Kynning í Danmörku 2003

Kynning í Danmörku

28. nóvember til 5. desember 2003

kynning fór fram í Danmörku á Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í tengslum við vígslu Norðurbryggjunar í Kaupmannahöfn dagana 28. nóvember til 5. desember 2003.

Markmið:

Markmið kynningarinnar var að kynna rannsóknir fræðimanna Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur, skapa umræðuvettvang fyrir rannsóknir á fræðasviðum stofnunarinnar, efla tengsl við danska fræðimenn og rannsóknastofnanir og koma á samstarfi við danska háskóla um rannsóknir og kennslu. Jafnframt var markmiðið að afla fjár í Styrktkarsjóð stofnunarinnar í því skyni að efla rannsóknir á fræðasviðum hennar sem snerta tengsl Danmerkur og Íslands.

Sendinefndin:

Frú Vigdís Finnbogadóttir fór fyrir sendinefndinni á vegum stofnunarinnar en í sendinefndinni voru:

 • Auður Hauksdóttir forstöðumaður Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur
 • Oddný G. Sverrisdóttir, varaforstöðumaður Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur
 • Sigfríður Gunnlaugsdóttir verkefnisstjóri
 • Anna Agnarsdóttir, deildarforseti

 

Jens Lohfert, Lars-Göran Johansson og Lise Hvarregaard, sendikennarar, tóku þátt í hluta kynningarinnar.

Ríkisstjórn Íslands, Norræni menningarsjóðurinn, Fondet for Dansk-Islandsk Samarbejde, Fondet for Dansk-Norsk Samarbejde og Sjóður Selmu og Kaj Langvad styrktu kynninguna. Norðurbryggja lagði til húsnæði fyrir ráðstefnuna án endurgjalds. Stofnunin naut ómetanlegrar aðstoðar Þorsteins Pálsssonar sendiherra og annars starfsfólks sendiráðsins við undirbúning og framkvæmd kynningarinnar.

Rannsóknar- og þróunarverkefni

Ákveðið var að leita eftir stuðningi við þremur rannsóknar- og þróunarverkefni sem snerta danskra menningu og tungu á Íslandi í Danmörkuferðinni.

 1. Íslensk-dönsk orðabók, brýnt er að huga að gerð nýrrar umfangsmikillar íslenskrar-danskrar orðabókar (um 90.000 orð). Núverandi orðabækur eru komnar til ára sinna og að miklu leyti úreltar. Leitað var samvinnu við Orðabók Háskólans um gerð bókarinnar og unnin verkefnislýsing og fjárhagsáætlun fyrir orðabókarverkefnið. Det Danske Sprog- og Litteraturselskab lýsti yfir áhuga á samstarfi við Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur og Orðabók Háskólans um gerð orðabókarinnar, en Det Danske Sprog- og Litteraturselskab er mikilvirkasta fræðastofnun Danmerkur í gerð orðabóka um danskt mál (þar má nefna Ordbog over det danske sprog (25 bindi + 5 bindi í viðbætur) og Den Danske Ordbog (DDO, ný 6 binda orðabók)). Við gerð Den Danske Ordbog lét Det Danske Sprog- og Litteraturselskab vinna ítarlegan rafrænan orðagrunn með skýringum. Det Danske Sprog- og Litteraturselskab hefur boðið Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur og Orðabók Háskóla Íslands aðgang að þessum gögnum við gerð nýrrar íslenskrar-danskrar orðabókar, en það yrði ómetanlegt fyrir framvindu verksins.
 2. Rannsókn meðal aldraðra Dana (sem fæddir eru 1930 og fyrr) búsettra á Íslandi.
 3. Nytjatextar á rafrænu formi til nota í atvinnulífi.

 

Fundur með Det Danske Sprog- og Litteraturselskab

28. nóvember 2003

Efnt var til tveggja funda í húsakynnum Det Danske Sprog- og Litteraturselskab í Kaupmannahöfn.

Fyrri fundurinn var haldinn með starfsfólki Det Danske Sprog- og Litteraturselskab þar sem Vigdís skýrði frá starfi sínu sem velgjörðarsendiherra tungumála hjá UNESCO. Þá gafst tækifæri til að kynna Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur, en gagnkvæmur áhugi er hjá stofnununum á samstarfi um tungumálarannsóknir og gerð tvímálaorðabóka á norrænum málum.

Seinni fundurinn var með velunnurum Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur við Hafnarháskóla en hann sátu auk Vigdísar og forstöðumanns stofnunarinnar eftirtaldir aðilar: Bent A. Koch, fv. ritstjóri, Jørn Lund, prófessor og framkvæmdastjóri DSL, Suzanne Brøgger rithöfundur, Søren Langvad forstjóri og Þorsteinn Pálsson sendiherra. Fyrrum ráðherrar, þeir Niels Helveg Pedersen og Uffe Ellemann-Jensen, höfðu sýnt áhuga á að taka þátt í fundinum, styðja stofnunina og sitja fundinn, en boðuðu forföll. Rætt var um undirbúning kynningarinnar í Danmörku og hvernig best væri staðið að því að vekja áhuga á dansk-íslenskum verkum og fjáröflun til dansk-íslenskra rannsóknaverkefna á fræðasviðum Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur.

 

Kynning á ársfundi Dansk-íslenska verslunarráðsins

28. nóvember 2003

Á ársfundi Dansk-íslenska verslunarráðsins, sem haldinn var á Norðurbryggju, var Vigdís Finnbogadóttir heiðruð fyrir störf sín í þágu samskipta Dana og Íslendinga. Vigdís hélt erindi um gildi tungumálakunnáttu fyrir atvinnulífið. Í tilefni útnefningar Vigdísar sem heiðursfélaga ráðsins var forstöðumanni Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur boðið að kynna stofnunina og starfsemi hennar.

 

Norræn tungumál og bókmenntir á Norðurbryggju

29. nóvember til 30. nóvember

Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur stóð fyrir tveggja daga ráðstefnu á Norðurbryggju helgina 29.-30. nóvember. Ráðstefnan var liður í opnunardagskrá Norðurbryggju og var efni hennar norrænn málskilningur og vestnorrænar bókmenntir.

Norrænn Málskilningur

Auður Hauksdóttir, forstöðumaður Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur, opnaði ráðstefnuna og Niels Davidsen Nielsen, formaður dönsku málnefndarinnar, var fundarstjóri en all fluttu átta fræðimenn erindi á ráðstefnunni.

Erindi á ráðstefnunni fluttu:

 • Vigdís Finnbogadóttir, danska sem lykill Íslendinga að norrænu málasamfélagi og menningarlegt gildi norræns málskilnings 
 • Jørn Lund, prófessor og forstöðumaður Det Danske Sprog- og Litteraturselskab, dönsk málstefna og norrænt samstarf
 • Pia Jarvad, fræðimaður hjá dönsku málnefndinni, skýrði frá norrænni rannsókn á svonefndum umdæmisvanda (domænetab) en þar er átt við að norræn tungumál eigi í vök að verjast gagnvart enskunni þannig að notkunarsvið þjóðtungnanna þrengist
 • Lars Olof-Delsing, dósent við Háskólann í Lundi, greindi frá fyrstu niðurstöðum nýrrar norrænnar rannsóknar á málskilningi á Norðurlöndum 
 • Henrik Galberg-Jacobsen, prófessor við Háskólann í Óðinsvéum, danska sem samskiptamál fyrir Norðurlandabúa
 • Naja Blytmann Trondhjem, lektor við Hafnarháskóla, staða dönsku á Grænlandi
 • Jens Normann Jørgensen, prófessor við Hafnarháskóla, Hvers vegna eigar Danir erfitt með að skilja dönsku talaða af útlendingum?
 • Auður Hauksdóttir, dósent, sagði frá fyrstu niðurstöðum rannsóknar meðal íslenskra námsmanna í framhaldsnámi í Danmörku, en hún beinist að því að kanna dönskukunnáttu þeirra og hvernig þeir meta dönskukennslu í íslenskum skólum í ljósi reynslu þeirra sem námsmanna.

 

 

Á myndinni í fremstu röð frá vinstri: Tómas Ingi Olrich, menntamálaráðherra, Auður Hauksdóttir, forstöðumaður Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur og Frú Vigdís Finnbogadóttir. Í annarri röð hjónin og rithöfundarnir Knud Zeruneith og Suzanne Brøgger. Ljósmynd tók Helgi Þorsteinsson.

Ráðstefnan tókst í alla staði mjög vel. Boðið var sérstaklega á ráðstefnuna og var hún fjölsótt. Þátttakendur voru nokkuð á annað hundrað, aðallega fræðimenn og forsvarsmenn menningarstofnana.

Vestnorrænar bókmenntir

Vigdís Finnbogadóttir bauð gesti velkomna og var Peter Springborg, forstöðumaður Det Arnamagnæanske Institut, fundarstjóri en fimm fræðimenn fluttu erindi á ráðstefnunni.

Erindi á ráðstefnunni fluttu:

 • Erik Skyum-Nielsen, lektor við Hafnarháskóla, Nye og gamle og meget gamle former i vestnordisk litteratur. Hann gerði grein fyrir straumum og stefnum í bókmenntum og tengslum þeirra við norrænan og ekki síst íslenskan bókmenntaarf
 • Kirsten Thisted, lektor við Hafnarháskóla, Træde ud af landekortet? Om hjem og hjemlighed i ny grønlandsk litteratur
 • Jógvan Isaksen, lektor við Hafnarháskóla, Færøsk litteratur set med postkoloniale briller. Er William Heinesen en færøsk eller en dansk digter?
 • Vésteinn Ólason, prófessor og forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar, Vikinger og helte i skyggen af to verdenskrige
 • Torfi H. Tulinius, prófessor við Háskóla Íslands, Hlutverk Snorra Sturluson í norrænum nútímaskáldskap

Þá lásu skáldin Einar Már Guðmundsson, Kelly Berthelsen (frá Grænlandi) og Oddvør Johansen (frá Færeyjum) úr verkum sínum.

Báða dagana var dreift kynningarefni um Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur og Styrktarsjóð stofnunarinnar. Stofnuninni bárust þakkir frá fjölmörgum gestum í kjölfar ráðstefnunnar þar sem hvatt var til að fyrirlestrarnir yrðu gefnir út á prenti.

Ráðstefnan var fjölsótt en hún var styrkt af Norræna menningarsjóðnum.

 

Móttaka í sendiráði Íslands í Danmörku

29. nóvember 2003

Stofnunin naut ómetanlegrar að stoðar sendiráðs Íslands í Kaupmannahöfn við undirbúning og framkvæmd kynningarinnar, og ber þar sérstaklega að geta velvildar og liðsinnis Þorsteins Pálssonar sendiherra.

Laugardaginn 29. nóvember efndu sendiherrahjónin, Þorsteinn Pálsson og Ingibjörg Rafnar, til myndarlegrar móttöku í sendiherrabústaðnum í Charlottenlund. Þangað var boðið ýmsum samstarfsaðilum við danska háskóla, fyrirlesurum, velunnurum og öðrum sem komu að kynningunni.

 

Málstefna um norrænan málskilning og norrænar bókmenntir á Schæffergården

1. desember 2003

Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur efndi til dagskrár í samvinnu við Fondet for Dansk-Norsk Samarbejde um norrænan málskilning og bókmenntir á Schæffergården í Gentofte.

Schæffergården er vinsæl og virt miðstöð og gegnir mikilvægu hlutverki í menningarsamskiptum Dana og Norðmanna. Dansk-norski sjóðurinn hefur löngum sýnt Íslendingum einstaka velvild, meðal annars með því að veita dvalar- og uppihaldsstyrki til dönskukennara og dönskunema við Háskóla Íslands og Kennaraháskóla íslands. Dönskukennarar hafa fengið aðstöðu til að halda endurmenntunarnámskeið á Schæffergården og dönskunemar geta sótt námskeið um danska tungu og menningu gegn mjög vægu gjaldi.

Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur vildi sýna þakklæti sitt í verki með því að standa að menningardagskrá um norrænan málskilning og íslenskar og norskar bókmenntir í samvinnu við Fondet for Dansk-Norsk Samarbejde.

Auður Hauksdóttir, forstöðumaður Stpfnunar Vigdísar Finnbogadóttur, opnaði málþingið og rakti tengsl stofnunarinnar við Schæffergården.

Erindi á ráðstefnunni fluttu:

 • Vigdís Finnbogadóttir, Gildi norrænnar tungumála- og menningarsamvinnu 
 • Erik Skyum-Nielsen, þýðandi og lektor við Hafnarháskóla, Islandsk og norsk litteratur (siden 1814) fra postkolonial synsvinkel 
 • Thorvald Steen, rithöfundur, Heimsmynd Snorra Sturlusonar og tengsl norrænna manna á 12. öld við umheiminn

Að lokum las Einar Már Guðmundsson rithöfundur úr verkum sínum. Góður rómur var gerður að fyrirlestrunum og spruttu líflegar umræður í kjölfar þeirra en málþingið var vel sótt.

 

Á myndinni frá vinstri: Frú Vigdís Finnbogadóttir, Auður Hauksdóttir og Thorvald Steen. Ljósmynd tók Helgi Þorsteinsson.

Að dagskrá lokinni bauð Fondet for Dansk-Norsk Samarbejde fulltrúum Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur og öðrum fyrirlesurum til kvöldverðar á Schæffergården.

 

Fundur í Kennaraháskólanum

2. desember 2003

Vigdís Finnbogadóttir og Auður Hauksdóttir, forstöðumaður Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur, sátu fund með Anne Holmen, prófessor, og Karen Lund lektor, við Danmarks Pædagogiske Universitet. Í haskólanum fer fram þróttmikið rannsóknar- og þróunarstarf varðandi dönsku sem annað og erlent tungumál en Anne Holmen, prófessor, Karen Lund, lektor, eru leiðandi í rannsóknum á þessum sviðum. Tilefni fundarins var að leita eftir samstarfi við Danmarks Pædagogiske Universitet um rannsóknir tengdar dönskunámi og dönskukennslu. Á fundinum ríkti mikill áhugi á því að stuðla að frekara rannsóknarsamstarfi háskólanna.

 

NorFA - norrænt net um notkun tölva og tungutækni

4. desember 2003

Haldinn var fyrsti fundur í stjórn norræns samstarfsnets um notkun tölva og tungutækni við kennslu norrænna mála á háskólastigi og við rannsóknir og þýðingar.

Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur hlaut veglegan styrk frá NorFA til að leiða netið til tveggja ára. Auk Auðar Hauksdóttur, forstöðumanns, sitja fimm erlendir fræðimenn í stjórn netsins. Í stjórninni eru:

 • Auður Hauksdóttir, forstöðumanns Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur
 • Anju Saxena, dósent við Uppsalaháskóla
 • Kris Van de Poel, prófessor og forstöðumaður Centre for Language and Speech við Háskólann í Antwerpen
 • Hanne Fersøe, varaforstöðumaður Center for Sprogteknologi í Kaupmannahöfn
 • Jens Allwood, prófessor við Gautaborgarháskóla
 • Peter Juel Henrichsen, dósent við Verslunarháskólann í Kaupmannahöfn

 

Að undanskildum Jens Allwood sátu allir í stjórn netsins þennan fyrsta fund. Þá sat Henrik Holmboe fundinn fyrir hönd NorFA. Lögð voru drög að ráðstefnum og vinnufundum við Gautaborgarháskóla (febrúar 2004), við Háskóla Íslands (maí 2004), við Verslunarháskólann í Kaupmannahöfn (október 2004) og við Háskóla Íslands í byrjun árs 2005. Netsamstarfið er mikil lyftistöng fyrir fræða- og rannsóknastarf Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur.

 

Samstarfssamningur við Hafnarháskóla

5. desember 2003

Einn liður í kynningunni í Kaupmannahöfn var að koma á formlegu samstarfi við Hafnarháskóla, København Universitet, með undirritun samningsins.

Auður Haukdsdóttir, forstöðumaður Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur, átti fund með Torkil Damsgaard Olsen, varadeildarforseti, Jens Normann Jørgensen, prófessor, og Erik Skyum-Nielsen, lektor og þýðandi, norræna fræða við Hafnarháskólann þann 16. júní 2003. Rætt var um samstarfssamning Háskóla Íslands og Hafnarháskólans um rannsóknir og kennslu í dönsku máli og menningu, þýðingum og kennslu dönsku sem erlendrar tungu. Auk rannsóknasamstarfs fæli samningurinn í sér nemenda- og kennaraskipti.

Af hálfu dönskudeildarinnar við Háskóla Íslands var lögð áhersla á, að nemendur útskrifaðir með BA-próf frá skólanum gætu hindrunarlaust hafið framhaldsnám í dönsku á meistarastigi við Hafnarhaáskólann. Einnig var lögð áhersla á að dönskunemendur við Háskóla Íslands gætu tekið hluta náms síns á BA- og MA-stigi við Hafnarháskólann. Eftir fundinn var þess farið á leit við Karitas Kvaran, forstöðumann Alþjóðaskrifstofu Háskóla Íslands, að unnin yrðu drög að samstarfssamningi, sem tæki til framangreindra þátta, og yrðu þau send fagaðilum innan beggja skóla til umfjöllunar. Alþjóðaskrifstofan hafði umsjón með samningsgerðinni og í lok nóvember undirritaði Páll Skúlason háskólarektor samninginn fyrir hönd Háskóla Íslands.

 

 

Á myndinni í fremri röð frá vinstri: Niels Finn Christianssen, forstöðumaður Stofnunar norrænna fræða við Hafnarháskóla, undirritar samstarfssamninginn fyrir hönd skólans. Fyrir aftan hann standa frá vinstri: Vigdís Finnbogadóttir og Auður Hauksdóttir, forstöðumaður, og Þorsteinn Pálsson, sendiherra Íslands í Danmörku.

Niels Finn Christiansen, forstöðumaður Stofnunar norrænna fræða, undirriatði þann 5. desember samninginn fyrir hönd Hafnarháskólann og af því tilefni var boðið til samkomu í háskólanum. Niels Finn Christiansen ávarpaði gesti og síðan héldu Jens Normann Jørgensen, prófessor, og Auður Hauksdóttir, forstöðumaður Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur, stutta tölu. Meðal annarra gesta voru Torkil Damsgaard Olsen, varadeildarforseti heimspekideildar Hafnarháskólans, Palle Schantz Lauridsen, námstjóri, Frans Gregersen, prófessor, Erik Skyum-Nielsen, lektor og þýðandi, Nina Mølller Andersen, lektor, Peter Springborg, forstöðumaður Det Arnamagnæanske Institut, Vigdís Finnbogadóttir og Þorsteinn Pálsson sendiherra.

 

Samstarfssamningur við Verslunarháskólann

5. desember 2003

Ole Helmersen deildarforseti, undirritaði samstarfssamning Verslunarháskólans í Kaupmannahöfn, Copenhagen Business School, og Háskóla Íslands. Páll Skúlason, háskólarektor, hafði undirritað samninginn fyrir hönd Háskóla Íslands í lok nóvember 2003.

Alþjóðaskrifstofa háskólastigsins annaðist samningsgerðina í samvinnu við fagaðila innan háskólanna tveggja. Samningurinn felur í sér samstarf um nemenda- og kennaraskipti en samkvæmt honum geta dönskunemar við HÍ, sem vilja sérhæfa sig í atvinnulífsdönsku, tekið hluta meistaranáms á þessu sviði við Verslunarháskólann í Kaupmannahöfn. Verslunarháskólinn í Kaupmannahöfn hefur áratugareynslu af kennslu og rannsóknum varðandi notkun tungumála í viðskiptum og atvinnulífi og býður skólinn upp á fjölbreytt nám á því sviði. Það er því er mikill fengur í samningnum fyrir Háskóla Íslands.

 

Styrktarsjóður Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur

Styrktarsjóður Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum var stofnaður 12. febrúar 2003. Stofnendur sjóðsins, samkvæmt stofnskrá, teljast þeir sem gerðust styrktaraðilar fyrir 15. apríl 2005.

Í ferðinni var leitað eftir fjárframlagi frá íslenskum-dönskum sjóðum og fyrirtækjum, annars vegar stuðningi við tiltekin rannsóknar- og þróunarverkefni og hins vegar stofnframlagi í Styrktarsjóð Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur.

 • Augustinus Fonden, styrkti orðabókarverkefnið að upphæfð 400.000 DKK (u.þ.b. 5 millj. ÍSK), að því tilskildu að tryggð yrði heildarfjármögnun verksins með aðkomu fleiri aðila
 • Søren Langvad, forstjóri E. Pihl & Søn og Ístak hf., fyrirtækin E. Pihl & Søn og Ístak hf styrktu Styrktarsjóð Vigdísar Finnbogadóttur að upphæð 10 miljónir ISK og gerðust styrktarðailar að sjóðnum. Þetta framlag er það stærsta sem sjóðurinn hefur fengið til þessa.

Aðrir sem gerðust stofnendur Styrktarsjóðs Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í tengslum við Danmerkurkynninguna eru:

 • Det Forenede Dampskibs Selskab styrkti sjóðinn að upphæð 50.000 DKK
 • Hedorfs Fond, sjóður stofnanda Transportkompagniet Nord A/S, styrkti sjóðinn að upphæð 50.000 DKK
 • Ó. Johnson & Kaaber styrtki sjóðinn að upphæð 30.000 ISK
 • Þá færði postulínsverksmiðjan Royal Scandinavia stofnuninni 15 manna matar- og kaffistell að gjöf

 

Styrkur frá Norræna menningarsjóðnum

Að lokinni kynningu í Danmörku ákvað Norræni menningarsjóðurinn að veita Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum 375.000 DKK styrk til að standa að svipuðum kynningum í Svíþjóð (2004), Noregi (2005) og Finnlandi (2006).

Hluta styrksins skyldi varið til útgáfu rits með fyrirlestrum frá fyrrnefndri ráðstefnu, sem stofnunin stóð fyrir á Norðurbryggju. Ritið kom út í tilefni 75 ára afmælis Vigdísar Finnbogadóttur 15. apríl 2005. Afmælisritið er skrifað á dönsku, norsku og sænsku og ber titilinn "Ordenes slotte. Om sprog og litteratur i Norden". Auk greina sem byggðar eru á fyrirlestrum ráðstefnunnar er þar að finna greinar um samísku, sænsku í Finnlandi og grein eftir Kaj Elkrog og Morten Meld gaard, þar sem þeir fjalla um sögu Norðurbryggju og vígslu menningarsetursins í nóvember 2003.

Áhugaverðir tenglar:

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is