Kynning í Frakklandi 2008

Kynning í Frakklandi

17. nóvember til 23. nóvember 2008

Kynning á starfsemi Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur fór fram í Paris og Caen dagana 17. nóvember til 23. nóvember 2008.

Markmið:

Markmið kynningarinnar var að hitta fagfólk, samstarfsmenn og stofnanir, og hugsanlega styrktaraðila. Auk þess átti Vigdís að taka við alþjóðlegri viðurkenningu frá kvennasamtökunum Ladies First og vera heiðursforseti norrænu menningarhátíðarinnar Boréales sem haldin er á hverju ári í Caen í Normandí og var sérstaklega helguð Íslandi að þessu sinni.

Sendinefndin:

Frú Vigdís Finnbogadóttir fór fyrir sendinefndinni á vegum stofnunarinnar. í sendinefndinni voru:

  • Ásdís R. Magnúsdóttir
  • Jóhanna Björk Guðjónsdóttir
  • Torfi H. Tulinius

Fundur með Louis-Jean Calvet

17. nóvember 2008

Lent var í París um hádegisbil þann 17. nóvember og haldið beint á hótel Vigdísar þar sem hún sat fund með málvísindamanninum Louis-Jean Calvet. Calvet er prófessor við Université de Provence í Aix en hann var áður prófessor við Sorbonne. Óhætt er að segja að hann sé einn af þekktari málvísindamönnum Frakka.

Vigdís ræddi við hann um möguleika á heimsókn hans til Íslands, t.d. í lok maí/byrjun júní 2009, þar sem héldi fyrirlestra á vegum Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur, og um framtíðarsýn stofnunarinnar. Louis-Jean Calvet tók hann vel í mögulega heimsókn og stakk hann upp á ýmiss konar samstarfsflötum sem og öðrum samstarfsaðilum s.s. Henriette Walter og Claude Hagège. Hann vakti einnig athygli okkar á einkar vel heppnuðu Musée de la langue í Sao Paulo í Brasilíu.

 

Viðtöl við franska fjölmiðla

18. nóvember 2008

Vigdís og Torfi H. Tulinius hittu dagskrárgerðarmenn frá stærstu útvarpsstöð Frakklands, France Inter, þá José-Manuel Lamarque og Emmanel Moreau vegna þáttar sem þeir hyggjast gera um miðja desember. Þátturinn er um afstöðu Íslendinga til Evrópusamstarfs.

Stuttu seinna tók blaðamaður frá Les Échos viðtal við Vigdísi vegna viðurkenningarinnar frá Ladies First.

 

Fundur með Jean Pruvost

18. nóvember 2008

Ásdís R. Magnúsdóttir og Jóhanna Björk Guðjónsdóttir áttu fund með Jean Pruvost, yfirmanni rannsóknarstofnun CNRS Lexiques Dictionnaires Informatique við háskólann Université de Cergy-Pontoise rétt fyrir utan París.

Erindi fundarins var að ræða mögulegt samstarf um gerð íslensk-franskrar orðabókar og var vel tekið í þá hugmynd. Jean Pruvost kvaðst geta lagt fram aðstoð við skilgreiningu þeirrar aðferðafræði sem lögð verður til grundvallar við gerð orðabókarinnar. Einnig gæti rannsóknarstofa hans lagt fram hálfan starfskraft við yfirlestur á frönskum texta orðabókarinnar.

 

Hádegisverður með Nicole Michelangeli

18. nóvember 2008

Vigdís og Torfi H. Tulinious snæddu hádegisverð með Nicole Michelangeli, fyrrverandi sendiherra Frakklands á Íslandi en nú næstráðandi á Evrópuskrifstofu franska utanríkisráðuneytisins, en hún var stofnuninni innan handar við skipulagningu ferðarinnar.

 

Fundur með Jacques Chirac

18. nóvember 2008

Fulltrúar sendinefndarinnar hittust aftur klukkan fimm til að mæta á fund Jacques Chirac, fyrrum forseta Frakklands frá 1995 til 2007. Jacques Chirac hefur komið á fót stofnun, Fondation Chirac, sem hefur markmið sem skarast við þau sem Stofnun Vigdísar hefur sett sér, þ.á.m. verndun tungumála í útrýmingarhættu.

Chirac forseti tók forkunnarvel á móti Vigdísi og fylgdarliði hennar, en fundinn sátu auk þeirra Rozenn Milin og ónafngreind kona sem báðar vinna við stofnun Chirac. Hafði Frakklandsforsetinn fyrrverandi mörg orð um jákvætt orðspor Vigdísar í Frakklandi og um mikilvægi þess starfs sem hún hefur unnið í gegnum tíðina í þágu tungumála. Hét hann fullum stuðningi við Stofnun Vigdísar, bæði í orði og á borði, og fagnaði samstarfi hennar og Fondation Chirac.

 

Fundur með Rozenn Milin

19. nóvember 2008

Ásdís R. Magnúsdóttir og Jóhanna Björk Guðjónsdóttir áttu fund með Rozenn Milin hjá Fondation Chirac. Þar kynnti Rozeen Milin starfssvið sitt hjá Fondation Chirac en það felst einkum í því að festa tungumál á filmu. Farið var yfir helstu möguleika á samstarfi milli stofnananna tveggja.

 

Fundur með Michel Pébereau

19. nóvember 2008

Vigdís og Torfi H. Tulinious áttu fund kl. 11 með Michel Pébereau, forstjóra BNP-Parisbas sem er stærsti banki Frakklands. Fundurinn fór fram í höfuðstöðvum bankans og sat fundinn einnig Alexandre Carelle, sem vinnur á þeirri skrifstofu sem sér um styrki bankans til menningarmála. Fundurinn var vinsamlegur og sýndi Hr. Pébereau málefnum stofnunarinnar áhuga. Ákveðið var að fulltrúar Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur og Alexandre Carelle myndu vera í sambandi um samstarf.

 

Alþjóðleg viðurkenning kvennasamtakanna Ladies First

19. nóvember 2008

 Vigdísi var veitt alþjóðleg viðurkenning kvennasamtakanna Ladies First 19. nóvember 2008. Hún er fyrst til að hljóta alþjóðlega viðurkenningu þessara samtaka en innlenda viðurkenningin rann til Alice Dautry sem er forstöðumaður Institut Pasteur, helstu rannsóknastofnun Frakklands í veirufræði. Efnt var til fjölmennrar samkomu af þessu tilefni í Hôtel Dassault, en gestir voru úr fremstu röð kvenna í frönsku þjóðlífi. Hamrahlíðarkórinn söng og Vigdís flutti ávarp sem féll í góðan jarðveg hjá viðstöddum.

 

Dagskrá í Caen

20. nóvember 2008

Vincent Lemaire, franskur útvarpsmaður, tók viðtal við Vigdísi, klukkan 9.30, vegna þáttarins A suivre sem sendur var út 23. nóvember á útvarpsstöðinni France Culture.

Um hádegisbil lagði Vigdís af stað til Caen í fylgd sendiherra Íslands Tómasar Inga Olrich. Síðdegis var móttaka í ráðhúsi Caen þar sem Vigdís flutti ávarp, ásamt borgarstjóranum og sendiherranum. Síðar um kvöldið var Vigdís viðstödd danssýningu Íslenska dansflokksins í borgarleikhúsi Caen.

 

L'Islande dans l'imaginaire

21. nóvember 2008

Ráðstefnan L‘Islande dans l‘imaginaire við háskólann Université de Caen-Basse Normandie var sett klukkan níu um morguninn. Vigdís flutti ávarp og opnaði ráðstefnuna, en þar töluðu franskir og íslenskir fræðimenn um ímynd Íslands í listum, bókmenntum og fræðiritum.

Um hádegið var haldið til aðseturs héraðsstjórnarinnar þar sem boðið var til hádegisverðar til heiðurs Vigdísi. Að því loknu var hún viðstödd opnun á sýningu á listaverkum sex íslenskra myndlistarmanna í nútímalistarmiðstöð Caen borgar. Eftir móttöku sem haldin var í húsnæði héraðstjórnarinnar í fornu klaustri Abbaye-aux-dames hlýddi Vigdís á tónleika Hamrahlíðarkórsins.

 

Fundur með Jean-Luc Clément í París

21. nóvember 2008

Í París áttu Ásdís R. Magnúsdóttir og Jóhanna Björk Guðjónsdóttir fund með Jean-Luc Clément, ráðgjafa á sviði evrópsks og alþjóðlegs rannsóknarsamstarfs, til að leita upplýsinga um samstarf milli Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur og stofnana í Frakklandi og styrkmöguleika, hann nefndi m.a. sem möguleika að Ísland gerðist þátttakandi Organisation Internationale de la Francophonie og gæti þannig snúið sér til þessara samtaka. Einnig minntist hann á að það mætti sækja ýmsan stuðning til Académie des sciences.

 

Dagskrá Les Boréales í Caen

22. nóvember 2008

Vigdís opnaði ljósmyndasýninguna Icelanders með myndum Sigurgeirs Sigurjónssonar í Musée de Normandie.

Síðar sama dag tók hún þátt í pallborðsumræðum um Ísland í nútímanum ásamt Torfa H. Tulinius, Steinunni Sigurðardóttur og Jesse Byock. Eftir það hlýddu þau á opinber viðtöl við Arnald Indriðason, Sjón, Guðrúnu Evu Mínervudóttur og Kristínu Mörju Baldursdóttur.

 

Dagskrá Les Boréales í Caen

23. nóvember 2008

Vigdís var viðstödd pallborðsumræður Arnaldar Indriðasonar, Árna Þórarinssonar og Jóns Halls Stefánssonar um íslensku sakamálasöguna sem fram fór undir stjórn Gérard Meudal, blaðamanns hjá Le Monde. Síðar um daginn opnaði hún sýningu á verkum Errós í Sýningarsal Hérouville, sem er rétt fyrir utan Caen.

 

Fundur með David de Rothschild í París

24. nóvember 2008

Haldið var aftur til Parísar þar sem Vigdísi og Torfa H. Tulinius var boðið í hádegisverð í Banque Rothschild af forstjóra bankans, David de Rothschild. Hann tók á móti þeim í einkamatsal sínum og sýndi starfi Stofnunar Vigdísar mikinn áhuga. Hann hét táknrænum fjárhagslegum stuðningi undir eins og hefur áhuga á að styðja frekar við stofnunina á síðari stigum.

 

Fundur með Xavier Norh, í menningarmálaráðuneytinu

24. nóvember 2008

Síðar um daginn, eftir fundinn með David de Rothschild, var för Vigdísar og Torfa H. Tulinius heitið í franska menningarmálaráðuneytið til að hitta Xavier North, yfirmann þeirrar deildar sem sér um málefni franskrar tungu og annarra tungumála sem töluð eru í Frakklandi (Délégation générale à la langue française et aux langues de France). Einnig var viðstaddur fundinn Michel Alessio.

Mikill áhugi er á samstarfi við Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur á öllum sviðum, ekki síst við að afla fjármuna til að vinna íslensk-franska orðabók. Buðust þeir til að sækja sameiginlega um styrk til Centre national du livre til að vinna slíka bók.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is