins. Á 90. þinginu sem haldið var í Vilnius s.l. sumar var kynntur boðskapur núverandi aðalframkvæmdastjóra Unesko, Koichiru Matsuura. Þar kemur m.a. fram að Unesko telur framlag esperantos mikilvægt til kynningar á menningarverðmætum, sem ekki þarf að koma á óvart þar sem Alþjóðlega esperantosambandið hefur um langt skeið unnið með Unesko að útgáfu bóka á esperanto sem ætlað er að stuðla að auknum menningartengslum milli austurs og vesturs. Annað dæmi: Við setningu 67. þings Alþjóðasambandsins sem haldið var í Reykjavík 1977 og sótt var af um 2000 manns frá 40 þjóðlöndum flutti þáverandi aðalframkvæmdastjóri Unesko, Amadou Mahtar M' Bow aðalræðuna. Andri Ísaksson, sem þá var ritari íslensku Unesko-nefndarinnar, flutti erindi á þinginu um málréttindi þar sem hann fjallaði um ójafna valdskiptingu milli tungumála sem væri ávísun á beina málkúgun mikils hluta jarðarbúa. Lagði hann áherslu á að með esperanto gætu mælendur bæði stórra og smárra tungumála mæst í hlutleysisgrundvelli. Og þetta er einmitt mergurinn málsins. Esperanto er hlutlaust mál í þeim skilningi að það er ekki eign neinnar þjóðar eða þjóðfélagshóps. Mállegt jafnrétti næst einungis með hlutlausu máli.

Alræðisstjórnir hafa þó ekki litið á Esperanto sem hlutlaust fyrirbæri, heldur þvert á móti pólitískt hættulegt. Þannig töldu yfirvöld í Þýskalandi nasismans starfsemi esperantohreyfingarinnar þar í landi ríkisfjandsamlega. Var stöðugt þrengt að hreyfingunni þar til gefin var út endanleg tilskipun í nafni Himmlers 20. júní 1936 að öll samtök sem styddu alþjóðamálið skyldu afmáð innan mánaðar. Esperantohreyfingin var síðan hvarvetna bönnuð í þeim löndum sem Þjóðverjar lögðu undir sig á heimsstyrjaldarárunum síðari, bækur á esperanto gerðar upptækar, og margir esperantistar voru handteknir og létu lífið í fangabúðum, þar á meðal nær allir í fjölskyldu Zamenhofs. En það var ekki aðeins á yfirráðasvæðum nasista að esperantistar voru ofsóttir. Einnig í Sovétríkunum á valdatímum Stalíns urðu þeir að þola ofsóknir, fangelsanir og aftökur. Alþjóðahyggja esperantismans hefur aldrei átt upp á pallborðið þar sem blint einræði hefur verið ríkjandi. Í Þýskalandi þótti esperantisminn grafa undan sönnum þjóðernisanda, auk þess sem höfundur málsins var Gyðingur, í Sovétríkjunum undir Stalín sáu yfirvöld njósnara í hverju horni og því þóttu samskipti esperantista við útlönd tortryggileg. Þýski sagnfræðingurinn Ulrich Lins hefur kannað þessa sögu ýtarlega og birt um hana bók sem ber heitið La danßera lingvo, "Málið hættulega". Hefur sú bók verið þýdd á allmörg tungumál. Nú á dögum er hvergi amast við Esperanto pólítískt svo ég viti, en ef til vill á segja að deyfð og áhugaleysi sé framgangi alþjóðamálsins mun hættulegra en beinar ofsóknir.

Hugmyndin um alþjóðlegt hjálparmál á sér langa sögu. Sú saga verður ekki rakin hér, ég bendi þeim sem áhuga hafa á ritgerð mína Planmál sem birtist í tímaritinu Íslenskt mál, 2001. Ég vil þó nefna að til er ritgerð eftir Rasmus Kristján Rask frá 1823 þar sem hann ræðir um nauðsyn á almennu hjálparmáli þar sem tími latínunnar í því hlutverki sé liðinn. Hann telur að notkun eins þjóðmáls sem almenns hjálparmáls komi þar ekki til greina þar sem slíkt myndi særa metnað annarra þjóða auk þess sem þjóðmálin væru of flókin bæði að beygingum og orðmyndun og óregluleg í réttritun til að geta hentað sem almenn mál; þau hefðu jafnframt sín sérstöku þjóðlegu einkenni sem gerðu þau óhæf til að gegna slíku hlutverki. Þess vegna, segir Rask, að varla sé um aðra leið að velja en að búa til nýtt tungumál, "at danne et nyt Sprog" eins og hann kemst að orði. Hann setur síðan fram leiðarvísi um myndun slíks almenns máls í 11 liðum. Ekki er kunnugt um að Rask hafi reynt að semja drög að almennu máli samkvæmt þessum leiðarvísi né heldur að hugmyndir hans hafi orðið öðrum kunnar enda eingöngu varðveittar í handriti og ekki birtar fyrr en 1925 í útbreiðsluriti Danska esperanto-sambandsins Kendte Mænds Udtalelser om Internationalt Sprog. Athyglisvert er að þessar hugmyndir Rasks samsvara í meginatriðum þeim grundvallarreglum sem Zamenhof fylgdi við mótun esperantos meira en 8 áratugum síðar. Forvitnilegt er því að bera hér saman nokkur atriði.

Í fyrsta lagi: Rask lagði til að orðaforði hins nýja tungumáls væri af latneskum og grískum rótum þar sem þau væru þekktustu undirstöðumál í heimi eins og hann orðar það. - Orðaforði esperantos er að miklum meirihluta latneskættaður, germanskir og slavneskir orðstofnar eru fremur fáir en grískum orðum hefur fjölgað mikið á síðari tímum, einkum í vísindamáli. Í þessu liggur að esperanto er ekki tilbúið mál í þeim skilningi að það sé skapað frá rótum, orðaforðinn er sameiginlegur helstu Evrópumálum og honum fylgir sama sifjasaga og þar er að finna. Fyrir fáeinum árum lauk útgáfu mikillar orðsifjabókar á esperanto, Etimologia Vortaro de Esperanto, eftir Ebbe Vilborg, sænskan málvísindamann. Þar má glöggt sjá að esperanto er í raun einn hluti af indóevrópska málatrénu ef litið er til orðaforðans.

Í öðru lagi lagði Rask til að beygingarmyndir væru hafðar eins fáar og einfaldar og unnt væri. - Esperanto hefur aðeins 11 málfræðilegar endingar. Þrjár þeirra eru einkennistákn orðflokka: nafnorðsendingin -o, lýsingarorðsendingin -a og endingin -i sem táknar nafnhátt sagna. Atviksorð eru annars vegar sjálfstæð án sérstakrar endingar eða afleidd og þá mynduð með endingunni -e. Endingin -j táknar fleirtölu nafnorða og lýsingarorða og endingin -n andlag. Sagnorð hafa einungis 5 endingar: -as til að tákna nútíð, -is til að tákna þátíð, -os til tákna framtíð. Endingin -us táknar skildagatíð og endingin -u boðhátt. Í bók sinni Leitin að málinu fullkomna (La Ricerca della lingua perfetta, 1993)  kallar Umberto Eco málfræði esperantos una grammatica ottimizzata sem mætti ef til vill nefna kjörmálfræði á íslensku.

Í þriðja lagi, segir Rask, verður rót orðs að vera óbreytanleg. - Í esperanto er sérhvert morfem óbreytanlegt, orðrætur, forskeyti, viðskeyti og endingar.

Í fjórða lagi lagði Rask til að forskeyti og viðskeyti skyldu gegna mikilvægu hlutverki við orðmyndun. - Notkun slíkra aðskeyta er eitt megineinkenni esperantos sem sver sig þannig í ætt við aðskeytamál eins og finnsku, ungversku, tyrknesku, japönsku, svahili og fjöldamörg önnur slík mál í veröldinni. Það er ekki síst orðmyndun með þessum hætti sem gerir esperanto alþjóðlegra en ella væri þegar litið er til orðstofnanna.

Í fimmta lagi, segir Rask, verður stafsetning að vera hljóðrétt og áhersla venjulega á næstsíðustu samstöfu. - Esperanto er stafsett með  28 bókstöfum og táknar hver þeirra aðeins eitt hljóð. Orðáhersla í esperanto er ávallt á næstsíðastu samstöfu.

Af þessu má sjá að esperanto er að gerð mjög í samræmi við hugmyndir Rasks, hins mikla málfræðings sem lét sér ekki nægja að leggja grundvöll að sögulegum málvísindum heldur horfði einnig til framtíðar; fyrir honum var "tilbúið" tungumál, þ,e.a.s. tilbúið í þeirri merkingu sem ég hef þegar nefnt, nauðsynleg og eðlileg lausn á tungumálavanda heimsins. Það var síðar hlutskipti Zamenhofs að bjóða fram þá lausn sem virkt tungumál í anda Rasks.  

Til viðbótar því sem þegar hefur verið sagt um málfræði esperantos má nefna að
grundvallarorðaröð er frumlag-sögn-andlag en auðvelt er að breyta orðaröð m.a. vegna andlagsendingarinnar. Samsettar sagnmyndir og þolmynd eru myndaðar með sögninni esti (vera) og lýsingarháttum. Orðmyndun fer fram á þrjá vegu: með samsetningu orðróta, með aðskeytum (forskeytum og viðskeytum) og með orðflokkaendingum. Nafnorð, lýsingarorð og sagnorð eru að sjálfsögðu opnir orðflokkar í esperanto og fjölgar þar orðum eftir þörfum. Sérstök málnefnd, Akademio de Esperanto, fylgist með þróun málsins og veitir viðurkenningu nýjum orðstofnum sem sannað hafa notagildi sitt.

Varla fer á milli mála að málfræði esperantos er næsta einföld í sniðum og fljótlærð. Allar reglur eru þar algildar, þar eru engar undantekningar. Það má því vænta þess að nám í esperanto skili árangri mun fljótar en nám í öðrum tungumálum enda hafa samanburðartilraunir í ýmsum löndum staðfest það. Einnig er athyglisvert hve esperanto virðist aðgengilegt fólki sem á sér önnur tungumál að móðurmáli en indóevrópsk. Kemur þar margt til, en þó einkum einföld og undantekningalaus málfræði, aðskeytakerfi málsins og hljóðrétt stafsetning. Sjálfur lærði ég esperanto á einu sumri á menntaskólaárum mínum og var farinn að skrifast á við erlenda esperantista um haustið. Ég lærði málið af kennslubók Þorsteins Þorsteinssonar hagstofustjóra frá 1909, hún er aðeins 12 lexíur, í þeirri tólftu er m.a. að finna upphafslínur Ílíonskviðu, mér er til efs að nokkur byrjendakennslubók í tungumáli bjóði upp svo háan texta eins og ekkert sé eðlilegra. Eftir Leo Tolstoj eru höfð þau orð, að sú fórn sem færð sé með því að helga sig dálítinn tíma esperanto-námi, sé lítil, og að árangurinn sem náist með því sé jafnframt svo mikill að maður ætti ekki að láta undir höfuð leggjast að gera tilraun.

Nú kunna sumir að segja: Því miður, það er ekkert á því að græða að læra esperanto, það er ekki fyrir aðra að hugsjónafólk. Og að reyndar sé nóg á þessum tímum viðskiptalegrar alþjóðavæðingar að kunna ensku, enskan gegni nú þegar því hlutverki að vera almennt samskiptamál í heimi á fleygiferð, hún sé hvarvetna kennd í skólum, hún sé þegar alþjóðlegt mál í flugsamgöngum og aðalmálið í verslun og viðskiptum og í ferðamálum. Því spyrja ýmsir: Hvers vegna að berjast fyrir esperanto, samskiptavandinn er að mestu úr sögunni, a.m.k. hér í vestrinu,  eða verður það í náinni framtíð. Þó eru alltaf einhverjir og þeim fer fjölgandi sem sjá þann hæng á að ekki sé réttlátt  að eitt þjóðmál, þótt útbreitt sé, verði notað sem alþjóðamál og að í rauninni muni aldrei nást um slíkt algert samkomulag, - að þjóðir, sem eiga þekkt menningarmál að móðurmálum, muni aldrei sætta sig við slík yfirráð enskunnar. Og þá er spurt: Hvers vegna ekki að fallast á tvö eða jafnvel fleiri útbreidd mál sem alþjóðleg samskiptamál sem verði þá jafnrétthá? Nú er skemmst frá því að segja að slíkar hugmyndir hafa verið til umræðu hjá áhugamönnum innan Evrópusambandsins sem lausn á málavandanum sem þar fer vaxandi. Ekki hafa slíkar hugmyndir hlotið miklar undirtektir enda ekki við slíku að búast, þær eru óraunhæfar af réttlætisástæðum auk þess sem mikið málanám er alltof tímafrekt og kostnaðarsamt í heimi nútímans þar sem svo margt annað þarf að læra og kynna sér til hlítar, einkum á sviðum tækni og vísinda.

Nú vil ég taka það skýrt fram að þótt ég sé sannfærður um að eina skynsamlega og réttláta lausnin á tungumálavandanum sé að sameinast um hlutlaust planmál eins og esperanto þá er ég jafnframt ákveðinn talsmaður þess að sem flestum gefist kostur á tungumálanámi að eigin ósk og vild. Sjálfur hef alla tíð haft mikinn áhuga á tungumálum, sem varð kveikjan að því að ég tók saman uppflettirit um tungumál sem Háskólaútgáfan gaf út fyrir 6 árum undir heitinu Tungumál veraldar. Ég er hlynntur frjósamri kennslu tungumála í framhaldsskólum. Ég er því uggandi vegna fyrirhugaðrar styttingar náms til stúdentsprófs sem hlýtur að bitna bæði á kennslu erlendra tungumála og móðurmálsins. Vísa ég þar til ályktunar Samtaka móðurmálskennara þann 29. apríl 2005  þar sem mótmælt er harðlega fyrirhugaðri skerðingu íslenskunáms í framhaldsskólum. Þar kemur fram að ef styttingaráformin ná fram að ganga hafi kennsla í íslensku verið skert um 33% á innan við tíu árum. Einnig má telja víst að styttingin þrengi að frjálsu vali námsgreina meir en orðið er og þar með að fjölbreyttri kennslu í tungumálum. Ég hef þannig litla trú á að t.d. esperanto verði almennt í boði sem valgrein í framhaldsskólum við slíkar aðstæður eins og verið hefur í Menntaskólanum við Hamrahlíð og í Menntaskólanum að Laugarvatni.

Í þessu stutta erindi hef ég ekkert fjallað um þá alþjóðlegu menningu sem smám saman hefur verið að þróast í nánu samhengi við alþjóðatunguna. Mig langar því að lokum að nefna þótt ekki sé nema einn þátt þeirrar menningar, þ.e. ljóð frumsamin á esperanto. Eins og vænta má eru lesendur esperantoljóða ekki afmarkaður hópur eins og t.d. lesendur ljóða á þjóðmáli, ljóð esperantoskálda fljúga út í óræðar víðáttur heimsins og þótt einhverjir lesi ljóðin eru þeir bæði fáir og dreifðir. Í ljóði ortu 1924 talar ungverska esperantoskáldið Kálmán Kalocsay um sjálfan sig sem "skáld án þjóðar", poeto sen popolo. Hann finnur þó hughreystingu í málinu sjálfu sem hann ann og virðir:

Ho, jen vi, Esperanto! Ne glora kaj fiera,
nur orfa, senpotenca, senforta, senmatura,
svenema kaj senhelpa kaj - eble - senespera,
sed nobla, blanka, klara kaj senmakule pura.

Hér ávarpar skáldið málið sjálft og segir að það sé hvorki frægt né stolt, aðeins munaðarlaust, valdalaust, veikburða, hjálparvana og ef til vill vonlaust, en samt sé það göfugt, skýrt og algerlega flekklaust "senmakule pura", - á slíku máli kýs skáldið að yrkja. Margir hafa fetað í fótspor Kalocsays. Í sýnisbók ljóða á esperanto, Esperanta Antologio, frá 1984, eru ljóð eftir 163 skáld frá 35 löndum. Á þeim tveim áratugum sem síðan eru liðnir hafa mörg ný skáld bæst við, nýleg könnun greinir frá rúmlega 100 ljóðabókum frumortum á esperanto á þessu tímabili. Það má því vera ljóst að það letur ekki skáldhugi að yrkja á máli "sen popolo", án þjóðar, esperanto hefur augljóslega í sér hvetjandi kraft til sköpunar, yfirþjóðlegan kraft, húmaniskan kraft sem vinnur í anda jafnréttis, hljóðlega, án sýndarmennsku; því fullyrði ég að á meðan ljóð eru ort á esperanto mun hugsjón Zamenhofs um hlutlaust hjálparmál til handa mannkyni halda áfram að lifa.

Ég vil að lokum þakka aðstandendum Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum fyrir að hafa boðið mér að flytja hér stuttan fyrirlestur um esperanto, mál sem hefur verið mér mikið hugðarefni frá því á unglingsárum. Það er jafnframt von mín að esperanto eigi eftir að fá enn frekar sitt rúm í starfsemi Stofnunarinnar nú þegar nokkrar horfur eru á vaxandi hlutverki hennar í alþjóðlegum skilningi.

Þessi námsgögn í esperanto hafa komið út á íslensku, raðað eftir útkomuári.

 • Þorsteinn Þorsteinsson: Kennslubók Í Esperantó (1.útg.1909)
 • Þórbergur Þórðarson: Esperanto I Lestrarbók handa byrjendum (1937)
 • Sami:Esperanto Ii  Málfræði (1937)
 • Ólafur Þ. Kristjánsson: Esperanto Iii Orðasafn (1939)
 • Þórbergur Þórðarson: Esperanto Iv Lestrarbók (1939)
 • Ólafur S. Magnússon: Bréfanámskeið í esperanto (1943)
 • Magnús Jónsson frá Skógi: Kennslubók í esperanto (1957)
 • Baldur Ragnarsson: Ný Kennslubók í esperanto (1987)
 • Hallgrímur Sæmundsson (Umsjón) : Jen Nia Mondo: Kennslubók handa byrjendum – Hljóðsnælda og Stílasafn
 • Á netinu er eitt námskeið þýtt á íslensku. Slóðin er: http://www.kurso.com.br/bazo/index.html?is
 • Þá má benda á heimasíðu Íslenska esperantosambandsins: http://www.ismennt.is/vefir/esperant/, en þar má finna margháttað efni.
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is