LEXIA - Rafræn orðabók milli íslensku og frönsku

                                  

Á undanförnum árum hefur Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur beitt sér fyrir því að hafin verði vinna við gerð nýrrar íslensk-franskrar orðabókar og þannig bætt úr brýnni þörf, en íslensk-frönsk orðabók kom síðast út árið 1950. Mál þetta á sér nokkurn aðdraganda, sem rekja má til samkomulags um menningar- og vísindasamvinnu milli Íslands og Frakklands sem undirritað var í París 12. apríl 1983 í kjölfar fundar Vigdísar Finnbogadóttur og François Mitterrand, þáverandi forseta Íslands og Frakklands. Í fyrstu grein samkomulagsins er gert ráð fyrir að samningsaðilar hafi „nána samvinnu um að efla þekkingu hvor á annars tungu og menningu í landi sínu“. Í kjölfarið var gefin út hjá Erni og Örlygi árið 1995 Frönsk-íslensk orðabók þar sem frönsk stjórnvöld lögðu til orðagrunn orðabókarinnar Micro Robert og íslensk stjórnvöld stóðu straum af kostnaði við samanburðarvinnuna á milli frönsku og íslensku. Mikið hefur áunnist í þessu máli og nú fer að hilla undir að ný íslensk-frönsk orðabók líti dagsins ljós. 

Í maímánuði 2015 hlaut Stofnun Vigdís Finnbogadóttur 40.000 evra styrk frá stjórnvöldum í Frakklandi til gerðar rafrænnar orðabókar milli íslensku og frönsku, en Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra hafði átt fund með stjórnvöldum um málið á ferð sinni til Frakklands í lok árs 2014. Það var Délégation générale de la langue française et des langues de France og Le Centre National du Livre sem veittu styrkinn í sameiningu. Fyrri stofnunin heyrir undir franska menningarmálaráðuneytið og hefur til umsjónar franska tungu og þau tungumál sem töluð eru í Frakklandi og sú síðari er miðstöð franskra bókmennta. Upphæð styrksins er 120.000 evrur.

Þá hlaut Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur og samstarfshópur um íslensk-franska orðabók við Háskóla Íslands Erasmus+ styrk fyrir samstarfsverkefni á háskólastigi. Auk SVF eru aðilar að samstarfsverkefninu Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Université Paris-Sorbonne IV í Frakklandi og Gautaborgarháskóli í Svíþjóð. Fulltrúar Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í verkefninu eru Ásdís R. Magnúsdóttir, prófessor í frönsku, Rósa Elín Davíðsdóttir, doktorsnemi í orðfræði við námsleið í frönskum fræðum og Sorbonne-háskóla, Erla Erlendsdóttir, dósent í spænsku, og Oddný G. Sverrisdóttir, prófessor í þýsku. Fulltrúar Stofnunar Árna Magnússonar eru Halldóra Jónsdóttir, verkefnisstjóri ISLEX, og Þórdís Úlfarsdóttir, aðalritstjóri og kerfisstjóri ISLEX. Fulltrúi Sorbonne-háskóla er Karl Gadelii, prófessor í málvísindum við deild norrænna tungumála og menningar, en fulltrúi Gautaborgarháskóla er Anna Helga Hannesdóttir, lektor í sænsku, sem gegna mun sérstöku ráðgjafarhlutverki í verkefninu. Styrkurinn nemur 152.000 evra og er veittur til þriggja ára. Honum er ætlað að standa straum af kostnaði við fundi samstarfsaðila, og mæta hluta launakostnaðar við orðabókarvinnuna. Loks er honum ætlað að byggja upp námskeið á meistarastigi um orðabókarfræði við Háskóla Íslands og norrænudeild Sorbonne-háskóla í París. Veg og vanda af umsókninni um Erasmus+ styrkinn hafði Guðrún Kristinsdóttir verkefnisstjóri SVF og er hún jafnframt verkefnisstjóri þessa hluta orðabókarverkefnisins.

Í tilefni af opinberri heimsókn François Hollande Frakklandsforseta til Íslands föstudaginn 16. október 2015 hét Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra því að leggja fram mótframlag frá íslenskum stjórnvöldum til að fjármagna orðabókarverkefnið að fullu. Áætlað er að ljúka verkefninu á þremur árum.

Verkefnisstjórn hefur verið skipuð og vinna við orðabókina hófst á haustdögum. Verkefnisstjóri franska hluta orðabókarinnar er Rósa Elín Davíðsdóttir, doktorsnemi í orðfræði, og þýðandi er Jean-Christophe Salaün auk þess sem François Heenen, aðjunkt í frönsku, og Hallfríður Helgadóttir, aðjunkt í íslensku við Gautaborgarháskóla, munu koma að verkefninu. Ásdís R. Magnúsdóttir prófessor hefur umsjón með franska hluta verkefnisins. Verkefnisstjórn og umsjón með íslenska hluta verkefnisins er í höndum Halldóru Jónsdóttur, verkefnisstjóra ISLEX, og Þórdísar Úlfarsdóttur, aðalritstjóra og kerfisstjóra ISLEX. Sem fyrr segir er verkstjórn með Erasmus+ verkefninu í höndum Guðrún Kristinsdóttur, en fyrsti vinnufundur netsins var haldinn í Reykjavík 8. og 9. október 2015.

 

 

Frá vinstri: Halldóra Jónsdóttir, verkefnisstjóri ISLEX, Ásdís R. Magnúsdóttir, prófessor í frönsku, Þórdís Úlfarsdóttir, aðalritstjóri ISLEX, Karl Gadelii, prófessor í málvísindum, Rósa Elín Davíðsdóttir, doktorsnemi í orðfræði og verkefnisstjóri íslensk-franskrar orðabókar, Jean-Christophe Salaün þýðandi, Anna Helga Hannesdóttir, lektor í sænsku við Gautaborgarháskóla, Magnús Sigurðsson, aðjunkt í þýsku, Erla Erlendsdóttir, dósent í spænsku, og Guðrún Kristinsdóttir, verkefnisstjóri SVF.

                 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is