Hegravarpið - La Héronnière

Hegravarpið

Erindi flutt vegna útgáfu Hegravarpsins í íslenskri þýðingu, 14. mars 2008

Lise Temblay, höfundur Hegravarpsins

Áður en ég segi frá því hvernig Hegravarpið varð til langar mig að nota þetta tækifæri til að þakka þeim sem þýddu þetta verk á íslensku.

Doris Lessing, sem fékk nýlega Nóbelsverðlaunin í bókmenntum, sagði eitt sinn að sér fyndist afar erfitt að tala um sín eigin verk. Hún bætti því við að það væri sérlega vandasamt – ef ekki ómögulegt - fyrir höfund að vera í senn inni í verkinu og fyrir utan það. Ég get tekið undir það en ég er svo heppin að nú eru nær fimm ár síðan að Hegravarpið kom út. Mér er farið að líða vel fyrir utan þetta verk.

Ég ætla að segja ykkur sögu þessarar bókar, hvernig hún varð til. Mér er það vel ljóst að rithöfundar stjórna á engan hátt verkum sínum, ekki frekar en því sem gerist í lífinu. Við hugsum um bækur sem við munum aldrei skrifa og við skrifum bækur sem við höfum aldrei hugsað um. Það er atburðarás tilverunnar sem stjórnar því um hvað við skrifum. Í raun er það lífið sem lætur okkur skrifa þau verk sem frá okkur fara.

Snúum okkur nú að lífinu, eða dauðanum öllu heldur. Það er komið undir lok maímánaðar, ég er stödd á lítilli eyju sem stendur í miðju Saint-Laurent-fljótinu í Québec-fylki. Þetta er einn af fyrstu fallegu sólardögunum. Vorið lét bíða eftir sér vegna íssins sem umlykur eyna. Í marga mánuði hef ég unnið af kappi að bók sem ég mun þó ekki skrifa fyrr en eftir fimm ár. Þetta gengur ekkert hjá mér, mér tekst ekki að finna rétta frásagnarmátann. Þennan dag eins og alla aðra daga geng ég tímunum saman meðfram árbakkanum seinni partinn. Ég legg af stað og við hverja bugðu finn ég dauða fugla, litla sundurskotna líkama. Það er ekki óvenjulegt. Unglingarnir sem búa á eynni skemmta sér við að skjóta niður fljúgandi krákur. Það sem er óvenjulegt er að það eru dauðir fuglar alls staðar, tíu, fimmtán hræ. Ég held ferð minni áfram þar til ég kem að tjörn sem er nálægt litlum skógi. Þangað liggur leið mín alltaf í gönguferðunum, þetta er áfangastaðurinn. Ég fer þangað til að sjá hegraparið. Ef maður fer varlega er hægt að nálgast fuglana og fylgjast með þeim. Þeir eru alltaf þarna, karlfuglinn í um tíu metra fjarlægð frá kvenfuglinum. Þeir eiga hreiður upp með ánni, hinum megin, í vernduðu hegravarpi. Þegar ég kem nær sé ég karlfuglinn fljótandi í blóði sínu nálægt árbakkanum. Ég sný honum við og dreg hann upp úr ánni. Ég kom svo aftur seinna með skóflu og gróf hann. Það var þarna sem bókin fæddist, án þess að ég gerði mér grein fyrir því. Stuttu seinna komst ég svo í kynni við þýðingar á ljóðum Karel Jan Capeks.

Sumar bækur fáum við upp í hendurnar, aðrar kosta okkur bæði svita og tár. Það á við um Systur Júditar (La soeur de Judith) sem ég er nýbúin að senda frá mér. Ég hef unnið að því verki aftur og aftur í fimmtán ár. Það á ekki við um Hegravarpið. Í júlímánuði þetta sama sumar settist ég við vinnuborðið og byrjaði að skrifa titilsöguna. Ég vissi ekki hvað ég ætlaði mér með henni, ég hafði aldrei skrifað smásögur. Ég sagði við sjálfa mig að ég myndi geyma hana og gefa kannski út í smásagnakveri einn daginn. Svo komu hinar sögurnar og í fimm vikur sat ég við og skrifaði þessa bók sem má í senn líkja við smásagnasafn og skáldsögu. Í sjö ár hafði ég hafði búið hluta ársins í litlu þorpi á eynni og sem ég skrifaði bókina varð mér ljóst að það sem átti sér stað í þorpinu snerti mig dýpra en ég hafði gert mér grein fyrir. Í sjö ár hafði ég horft á dauðateygjur þessa hefðbundna þorps. Ferðamenn settust þar að, keyptu hús sem höfðu tilheyrt gömlum fjölskyldum og þannig hafði sálin á vissan hátt horfið úr þeim. Ofbeldi unglinganna endurspeglaði þetta ástand. Ég held að Hegravarpið sé saga þessara endaloka. Hvað frásagnartæknina snertir var gerð bókarinnar dálítið flókin, einkum það sem lýtur að því að tengja sögurnar fimm saman. Ég held að mér sé óhætt að segja að með því að skrifa þessa bók hafi ég tekið stórt skref fram á við sem rithöfundur. Og þetta er ein af mótsögnum þessa verks. Ég fékk hugmyndina að því upp í hendurnar, en ég þurfti að fínpússa frásögnina til að sögurnar mynduðu þá heild sem þær gera. Sögurnar voru ekki skrifaðar í þeirri röð sem þær birtast. Þær urðu til í eins konar óreiðu og merkingin varð til eftir á, eins og alltaf.

Að lokum vil ég segja ykkur frá því sem gerðist þegar að Hegravarpið kom út. Í mínum huga er þetta verk um andarslitur, endalok, dauðastríð, og hverju dauðastríði fylgir barátta. Þessi barátta er oft sú erfiðasta sem maðurinn háir á ævinni. Þótt Hegravarpið sé skáldverk kallaði það fram sterk viðbrögð hjá sumum íbúum þorpsins. Mér var jafnvel hótað lífláti. Þegar skilaboðin falla ekki í kramið þá er sendiboðinn tekinn af lífi. Ég er sem betur fer ekki „réttdræp” (fatwa, sbr. Salman Rushdie), en bókin olli uppþoti í litla bókmenntaheiminum okkar í Québec-fylki. Í kjölfarið hef ég mikið hugsað um siðfræðilegt hlutverk bókmennta. Þær vangaveltur hafa gert mér kleift að vera skýrari í afstöðu minni sem rithöfundur. Hegravarpið hefur verið þýtt á ensku og á íslensku. Nú er verið að þýða bókina á ítölsku. Og þrátt fyrir hrakningarnar sem ég lenti í er ég ánægð með ferð hennar. Hana hefur meira að segja rekið upp á strendur Íslands.

Lise Tremblay

(Erindið þýddi Ásdís R. Magnúsdóttir)

Verk Lise Tremblay:

L’hiver de pluie, Montréal, XYZ, 1990.
La pêche blanche, Montréal, Leméac, 1994.
La danse juive, Montréal, Leméac, 1999.
La héronnière, Montréal, Leméac, 2003.
La soeur de Judith, Montréal, Boréal, 2007.

Í íslenskri þýðingu:

Hegravarpið, þýð. Ásdís R. Magnúsdóttir, Davíð Steinn Davíðsson, Linda Rós Arnarsdóttir, Reykjavík, Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum, 2007.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is