Ársfundur Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur

Ársfundur Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur var haldinn föstudaginn 11. maí. Auður Hauksdóttir, prófessor í dönsku og forstöðumaður stofnunarinnar, kynnti ársskýrslu og lagðir voru fram ársreikningar.

Fundurinn markaði tímamót í sögu stofnunarinnar, þar sem Auður Hauksdóttir lét af störfum sem forstöðumaður eftir að hafa gegnt því embætti frá því að stofnunin hóf starfsemi sína, þann 1. október 2001.

Auður hefur frá upphafi stýrt stofnuninni af eldmóði, metnaði og víðsýni. Þrotlaus vinna hennar að því markmiði að stofnunin fengi alþjóðlegt hlutverk á fræðasviði tungumálanna, bar þann árangur að árið 2017 hóf Vigdísarstofnun - alþjóðleg miðstöð tungumála og menningar sitt fyrsta starfsár, undir merkjum UNESCO Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Veröld – hús Vigdísar, sem vígð var sama ár, mun um ókomna tíð standa sem glæsilegur minnisvarði um þá eljusemi og atorku sem ríkti í stjórnartíð Auðar, en húsið hefur nú þegar fengið góða kynningu og frá opnun vakið mikla aðdáun hérlendis jafnt sem erlendis.

          

Glæsilegum ferli Auðar sem forstöðumanni stofnunarinnar var fagnað á fundinum og henni færðar gjafir frá samstarfsmönnum með miklu þakklæti fyrir einstaklega ósérhlífin störf í þágu stofnunarinnar.

Á fundinum var Birna Arnbjörnsdóttir prófessor í annarsmálsfræðum kjörin nýr stjórnarformaður Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur. Þau Oddný G. Sverrisdóttir, Ásdís R. Magnúsdóttir og Geir Þórarinn Þórarinsson eru aðalmenn í nýrri stjórn, Hólmfríður Garðarsdóttir og Gísli Magnússon eru varamenn og Guðmundur Brynjólfsson situr í stjórn fyrir hönd doktorsnema.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is