Gagnabanki um tungumál og menningu

Í gagnabankanum verða gögn um tungumál og menningu gerð aðgengileg á stafrænu formi. Komið verður á samstarfi við erlendar stofnanir sem starfrækja svipaðar tungumálamiðstöðvar í þeim tilgangi að samnýta þau málsöfn sem þegar eru til og þau gerð aðgengileg í tungumálamiðstöðinni. Einnig verður í nokkrum mæli aflað nýrra gagna um tungumál.

Fyrst í stað verður lögð áhersla á þau tungumál sem kennd eru við Háskóla Íslands en því næst verður beint sjónum að minnihlutamálum, fyrst á Norðurlöndum og síðan víðar í Evrópu. Til lengri tíma litið er að því stefnt að það verði aðgengilegar heimildir og aðrar upplýsingar um sem flest tungumál heims, þar á meðal um alþjóðamálið esperanto, hlutverk þess og gildi.

Málsöfnin verða af ólíkum toga og því til þess fallin að varpa ljósi á ólíkar hliðar máls (t.d. orðaforða, setningagerð, einkenni talmáls) og málnotkunar (t.d. viðeigandi málnotkun með tilliti til tjáskiptaaðstæðna) og á ýmsa menningarbundna þætti (t.d. bókmenntir, ríkjandi siði og venjur).

Sérstök áhersla verður lögð á þverfaglegar menningar- og málvísindarannsóknir, einkum félagsmálvísindalegar rannsóknir. Þessi hluti tungumálamiðstöðvarinnar verður jafnframt vettvangur fyrir fræðilega umræðu, m.a. fyrirlestra, málþing og ráðstefnur. Þar verður einnig fullkomin aðstaða fyrir alþjóðlegar ráðstefnur þar sem fræðimenn víðs vegar að úr heiminum geta komið saman og borið saman bækur sínar.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is