Frönsk fræði: viðskipti - ferðamál - menning - stjórnmál - þýðingar

Franska er mikilvægt tungumál í alþjóðasamstarfi, viðskiptum og ferðmálum. Hún veitir aðgang að heillandi menningu á fjölmörgum sviðum mannlífsins. Í BA-námi er lögð áhersla á franskt mál og menningu, bókmenntir, sögu og þjóðlíf hins frönskumælandi heims. Einnig er boðið upp á frönsku sem aukagrein og hagnýta námsleið fyrir þá sem vilja fyrst og fremst bæta þekkingu sínu og færni í tungumálinu.

 

BA- nám í frönskum fræðum

Á öllum stigum námsins eru nemendur þjálfaðir í notkun tungumálsins. Þeir taka þátt í umræðuhópum, sækja tíma í málveri og fá þjálfun í ritun texta og í málfræði. Nemendur sitja námskeið um þjóðlíf, sögu og sérkenni Frakklands og hins frönskumælandi heims, þeir kynnast þróun tungumálsins og fá innsýn í heim þýðinga, bókmennta, kvikmynda, leiklistar, listasögu og málvísinda.

 

Frönsk fræði sem aukagrein

Nám í frönsku má tengja öðru námi við Háskóla Íslands og aðra skóla. Frönsku má taka sem aukagrein með öllum greinum á Hugvísindasviði en einnig með viðskiptafræði, ferðamálafræði, mannfræði og stjórnmálafræði, svo eitthvað sé nefnt.

 

Framhaldsnám

Að loknu BA-námi í frönskum fræðum er hægt að fara í framhaldsnám í sömu grein eða öðrum, s.s. þýðingum og alþjóðasamskiptum. Nám í frönsku getur einnig verið undirstaða fyrir nám eða framhaldsnám í öðrum greinum í frönskumælandi löndum.

 

Markmið námsins

Markmið með náminu er veita nemendum góða þekkingu á franskri tungu og haldbæra innsýn í menningu, sögu og samfélag hins frönskumælandi heims. Áhersla er lögð á þjálfun í akademískum vinnubrögðum. Í aukagrein er einkum áhersla á hagnýta færni í tungumálinu.

 

Kennsluhættir
Fyrirlestrar, æfingatímar, málver, leiklist. Kennsla fer alla jafna fram á frönsku og í Vigdísarhúsi.

Nemendur geta tekið hluta námsins við háskóla í Frakklandi, Kanada og víðar. Þar fá nemendur tækifæri til að kynnast ólíkum menningarheimum af eigin raun.

 

Félagslíf
Nemendur í frönskum fræðum taka virkan þátt í félagslífi nemendafélags Mála- og menningardeildar, Linguae. Nemendafélag frönskunema heitir Gallía:

https://www.facebook.com/gallia.hi

 

 

Námsleiðir í frönskum fræðum

Franska er kennd til BA-prófs (sem aðalgrein og aukagrein). Eftir BA-próf má læra frönsku til MA-prófs. Hún er einnig kjörsvið innan náms í þýðingafræði á MA-stigi, á námsleiðinni Bókmenntir, menning og miðlun og Evrópsk tungumál, saga og menning.

Aðalgrein til 180 e: Fullt þriggja ára nám. Nemandi getur tekið 20e í öðrum greinum. Nemandi getur tekið 1-2 misseri við háskóla erlendis.

Aðalgrein til 120e: Tveggja ára nám með aukagrein (60e) eða annarri aðalgrein (120e). Nemandi getur tekið 1-2 misseri við háskóla erlendis.

 

Aukagrein til 60 e: Eins árs nám með aðalgrein (120e).

 

Aukagrein til 60e fyrir nema í viðskiptafræði og ferðamálafræði: Eins árs nám með aðalgrein (120e) þar sem lögð er áhersla á færni og hagnýta þekkingu á tungumáli og samfélagi.

 

Hagnýt franska – grunndiplóma 90e: Þriggja missera nám fyrir þá sem vilja búa sig undir störf þar sem reynir á almenna frönskukunnáttu, t.d. í alþjóðasamskiptum, viðskiptum, ferðaþjónustu og stjórnsýslu. 

 

Hagnýt franska – aukagrein 60e: Tveggja missera nám. Hægt er að nýta 60e í hagnýtri frönsku sem aukagrein til BA-prófs.

 

Samstarf við erlenda háskóla

Margir nemendur í BA-námi í frönskum fræðum taka hluta námsins við samstarfsskóla í Frakklandi og víðar. Margir af bestu háskólum Frakklands eru meðal samstarfsskóla Háskóla Íslands.

 

Gildi námsins

Nám í frönskum fræðum getur nýst á fjölmargan hátt. Góð tungumálakunnátta opnar leiðir inn í menningu og hugarheim annarra þjóða og í nútímaþjóðfélagi þar sem alþjóðlegt samstarf og margvísleg tengsl við umheiminn fara sífellt vaxandi er góð færni í tungumálum og menningarlæsi mjög eftirsóknarverð.

Franskan getur einnig verið lykill að framtíðarstarfi á sviði viðskipta, ferðaþjónustu, fjölmiðlunar, stjórnmála, kennslu og vísinda, sem og við þýðingar, túlkun og ýmis menningartengd málefni.

 

Brynhildur Guðjónsdóttir, leikkona

„Lestur, skilningur, túlkun, sjálfstæð hugsun, rökfræði og afbragðssmekkur á bókmenntum, ásamt þorsta í enn meiri þekkingu er nokkuð sem námið í frönsku og ítölsku gaf mér. Allt þetta er ómetanlegt og sú gullnáma sem ég sæki í á hverjum degi í afar fjölbreyttu og margþættu starfi leikarans.

Svo var líka bara svo gaman ...“

 

Baldvin Björn Haraldsson
Lögmaðurinn og atvinnurekandinn Baldvin Björn Haraldsson lauk meistaraprófi í alþjóðalögum frá París 1997 og hefur síðan verið í reglulegu sambandi við frönskumælandi samstarfsmenn og viðskiptavini. Baldvin Björn kveður frönskukunnáttu sína hafa haft mikil áhrif á störf sín sem lögmaður. ,,Bæði hafa mér opnast ýmis viðskiptatækifæri sem án frönskukunnáttu hefðu ekki boðist, auk þess sem innsýn inn í franska menningu hefur gefið nýja vídd í allar samningaviðræður við aðila frá frönskumælandi þjóðum.”

Kennarar:

Ásdís R. Magnúsdóttir
asdisrm@hi.is

 

Ásta Ingibjartsdóttir
astaingi@hi.is

 

François Heenen
ffh@hi.is

 

Irma Erlingsdóttir

irma@hi.is

 

Jean-François Rochard

jfr@af.is

 

 

Verkefnastjóri deildar

Bernharð Antoniussen
bernhard@hi.is

 

Verkefnastjóri alþjóðamála
Guðrún Birgisdóttir
gb@hi.is

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is