Litháen - samspil sögu, þjóðtrúar og tungumáls

Litháen - samspil sögu, þjóðtrúar og tungumáls

Erindi flutt á litháískri menningardagskrá 7. Mars 2009

Þorsteinn Eggertsson, rithöfundur og söngtextasmiður

Þegar ég var krakki vöktu leyndardómsfullu þjóðirnar þrjár sem búa austan við Eystrasalt mikla forvitni mína og mig langaði að vita svolítið um þær. Og því meira sem ég fræddist um þær, því gagnteknari varð ég af einni þeirra; Litháum.

Mig langar að segja ykkur svolítið frá þessari þjóð sem virðist hafa komið austan úr Asíu fyrir um það bil fjögur þúsund árum, var kölluð Baltar og settist að við Eystrasalt. Baltar, eða Litháar eins og þeir eru kallaðir í dag, héldu ekki aðeins hópinn heldur tóku þeir með sér trúarbrögð sem ættuð eru alla leið frá Indlandi. Þeir tala, enn þann dag í dag, elsta lifandi indó-evrópska tungumálið sem talað er í Evrópu. Málið er reyndar elsta indóevrópska tungumál heimsins, eldra en td. íranska, latína og gríska. Ekkert mál líkist sanskrít eins mikið, en eins og margir vita var sanskrít upphafstunga allra indó-evrópskra tungumála en er nú löngu útdautt. En getur það verið að litháíska sé eldri en íslenska? Margir eiga nú ansi erfitt með að trúa því, en ég kem betur að því á eftir.

Fyrst langar mig að koma með örstutt dæmi sem sýnir hvað litháískan er lík sanskrít. Á sanskrít er setnigin „Guð gaf tennur” svona: „Devas adat datas” en „Dievas dave dantis” á litháísku. Þið takið kannski eftir því að tennur á litháísku eru dantis; nauðalíkt enska orðinu dentist sem þýðir tannlæknir.

Eins og margir vita, skiptast indó-evrópsku tungumálin í margar fjölskyldur, svosem indó-íranska, gríska, rómanska, slavneska, keltneska, germanska – og baltneska. Reyndar eru þessar fjölskyldur tíu til tólf talsins og sumar í Asíu, en í þeirri yngstu eru germönsku málin, eins og til dæmis þýska, hollenska, flæmska, enska, danska, sænska, norska, færeyska og íslenska. Af þessum tiltölulega ungu málum er íslenskan reyndar talin vera elst. En baltnesku málin, sem eru aðeins tvö; lettneska og litháíska, eru ekkert skyld slavneskum eða germönskum málum, hvað þá finnsku og eistnesku – en þau mál eru ekki einu sinni indó-evrópsk. Lettneskan er ekki talin eins hreinræktuð og litháískan enda var Lettland aldrei stórveldi. En tungumálin eru náskyld.

Nú kem ég með annað stutt dæmi. Litháíska orðið „taip” þýðir „já.” - Taip. Í slavnesku málunum, svosem rússnesku og pólsku, hefur taip orðið að „da” en „ja” í germönskum málum eins og þýsku, norsku og hollensku. Í keltneskum málum er „taip” orðið að „aye” á skosku en „oui” á bretónsku. Á ensku hefur orðið „aye” þróast yfir í „yeai” og „yes” en Frakkar nota ennþá bretónska orðið „oui” þegar þeir segja já – eða taip.

Það sem hefur haldið tungumáli Litháa lifandi svo lengi, sem raun ber vitni, er sú staðreynd að þeir hafa haldið gömlum heitum á allskyns fyrirbærum og ekki tekið upp mikið af kristnum hugtökum. Á meðan við Íslendingar notumst við latnesk mánaðanöfn, svo að dæmi sé tekið, nota Litháar ennþá ævaforn mánaðanöfn sem sum eru kennd við fugla, gyðjur og goð. Til dæmis er nafnið á þessum mánuði, sem við köllum mars eftir rómverskum stríðsguði, kovas á litháísku en það þýðir einnig bláhrafn. Einn af minniháttar stríðsguðum Litháa, birtist gjarnan í liki bláhrafns og heitir því einnig kovas.

Enginn veit hvers vegna þessi þjóðflokkur hélt vestur á bóginn fyrir næstum 40 öldum eða svo – en fólkið tók með sér ýmis andleg verðmæti, ss. trúna á guðinn Dievas sem hét víst Deiuos á sanskrít og síðar Zeus meðal fornra Grikkja, Deus meðal Rómverja, löngu síðar Tiwas meðal germanskra þjóða og endaði sem Týr meðal norrænna víkinga.

En litháíski guðinn Dievas var guð himinsins, allra guða elstur og var lýst sem luralegum karli með hattkúf og mikið skegg. Hann var venjulega klæddur silfurlituðum frakka. En meðal annarra guða var Perkúnas; þrumuguðinn sem var sterkur, eldrauður í framan en svartskeggjaður og ók um himinin í vagni sem tveim geithöfrum var beitt fyrir. Gríska nafnið Forkys er skylt nafni hans en á Norðurlöndum varð hann að tveim fyrirbærum. Annað var kallað Fjörgyn en hitt var guðinn Þór. Jæja, en Perkunas var kvensamur og var meðal annars með sólgyðjunni sem hét Saule. Og hann móðgaði mánaguðinn, Menuo svo heiftarlega að hann hét því að láta aldrei sjá sig á himninum fyrr en eftir rökkur. Og meðal annarra í guðahópnum var Lada – sjálf landgyðjan. Gamla íslenska orðið láð er skylt nafni hennar og margir kannast eflaust við sovéska bílategund sem hét einmitt Lada.

Þessa guði og fjölda annarra trúðu Litháar á og sumir gera það enn þann dag í dag. Þessi forna trú var svo sterk meðal litháísku þjóðarinnar að hún varð sú síðasta í Evrópu sem tók kristni og varð ekki kristin að ráði fyrr en á fimmtándu öld.
Á miðöldum var Litháen stórveldi sem náði frá Eystrasalti, yfir mikinn hluta Hvíta Rússlands, Rússlands, Póllands, Úkraínu og alla leið suður að Svartahafi. Það náði því yfir stærsta landflæmi Evrópu á sínum tíma.

Sá sem lagði grunninn að stórveldinu var náungi sem hét Mindaugas, en talið er að hann hafi fæðst um árið 1200. Hann hefur því verið samtímamaður Snorra Sturlusonar. Ekki er mikið vitað um æskuár hans, en hann var fyrsti og eini konungur landsins. Á þeim tíma voru allir konungar Evrópu krýndir af páfanum, en þar sem Mindaugas var heiðingi varð hann að taka kristna trú til að geta orðið kóngur. Hann hafði verið leiðtogi Litháa síðan 1236 en var gert að skírast til kristinnar trúar. Páfinn tók ekki annað í mál. Mindaugas lét tilleiðast árið 1253 og var krýndur kóngur í kjölfarið. En hann krafðist þess ekki af þegnum sínum, sem voru um 400 000 talsins, að þeir gerðust kristnir, enda hefur því verið haldið fram að hann hafi aðeins verið kristin að nafninu til. Hann átti í útistöðum við bæði tatara og ýmsa aðra og var líflátinn árið 1263. Eftirmenn hans kölluðust stórhertogar, enda voru þeir heiðnir og höfðu ekki áhuga á að láta páfa setja á sig kórónu.

Landið liðaðist smám saman í sundur, en þá kom kappin Gediminas, sameinaði það aftur og gerði Vilnius að höfuðborg ríkisins. Hann hrakti tatara, tútóna og aðra ribbalda úr ríki sínu og fór í landvinningaleiðangra suður með ánum Dvínu og Dnépur. Einn af sonum hans, stórhertoginn Algirdas, færði svo rækilega út kvíarnar að landið hefur aldrei verið stærra, fyrr eða síðar og náði alla leið að Svartahafinu. Það var stærra að flatarmáli en Danmörk, Holland, Belgía, Lúxembúrg, Frakkland, Þýskaland, Sviss og Austurrríki – til samans. Talið er að hvíti riddarinn á skjaldarmerki Litháens sé einmitt sonur Algirdas, stórhertoginn Jogaila, enda notaði hann svipað skjaldarmerki laust fyrir árið 1390. Merkið er greinilega frá riddaratímanum og sýnir hvítan riddara á hvítum, prjónandi gæðingi. Riddarinn heldur á sverði í hægri hendi en skildi í þeirri vinstri. Bakgrunnurinn er rauður. En þótt nýja skajaldarmerkið sé frá árinu 1991, er frumgerð þess rúmlega sex öldum eldri og er því í grunninn meðal elstu skjaldarmerkja Evrópu. Jogaila átti í útistöðum við Vytautas mikla, en hann var enn einn stórhertoginn. Vytautas þessi gat verið fjandanum grimmari og álíka ófyrirleitinn og Egill okkar Skallagrímsson. En nú er ég kominn út á hálan ís; pólitíska sögu Litháens sem fór þannig, í einum kaflanum, að Jogaila stórhertogi kvæntist pólskri prinsessu til að sameina Litháen og Pólland. Það fór síðan þannig að Pólverjar náðu undirtökunum. Það var þó ekki fyrr en á sautjándu öld en í lok átjándu aldar slitu þeir síðan samvistum við Litháa og sölsuðu undir sig megnið af landi þeirra. Reyndar eru til gömul landakort af Evrópu þar sem Litháen er ekki haft með, en árið 1918 varð ríkið sjálfstætt á nýjan leik en varð svo innlimað í Sovétríkin að lokinni síðari heimstyrjöldinni.

Þá vaknar kannski aftur þessi spurning: Hvernig gátu Litháar viðhaldið tungumáli sínu eftir ýmsa hrakninga, að ekki sé nú talað um nábýlið við Rússa? Sovétstjórnin vildi að rússneska yrði gerð að opinberu tungumáli í Litháen og auk þess flutti helingur af Rússum inn í landið. En – kannski eru Litháar með afbrigðum þrjósk þjóð. Kennarar, foreldrar og leiðbeinendur af ýmsu tagi tók til sinna ráða. Börnum var kennt á laun. Í hverjum bæ og þorpi í landinu hlaut einhversstaðar að vera til kjallari eða þokkalega innréttað háaloft. Þangað var börnum smalað á laun, tvö til þrjú kvöld í viku og þar var þeim kennt að viðhalda móðurmáli sínu. Í sumum tilfellum voru litlar skriftartöflur og krítarmolar geymdar á felustöðunum en í öðrum tilvikum komu krakkarnir sjálfir með töflurnar innanklæða. Þetta var spennandi leikur og jafnvel mestu námsskussar voru áhugasamir um lærdóminn. Það getur nefnilega verið þrælspennandi að fást við eitthvað sem er bannað.

En – þegar fjölmargir Litháar sáu hvert stefndi við lok seinni heimstyrjadarinnar flúðu margir þeirra land. Sumir þeirra náðu heimsfrægð á ýmsum sviðum svosem söngvarinn Al Jolson, Hollywoodleikararnir Waltar Matthau og Charles Bronson, grínistinn Jack Benny og breski leikarinn Sir John Gielgud. Umboðsmaður Bítlanna, Brian Epstein, var upphaflega Lithái og ameríska kvenréttindakonan Emma Goldman. Einn af virtustu myndlistarmönnum Bandaríkjanna, Ben Shan, fæddist í Kaunas í Litháen og hét upphaflega Benjamin Shahan. Og svo má ekki gleyma einum af ástsælustu sonum Litháens, fiðluleikaranum Jascha Heifetz en hann fæddist og ólst upp í Vilnius. Margir telja hann reyndar vera einn mesta fiðlusnilling allra tíma. Ameríska tónskáldið Aaron Copland var einnig Lithái. Og stúlkan Monica Lewinsky var litháísk, ef einhver man eftir henni.

Jæja. Nú hef ég stiklað á stóru um ýmislegt sem ég veit um þjóðina sem býr í Litháen. Reyndar hef ég lítið sagt ykkur frá ýmsu í þjóðtrúnni, svosem heimilisálfum, skógarpúkum og öðru í þeim dúr. En það segir kannski sína sögu um nútíma-Litháa, að þegar Sovétríkin liðu undir lok, voru forljótar, sovéskar byggingar jafnaðar við jörðu út um allt Litháen. Hins vegar var farið með myndastyttur af þeim Lenin og Stalin út í skógana. Þar eru þær faldar í dag og eru í umsjá forhertra skógarpúka - sem kalla ekki allt ömmu sína.

Ég þakka áheyrnina,
Þorsteinn Eggertsson

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is