Kínversk fræði, viðskiptatengd kínverska og Austur-Asíufræði

Kjörsvið

Boðið er upp á tvö kjörsvið innan námslínu kínverskra fræða: kínversk fræði og viðskiptatengda kínversku í samvinnu við viðskiptafræðideild. Auk þess er boðið upp á Austur-Asíufræði til 60 eininga aukagreinar í samvinnu við námslínu í japönsku máli og menningu.

 

Kínversk fræði

Í kínverskum fræðum leggja nemendur stund á tungumál, sögu, bókmenntir, kvikmyndir, stjórnmál, samfélagsmál, heimspeki, trúarbrögð og hvaðeina sem tilheyrir kínverskri menningu og kínverskumælandi samfélögum.

 

Viðskiptatengd kínverska

Í viðskiptatengdri kínversku leggja nemendur áherslu á kínverskunám og taka ennfremur jafngildi aukagreinar í almennri viðskiptafræði. Eins árs skiptinám í Kína er í boði á þriðja ári.

 

Kínverskunám

Viðamikill hluti námsins á kjörsviðunum felst í tungumálanámi þar sem kennd er stöðluð kínverska (putonghua, guoyu, mandarín). Þar eð ekki er gert ráð fyrir forkunnáttu er yfirferðin hröð og miklar kröfur gerðar til reglulegrar ástundunar, sjálfsaga og samviskusemi. Kínverskukennararnir eru allir reyndir kennarar á sínu sviði.

 

Markmið

Markmið náms í kínverskum fræðum og viðskiptatengdri kínversku er að veita nemendum haldbæran skilning á þessu fjarlæga og spennandi menningarsamfélagi. Áhersla kínverskra fræða eru á tungu, sögu og samfélagsrýni, en viðskiptatengdrar kínversku á tungu og grunnfærni í viðskiptafræðum. Nám á kjörsviðunum veitir nemendum m.a.:

 

færni í akademískum vinnubrögðum;
gott vald á kínverskri tungu;
þekkingu á sögulegum og heimspekilegum forsendum kínversks samtíma;
innsýn í þróun, breytingar og stefnu kínversks nútímasamfélags;
skilning á ýmsum sérstökum birtingarformum kínverskrar menningar;
innsýn í sérstakt viðskiptaumhverfi Kína.

 

Félagslíf
Nemendur í kínverskum fræðum eru virkir í félagslífi og starfrækja nemendafélagið Bing Long Félag Kínverskunema. Konfúsíusar-stofnunin Norðurljós skipuleggur einnig ýmsa skemmtilega og fróðlega viðburði, oft í samvinnu við Kínversk-íslenska menningarfélagið.

 

Námsleiðir í kínverskum fræðum

Kínversk fræði eru kennd til BA-prófs (sem aðalgrein og aukagrein).

Aukagrein til 60 eininga: Eins árs nám í kínverskum fræðum með aðalgrein (120 einingar) á öðru sviði. Valnámskeið eru takmörkuð.
Aðalgrein til 120 eininga: Tveggja ára nám í kínverskum fræðum (120 einingar) með aukagrein (60 einingar) eða annarri aðalgrein (120 einingar) á öðru sviði. Sterklega er mælt með að nemendur haldi í skiptinám til Kína í eitt misseri.
Aðalgrein til 180 eininga: Fullt þriggja ára nám í kínverskum fræðum felur í sér að síðasta árið er stundað við samstarfsháskóla HÍ í Kína eða annars staðar þar sem boðið er upp á fullt kínverskunám við hæfi.

Námsleiðir í viðskiptatengdri kínversku

Viðskiptatengd kínverska er eingöngu kennd sem aðalgrein.

Aðalgrein til 120 eininga: Tveggja ára nám við Háskóla Íslands sem getur falið í sér eins misseris skiptinám.
Aðalgrein til 180 eininga: Þriggja ára nám sem felur í sér að síðasta árið er stundað við samstarfsháskóla HÍ í Kína.

 

Námsleið í Austur-Asíufræðum

Austur-Asíufræði er eingöngu kennd sem aukagrein til 60 eininga og felur hvorki í sér tungumála- né skiptinám.

Samstarfsháskólar: Háskóli Íslands hefur á undanförnum árum undirritað samstarfssamninga við nokkra af bestu háskólum Kína og Tævan. Skólarnir eru staðsettir í Beijing, Changchun, Changsha, Nanjing, Shanghai, Ningbo og Taipei. Gert er ráð fyrir að samstarfsskólum muni enn fjölga á næstu árum.

Gildi námsins

Nám í kínverskum fræðum og viðskiptatengdri kínversku býr yfir ótvíræðu hagnýtu gildi hvað varðar starfsmöguleika. Enginn vafi leikur á því að Kína muni leika leiðandi hlutverk á flestum sviðum mannlífs í heiminum á 21. öldinni. Hlutverk Kína í vísindum, stjórnmálum, viðskiptum, ferðamennsku, íþróttum, menningarmálum og listum verður sífellt umfangsmeira á heimsvísu. Námið greiðir því götuna fyrir ýmsa starfstengda möguleika á ofangreindum sviðum sem og fjölda annarra. Ljóst er að á Vesturlöndum verður æ brýnna að átta sig á menningu og hugsun þessarar fjölmennustu þjóðar heims sem áður var í takmörkuðum tengslum við umheiminn en lætur nú sífellt meira að sér kveða í veröldinni.

 

En ekki má gleyma gildi námsins fyrir eigin þroska og fágun. Kínversk menning er nánast óendanleg uppspretta stórkostlegra bókmennta, ljóðagerðar, heimspeki og vísdóms sem lætur engan ósnortinn. Kínversk tunga er að sjálfsögðu lykillinn sem veitir okkur aðgang að þessum leyndardómsfullu gersemum.

Kennarar:

Geir Sigurðsson
(greinarformaður)
geirs@hi.is

 

Jia Yucheng

yj@hi.is

 

Qi Huimin

 

Zhou Junqing
zhou@hi.is

 

Fei Jie
feijie@hi.is

 

Magnús Björnsson
magnusbj@hi.is

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is