Markaðs- og rekstrarstjóri – Háskóli Íslands, Vigdísarstofnun – Reykjavík – 201703/465
Vigdísarstofnun – alþjóðleg miðstöð tungumála og menningar og
Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum – Háskóli Íslands.
Laust er til umsóknar starf markaðs- og rekstrarstjóra við Vigdísarstofnun – alþjóðlega miðstöð tungumála og menningar og Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum . Markaðs- og rekstrarstjórinn mun sinna verkefnum fyrir báðar þessar stofnanir.
Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur er rannsóknastofnun á Hugsvísindasviði Háskóla Íslands og rannsóknavettvangur starfsmanna í Mála- og menningardeild. Vigdísarstofnun – alþjóðleg miðstöð tungumála og menningar er ný alþjóðleg stofnun, sem mun taka til starfa 20. apríl nk. undir merkjum UNESCO – menningar-, mennta- og vísindastofnunar Sameinuðu þjóðanna, skv. sérstökum samningi . Starfsemi stofnananna tveggja taka mið af því mikilvægi sem tungumál hafa á öllum sviðum mannlífs og þjóðlífs og af þeirri sannfæringu að kunnátta í erlendum tungumálum og þekking á menningu annarra þjóða sé dýrmæt fyrir einstaklinga, fyrirtæki og þjóðfélagið í heild. Auk þess gegna þýðingar mikilvægu hlutverki í starfseminni. Verkefni stofnananna felast í að rannsaka erlend tungumál og menningu frá fjölmörgum sjónarhornum m.a. menningar, bókmennta og þýðinga auk kennslu, samskipta og notagildis tungumála í atvinnulífi. Áhersla er lögð á að miðla þekkingu á framangreindum fræðasviðum með fyrirlestrahaldi, málþingum, ráðstefnum og útgáfu fræðirita og með sýningum og menningarviðburðum fyrir leika og lærða.
Helstu verkefni markaðs- og rekstrarstjóra:
- Umsjón með daglegum rekstri og bókhaldi stofnananna.
- Stefnumótun, áætlanagerð og skipulagning rekstrar í samvinnu við forstöðumenn og stjórnir.
- Vinna að markaðsmálum í samvinnu við viðburða- og kynningarstjóra og forstöðumenn.
- Vinna að umsóknum í innlenda og erlenda sjóði.
-
Skipulagning og vinna við fjáröflun og önnur tilfallandi verkefni.
Hæfniskröfur:
- Umsækjendur skulu hafa háskólapróf sem nýtist í starfi.
- Menntun og reynsla á sviði rekstrar og markaðsmála er nauðsynleg.
- Viðkomandi þarf að hafa afar góð tök á íslensku og ensku í ræðu og riti.
- Reynsla af umsóknum í alþjóðlega sjóði er æskileg.
- Reynsla af alþjóðasamstarfi er æskileg.
- Leitað er af einstaklingi sem er lipur í mannlegum samskiptum, hefur frumkvæði og sem getur unnið sjálfstætt.
Um er að ræða ögrandi og lifandi starf í hvetjandi umhverfi.
Laun eru samkvæmt kjarasamningi fjármálaráðherra og hlutaðeigandi stéttarfélags.
Umsóknarfrestur er til 20. mars og er æskilegt að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst.
Umsókn skal send rafrænt inn á www.hi.is/laus_storf. Öllum umsóknum verður svarað og umsækjendum tilkynnt um ráðstöfun starfsins þegar ákvörðun hefur verið tekin. Umsóknir geta gilt í sex mánuði frá lokum umsóknarfrests.
Við ráðningu í störf við Háskóla Íslands er tekið mið af jafnréttisáætlun háskólans.
Nánari upplýsingar um starfið veitir Auður Hauksdóttir, forstöðumaður Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í síma 525 4209, netfang: auhau@hi.is
Skipurit fyrir Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og Vigdísarstofnun – alþjóðlega miðstöð tungumála og menningar.