Kynning í Japan 2002

Kynning í Japan

9. nóvember til 17. nóvember 2002

Víðamikil kynning á Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur fór fram í Japan dagana 9. nóvember til 17. nóvember.

Markmið:

Markmið kynningarinnar var að efla tengsl við háskóla þar í landi og leita stuðnings við starfsemi stofnunarinnar.

Sendinefndin:

Frú Vigdís Finnbogadóttir fór fyrir sendinefndinni á vegum stofnunarinnar en Auður Hauksdóttir, forstöðumaður Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur fór einnig með til Japans.

Stofnunin naut ómetanlegrar aðstoðar Ingimundar Sigfússonar, sendiherra í Japan og annars starfsfólks sendiráðsins við skipulagningu og framkvæmd kynningarinnar. Sendiherrann var í fylgd Vigdísar við flesta dagskrárliði kynningarinnar.

Gefið var út kynningarefni á japönsku um hlutverk og starfsemi Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur og var því dreift til 250 aðila, þar á meðal háskólastofnana, ráðamanna, menningarstofnana og fyrirtækja.

Ríkisstjórn Íslands styrkti kynninguna með einni milljón króna framlagi en aðrir styrktaraðilar voru Toyota á Íslandi, K.K. Viking/Icelandair í Japan og Prentsmiðjan Gutenberg.

Heimsókn í Wasedaháskóla

11. nóvember 2002

Heimsóknin í Wasedaháskóla hófst með stuttum spjallfundi við Norio Okazawa prófessor, Naoko Sakurai, forstöðumanni stjórnunarsviðs alþjóðaskrifstofunnar og Yuko Hazenoki.

Wasedaháskóli er einkarekinn háskóli í Japan með 60.000 nemendur en háskólinn hefur víðtæk tengsl um allt land og leggur áherslu á alþjóðasamskipti. Árið 2000 gerðu Háskóli Íslands og Wasedaháskóli með sér samstarfssamning um kennara- og nemendaskipti. Helsti samstarfsaðili Háskóla Íslands í Waseda, Norio Okazawa prófessor, var einn af vararektorum skólans þar til ný stjórn háskólans tók við störfum í byrjun nóvember.  

Wasedaháskóli hefur sýnt mikinn áhuga á íslenskum málefnum og hefur hug á að efla enn frekar samstarf við Háskóla Íslands. Í október 2002 heimsótti Páll Skúlason rektor Wasedaháskóla en einnig hafa stjórnendur hans átt gott samstarf við sendiherra Íslands í Japan. Íslenska var kennd þar um langt skeið þar til Sadao Morita prófessor lét af störfum fyrir aldurs sakir, en hann gaf út á sínum tíma bók um íslenska málfræði. Mikill áhugi er á því að hefja íslenskukennslu á ný við Waseda.

Nýverið kom út hjá Waseda University Press japönsk þýðing á bókinni "A brief history of Iceland" eftir Gunnar Karlsson prófessor.

Fyrirlestrar í Wasendaháskólanum:

Að ósk Wasedaháskóla héldu Vigdís Finnbogadóttir og Auður Hauksdóttir fyrirlestra við skólann.

 • Fyrirlestur Vigdísar bar yfirskriftina "Message from Iceland in 1980".  Vigdís sagði þar frá kvennafrídeginum 24. október 1975, aðdraganda forsetakosninganna 1980, þátttöku kvenna í stjórnmálum og viðbrögð umheimsins við því er hún var kjörin forseti, fyrst kvenna í heiminum. Vigdís hvatti ungar konur til að afla sér menntunar og til að láta til sín taka á öllum sviðum þjóðlífsins. Vigdís sagði frá SVF og greindi frá starfi sínu sem velgjörðarsendiherra tungumála á vegum UNESCO.  
 • Fyrirlestur Auðar "Language Education in Iceland". Auður gerði grein fyrir viðhorfum Íslendinga til erlendra tungumála, margþættum tengslum Íslendinga við aðrar þjóðir, þörf þjóðfélags, atvinnulífs og einstaklinga fyrir tungumálakunnáttu og loks fjallaði hún ítarlega um inntak og skipulagningu tungumálakennslu í íslenskum skólum, meðal annars HÍ. Fyrirlestrarnir voru fjölsóttir og vakti fyrirlestur Vigdísar ekki síst athygli meðal kvenstúdenta. Að loknum fyrirlestri stóðu stúdentar í langri biðröð eftir að fá að tala við Vigdísi.

Fundur með stjórn háskólans

Vigdís og stjórnendur Wasenda háskólans ræddu samskipti Íslands og Japans. Rætt var um samstarf ekki aðeins á sviði tungumála heldur einnig  á öðrum fræðasviðum háskólanna. Rætt var um kennara- og nemendaskipti, rannsóknir á tungumálum og sameiginleg þróunarverkefni tengd tungumálakennslu, þar á meðal fjarkennslu. Fundinn sátu auk fulltrá Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur:

 • Katsuhiko Shirai, prófessor og rektor
 • Kenji Horiguchi, prófessor og vararektor
 • Kenichi Enatsu, prófessor, vararektor og forstöðumaður alþjóðaskrifstofu Waseda
 • Norio Okazawa, prófessor og fyrrverandi vararektor
 • Masao Iwai, prófessor í þýsku og þýskum bókmenntum (School of Political Science and Economics)
 • Michiko Nakano, prófessor í málvísindum (School of Education)
 • Masayuki Ikeda, prófessor í menningarfræðum (Cultural Antropology), frönsku og frönskum bókmenntum (School of Social Science)
 • Yoshikazu Kawaguchi, varadeildarforseti (Center for Japanese Language)
 • Sadao Morita, prófessor emeritus (School of Science and Engineering)
 • Naoko Sakurai, forstöðumaður stjórnunarsviðs alþjóðaskrifstofu Waseda
 • Yuko Hazenoki

Masayuki Ikeda er virtur málvísindamður og  Michiko Nakano hefur náð góðum árangri við skipulagningu fjarkennslu í tungumálum í samstarfi við önnur Asíulönd. Því ríkti áhugi  á samstarfi háskólanna um fjarkennslu í tungumálum, til dæmis íslensku og japönsku. Nakano óskaði eftir að komast í samband við tæknifólk Háskóla Íslands til að kanna fjarkennsluútbúnað skólans. Forstöðumaður Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur greindi frá fjarkennslu við Háskóla Íslands og starfsemi Tungumálamiðstöðvarinnar. Þá lýsti Masao Iwai yfir áhuga á að hefja íslenskukennslu á ný við Wasedaháskóla.

Norio Okazawa baðst velvirðingar á því að Waseda hafi ekki tekist að útvega kennara til að skipuleggja japönskunám við Háskóla Íslands, en eftir því hafði verið leitað um áramótin í tengslum við umsókn Háskóla Íslands til Japan Foundation. Okazawa vísaði til þess að vormisseri Háskóla Íslands skarast við tvö misseri við Waseda háskólann. Rektor og aðstoðarrektorar sátu fyrri hluta fundarins. Skipst var á gjöfum og heimsóknin færð til bókar.

Fundur í The Fusae Ichikawa Memorial Association

11. nóvember 2002

Samtökin The Fusae Ichikawa Memorial Association voru stofnuð til minningar um stjórnmálakonuna Fusae Ichikawa og er hlutverk þeirra að stuðla að aukinni þátttöku kvenna í stjórnmálum. Samtökin standa að rannsóknum og útgáfu fræðirita um kvennarannsóknir. Vigdís Finnbogadóttir hafði haldið ávarp á 30 ára afmæli samtakanna fyrir 10 árum og birtist þá viðtal við hana í afmælisriti þeirra. Haustið 2000 sóttu samtökin Ísland heim og af því tilefni skipulagði Háskóli Íslands málstofu um þátttöku íslenskra kvenna í stjórnmálum og um konur og háskóla.

Nú var komið að 40 ára afmæli samtakanna og þegar Mitsuko Yamaguchi frétti af ferðum Vigdísar óskaði hún eftir viðtali við hana í afmælisrit samtakanna. Viðtalið við Vigdísi var tekið á fundinum við The Fusae Ichikawa Memorial Associations. Fundinn sátu, auk fulltrúa Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur, Mitsuko Yamaguchi, framkvæmdastajóri The Fusae Ichikawa Memorial Associations og Kimikio Kubu.

Á fundinum var rætt um sendiherra hlutverk Vigdísar til stuðnings tungumálum heims, hlutverk og starfsemi Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur, tengsl Háskóla Íslands við japanska háskóla, mikilvægi samræðna ólíkra menningarheima, stöðu kvenna, menntamál, kvennarannsóknir og lýðræði. Þar sem tungumál eru hefðbundin kvennafög er mikilvægt að framkvæma rannsóknir sem vekja athygli samfélagsins á mikilvægi þessara starfa með tilliti til viðskipta og menningar. Minnst var á fyrirhugaða japönskukennslu við Háskóla Íslands, en með henni kemur nýtt menningarsvæði til sögunnar.     

Viðtalið við Vigdísi birtist í afmælisriti samtakanna sem gefið er út í 20.000 eintökum og dreift til félagsmanna og kvenna í áhrifastöðum í japönskum stjórnmálum.  

Heimsókn í Tokaiháskóla

12. nóvember 2002

Tokaiháskóli er einkarekinn háskóli í Japan og eru nemendur hans um 30.000. Mikil áhersla er lögð á kennslu og rannsóknir norrænna mála, þar á meðal íslensku. Skólinn hefur gefið út rit um íslenskar bókmenntir á japönsku, þar á meðal litla japanska-íslenska orðabók sem Nobuyoshi Mori dósent vann.

Fundur með stjórnendum skólans

Heimsóknin í Tokaiháskólann hófst með stuttum fundi með Yasu Tanaka, prófessor og forseta heimspekideildar og Kiyoshi Yamada, prófessor og forstöðumanni alþjóðadeildar skólans. Báðir létu í ljós áhuga á samstarfi við Háskóla Íslands, einkum nemenda- og kennaraskipti, meðal annars í því skyni að efla japönskukennslu við Háskóla Íslands og íslenskukennslu við Tokaiháskóla. Síðar sama dag tók Yasufumi Yamashita, prófessor við norrænudeild skólans, í sama streng. Hann greindi frá japönskunámskeiðum fyrir útlendinga sem Tokaiháskóli hafur þróað og taldi þau áhugaverðan kost fyrir íslenska námsmenn sem leggja stund á japönsku.  

Norræn vika í Tokaiháskólanum

Heimsóknin í Tokaiháskóla markaði upphaf norrænnar viku. Ingimundur Sigfússon sendiherra og Vigdís Finnbogadóttir héldu setningarávörp og fyrirlestra. Fyrirlestrarnir voru fluttir á íslensku, en túlkaðir á japönsku.
 

 • Fyrirlestur Ingimundar, "Iceland Energy and Society", fjallaði um vetni og orkumál Íslendinga
 • Fyrirlestur Vigdísar, "Icelandic People and Society", fjallaði um tengsl Íslands og Japans, jafnréttismál og gildi tungumálakunnáttu

Ingimundur Sigfússon gladdist yfir að Nobuyoshi Mori prófessor hafði ávarpað hann á íslensku við komuna til Tokai. Hann gat þess að túlkurinn Akiko Hasegawa hafi komið til Íslands fyrir 6 árum til að læra íslensku og skili nám hennar sér í yfirfærslu orðræðu úr einu tungumáli í annað. Sendiherrann greindi frá áætlunum stjórnvalda um að renna stoðum undir efnahagslífið með orkufrekum iðnaði, þar sem notuð væri endurnýjanleg orka. Stjórnvöld fullyrði að ekki verði gengið um of á náttúru landsins, en náttúruverndarsinnar séu ekki sömu skoðunar. Stefnt sé að aukinni nýtingu vetnis og með styrk frá Evrópusambandinu sé nú unnið að tilraun á þessu sviði. Sendiherrann sagði að lokum frá stofnun Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna og hvernig reynsla og þekking Íslendinga hafi nýst í starfsemi hans.   

Vigdís lýsti yfir ánægju sinni með að Tokaiháskóli sérhæfði sig í kennslu Norðurlandamála, ekki síst væri íslenskukennslan henni gleðiefni. Hún undirstrikaði mikilvægi tungumálakunnáttu í alþjóðlegu þekkingarsamfélagi og greindi frá starfi sínu sem velgjörðarsendiherra tungumála. Vigdís lauk ávarpi sínu með því að ítreka meginhlutverk Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur, en þau eru að rannsaka tungumálin og tengsl þeirra.

Vigdís Finnbogadóttir fjallaði um tunguna sem aflvaka í sjálfsímynd þjóða, jafnrétti kynjanna og kennslu og rannsóknir erlendra tungumála. Í upphafi sagði hún stuttlega frá Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur og hlutverki stofnunarinnar. Þó margt sé ólíkt með japönsku og íslensku þjóðfélagi, sé einnig margt sem þjóðirnar eigi sameiginlegt, báðar búi á eldfjallaeyjum og tali tungumál sem er öðrum hulin ráðgáta. Tungumálakunnátta sé báðum þjóðum nauðsynleg því án hennar eigi þær ekki aðgang að menningu annarra þjóða. Samræður menningarheima séu hverfandi eftir 11. september 2001 og er það mikið áhyggjuefni. Eina leiðin til að ná heimsfriði sé að ólíkir menningarheimar geti tali saman.

Fundur með þingmönnum Komeiflokksins

13. nóvember 2002

Haldin var fundir með þingmönnum Komeiflokksins þar sem Vigdís kynnti Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur og markmið kynningarinnar í Japan. Auk fulltrúa stofnunarinnar sátu fundinn tvær þingkonur og flokksbræður þeirra:

 • Toshiko Hamazu
 • Akira Matsu
 • Hiroshi Takano
 • Shuichi Katoh,
 • Akira Matsu
 • Tetsuzo Fuyushiba

Rætt var um það sem þjóðirnar eiga sameiginlegt og um þátttöku íslenskra kvenna í atvinnulífi og stjórnmálum. Töldu þingkonurnar að þar mætti læra margt af  Íslendingum. Vigdís vakti athygli á nauðsyn þess að yngri kynslóðin og sú eldri töluðu saman, að stjórnmálamenn töluðu við ungt fólk. Þingmennirnir sögðu flokk sinn leggja mikla áherslu á, að allar ákvarðanir um framtíðina tækju mið af umhverfismálum. Shuichi Katoh hafði kynnt sér vetnishugmyndir Íslendinga og þótti honum sjónarmið Braga Árnasonar afar áhugaverð.

Fundur með Shinako Tsuchiya

13. nóvember 2002

Hádegisverðarfundur var haldinn með Shinako Tsuchiya, formanni utanríkisnefndar japanska þingsins. Auk gestgjafans og fulltrúa Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur sátu eftirfarandi þingmenn fundinn:
 

 • Yasuaki Tanizaki, sendifulltrúi á skrifstofu Evrópumála
 • Hiroshi Minami, framkvæmdastjóri Vestur-Evrópudeildar á skrifstofu Evrópumála
 • Eisei Ito, þingmaður
 • Taimei Yamaguchi, þingmaður
 • Yoshiyuki Nagahama, þingmaður
 • Housei Yoshino Taro Sasaki, ritari Shinako Tsuchiya

Shinako Tsuchiya er mikill Íslandsvinur og sérstök vinkona Vigdísar. Sagt er að hún hafi beint athygli Obuchis fv. forsætisráðherra að Íslandi, en það var einmitt eftir opinbera heimsókn til Íslands sem hann tók ákvörðun um að stofna sendiráð hér á landi.

Í ávörpum sínum lögðu þær Shinako og Vigdís  áherslu á nauðsyn þess að styrkja samband Íslands og Japans og auka samskipti þjóðanna. Vigdís sagði frá Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur og tilgangi heimsóknarinnar til Japans. Vigdís lagði áherslu á að efla akademísk tengsl til þess að auka gagnkvæman skilning milli þjóðanna. Hún greindi frá áformum um að hefja japönskukennslu á Íslandi og sagði hana mikilvæga til að auka áhuga og skilning Íslendinga á Japan.

Heimsókn í Háskóla Sameinuðu þjóðanna

13. nóvember 2002

Heimsókn var farin í Háskóla Sameinuðu þjóðanna í Japan og tóku Max Bond og Dr. Birgit Poniatowski á móti fulltrúum Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur.

Starfsemi Háskóla Sameinuðu þjóðanna var kynnt og rætt um hugsanlegt samstarf við Stofnun Vigdísar Finnboagdóttur. Vigdís gerði grein fyrir erindi þeirra á japanskri grund og sagði frá starfsemi stofnunarinnar. Hún gat þess að Japanir hefðu áhuga á viðhorfum Íslendinga til tungumála og jafnréttis kynjanna. Gestgjafarnir sýndu fyrirhugaðri japönskukennslu við Háskóla Íslands mikinn áhuga og spurðu hvaða kennsluaðferðir yrðu lagðar til grundvallar kennslunni og hvernig kennsluefni yrði notað. Þau sýndu einnig áhuga á rannsóknaverkefnum sem eru á döfinni hjá Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur.

Max Bond taldi bága stöðu kvenna í Japan lítið hafa breyst á undanförnum áratug. Tungumálakunnátta og nám erlendis væri ein helsta leið þeirra til að komast í áhrifastöður og því hefji þær oft starfsferil sinn í útlöndum. Max Bond falaðist eftir verkefnalýsingu á rannsóknaverkefnum sem eru á döfinni hjá Stofnun Vigdisar Finnbogadóttur. Hann hafði áhuga á rannsókn sem gæti varpað ljósi á konur og tungumál og tungumál og viðskipti. Hann benti á nokkra sjóði sem gætu sýnt áhuga á rannsóknaverkefnum tengdum tungumálum og konum.

Rætt var um áhrif alþjóðavæðingar á tungumál, bæði áhrif enskunnar og nauðsyn þess að læra erlend tungumál. Vigdís greindi í stuttu máli frá verkefninu "Voices of the World". Max Bond sagði frá verkefni Háskóla Sameinuðu þjóðanna sem nefnt hefur verið "Globalization with a human face". Fyrirhuguð væri alþjóðlega ráðstefna í því sambandi í júlí 2003 og gæti Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur hugsanlega tekið þátt í henni.

Alltof mikil áhersla væri lögð á efnahagslegan þátt alþjóðavæðingar og þörf væri á að rannsaka áhrif hnattvæðingar á einstaklinga og samfélög. Áhrif hennar á menningu muni einnig verða í brennidepli og sagði hann áhugavert að fjalla einnig um áhrif á tungumál og viðhorf til tungumála. Hér gæti stofnunin tekið þátt í verkefninu, til dæmis með rannsóknum á áhrifum alþjóðavæðingar á viðhorf til tungumálakennslu (móðurmál, erlend mál almennt, viðhorf til ensku og annarra erlendra mála, til dæmis þýsku, frönsku eða Norðurlandamála). Fram kom að rektor Háskóla Sameinuðu þjóðanna væri mikill áhugamaður um tungumál og mætti því vænta jákvæðrar afstöðu hans til þeirra mála sem rædd voru á fundinum.

Móttaka í Sendiráði Íslands

13. nóvember 2002

Íslensku sendiherrahjónin í Japan, þau Ingimundur Sigfússon og Valgerður Valsdóttir, héldu móttöku til heiðurs Vigdísi Finnbogadóttur í sendiráði Íslands. Flestir boðsgestir höfðu komið að kynningunni á einhvern hátt.

Heimsókn í Japan Foundation

14. nóvember 2002

Japan Foundation var heimsótt af fulltrúa Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur og tóku á móti gestunum Hiroaki Fujii framkvæmdastjóri sjóðsins, Yoshihito Otsuka, yfirmaður stofnunar japanskra fræða og Eiji Taguchi svæðisstjóri.

Vigdís bar Hiroaki Fujii kveðju Páls Skúlasonar háskólarektors, en hann hafði heimsótt Japan Foundation skömmu áður. Fujii skýrði frá að sjóðurinn hafi verið settur á laggirnar 1972 til að efla menningarsamskipti Japana við aðrar þjóðir með því markmiði að stuðla að friði og velferð í heiminum. Japanska ríkið er meginstyrktaraðili sjóðsins, en auk þess kemur fjárstyrkur frá ýmsum einkaaðilum og fyrirtækjum. Starfsemi Japan Foundation nær til 180 landa og rekur hann 19 skrifstofur erlendis, þar á meðal í París, London og Búdapest en engar á Norðurlöndum. Þrátt fyrir háleit markmið sjóðsins stendur fjárskortur starfseminni fyrir þrifum.

Vigdís sagði frá Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur og tilgangi Japansheimsóknarinnar við góðar undirtektir  og var lengi rætt um menningu og tungumál. Fram kom að borist hefðu tvær umsóknir um starf japönskukennara við Háskóla Íslands.Japönskukennslan yrði liður í B.A.-námi og opin nemendum einnig úr öðrum deildum en heimspekideild. Ráðgert sé eins árs nám í japönsku máli og japanskri menningu, en kjósi nemendur að leggja stund á frekara nám í japönsku verði þeir að fara utan. Því sé brýnt að ná samstarfssamningum við japanska háskóla.

Hiroaki Fujii benti á að mikilvægt sé að Háskóli Íslands sendi nú umsókn um styrk fyrir haustmisseri 2003. Styrkir verði veittir í byrjun nýs fjárlagaárs sem hefst í apríl. Hann gat engu lofað um styrkveitingu en taldi ástæðu til bjartsýni. Háskóli Íslands leggur mikla áherslu á að ráða japönskukennara til lengri tíma en á vormisseri 2003 gæti orðið um tímabundna ráðningu. Fujii hvatti Háskóla Íslands til að leitar samstarfs við háskólana Waseda og Tokai varðandi ráðningu kennara.  

Þegar rætt var um mikilvægi tungumála almennt og viðskipta milli Íslands og Japans var lögð áhersla á nauðsyn þess að menningartengsl fylgi í kjölfarið. Fram kom að japönskukennsla fyrir börn er mikilvæg þeim vaxandi fjölda Japana sem búsettir eru á Íslandi. Þá gat Fujii þess að sjóðurinn hafði styrkt íslensku kvikmyndahátíðina sem haldin var í tengslum við opnun Sendiráðs Íslands í Japan haustið 2001.

Heimsókn í Saitamafylki

14. nóvember 2002

Saitama er stórt fylki norður af Tokyo með 7 milljónir íbúa. Fylkisstjórinn, Yoshihiko Tsuchiya, hefur vakið athygli á jafnréttismálum og lagt kapp á að alþjóðavæða Saitamafylki. Fulltrúum Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur og íslenska sendiherranum voru sýndar ýmsar framkvæmdir og heimsótt skrifstofa fylkisstjórans.

Formleg og virðuleg móttaka var haldin á skrifstofu fylkisstjórans. Þar voru fréttamenn sjónvarps og dagblaða til að greina frá heimsókninni. Fjölmiðlar fengu afhent kynningarefni Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur.

Um kvöldið var fulltrúum stofnunarinnar og sendiherra ásamt ýmsum framámönnum fylkisins boðið í kvöldverð hjá þingkonunni Shinako Tschucyia. Kynningarefni lá frammi í anddyri og sýndu gestirnir því mikinn áhuga.

Heimsókn í Gakushuinháskóla

15. nóvember 2002

Gakusuinháskóli var stofnaður árið 1847 og nýtur mikillar virðingar, meðal annars vegna tengsla hans við keisarafjölskylduna. Háskólinn er staðsettur miðsvæðis í Tokyo og fjöldi nemenda er um 9000. Árið 1991 var Vigdís Finnbogadóttir sæmd heiðursdoktorsnafnbót við Gakushuinháskólanum. Fulltrúar Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur áttu fund með rektor Gakushuinháskólans. Viðstaddir voru, auk fulltrúa stofnunarinnar:

 • Yoshiaki Nagata, prófessor og rektor (félagssálfræðiskor)
 • Makoto Hayasaka prófessor, Foreign Language Education and Research Center (enskuskor)
 • Mabuchi Masaya Foreign prófessor, Language Education and Research Center (hugmyndasögudeild)
 • Tadao Shimomiya prófessor, Faculty of Literature, German literature (fræðasvið: þýska og samanburðarmálvísindi)

Yoshiaki Nagata, prófessor og rektor Gakushuinháskóla, bauð fulltrúum Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur velkomna. Hann minntist fyrri heimsóknar Vigdísar Finnbogadóttur þegar hún var sæmd heiðursdoktorsnafnbót við háskólann.

Vigdís kynnti stofnunina og gerði grein fyrir tilgangi kynningarinnar í Japan. Forstöðumaður Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur skýrði frá dagskrárliðum kynningarinnar, einkum þeim sem varða samskipti við japanska háskóla. Greint var frá áformum um að hefja japönskukennslu við Háskóla Íslands. Forstöðumaður rakti ástæður þess að samstarfs sé leitað við Gakushuinháskólann og hvers konar samstarf Stofnun Vigdísar Finnbogadóttir hafi í huga varðandi tungumálakennslu og tungumálarannsóknir. Rektor tók undir hugmyndir um samstarf, til dæmis nemenda- og kennaraskipti og hvatti HÍ til að hafa samband við yfirmann alþjóðaskrifstofu Gakushuinháskóla.

Fulltrúar Gakushuinháskóla sýndu japönskukennslu við Háskóla Íslands mikinn áhuga og lék þeim hugur á að vita hvers vegna japanska hafi orðið fyrir valinu sem fyrsta Asíumál en ekki til dæmis kínverska. Þá höfðu þeir áhuga á upplýsingum um tengsl Íslands og Japans. Rætt var um áhrif ensku á íslenskt mál og störf Vigdísar sem velgjörðarsendiherra tungumála. Tadao Shimomiya prófessor hyggst heimsækja Ísland í ágúst byrjun 2003.

40 ára afmæli Ichikawa Fusae samtakanna

15. nóvember 2002

Vigdís Finnbogadóttir flutti ávarp við opnun afmælisdagskrárinnar, en fjöldi kvenna víðs vegar af landinu tóku þátt í henni.  

Fundur með varaborgarstjóra og þingforseta Kyotoborgar

15. nóvember 2002

Á fundi með varaborgarstjóra og þingforseta Kyotoborgar voru, auk fulltrúa Stofnunar Vigdísr Finnbogadóttur, eftirfarandi viðstaddir:

 • Jyoichi Takagi, varaborgarstjóri Kyoto,
 • Toshiko Isobe, þingforseti Kyoto,
 • Sosho Yamada munkur,
 • Tsutomu Yamashita,
 • Mio Yamashita og
 • Einar Már Guðvarðarson.

Vigdís kynnti Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur og skýrði frá tilgangi kynningarinnar í Japan. Hún sagði frá fyrirhugaðri japönskukennslu við Háskóla Íslands og að háskólanum væri mikið í mun að efla tengsl við japanska háskóla.

Jyoichi Takagi varaborgarstjóri greindi frá því að á vegum Kyotoborgar væri starfræktur háskóli sem byði upp á japönskukennslu fyrir útlendinga. Hvatti hann Háskóla Íslands til þess að hafa samband við sig og bauðst hann til að koma erindi háskólans til réttra aðila. Tsutomu Yamashita bauðst til að vera milligöngumaður SVF og formanns landssamtaka japanskra málvísindamanna.

Þakkir fyrir stuðning

Sendiráð Íslands í Tokyo veitti Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur ómetanlega aðstoð við undirbúning og framkvæmd kynningarinnar. Auk margháttaðrar skipulagsvinnu sendiráðsins aðstoðaði Akiko Hasegawa við túlkun og sendiráðsbíllinn var ávallt til reiðu. Sendiherrahjónin sýndu mikla gestrisni og sendiherrann fylgdi frú Vigdísi við nánast alla dagskrárliði kynningarinnar. Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum vill koma á framfæri þakklæti til stjórnvalda fyrir þetta dýrmæta liðsinni.

Þá vill stofnunin þakka Minoru Okazaki, fyrsta sendiráðsritara í Sendiráði Japans á Íslandi og Dr. Eyþóri Eyjólfssyni, aðalræðismanni Íslands í Japan, fyrir margháttaða aðstoð að ógleymdri Kristínu Ingvarsdóttur doktorsnema, m.a. fyrir túlkun.  

Með kynningunni var náð til fjölda japanskra áhrifamanna í mennta- og menningarmálum auk þingmanna sem áhrif geta haft á tengsl Íslands og Japans. Vonast er til að þessi tengsl leiði til samstarfs um rannsóknir- og þróunarverkefni á fræðasviðum Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is