Markmið tungumálamiðstöðvar

Markmiðið er að koma á fót glæsilegri alþjóðlegri miðstöð um tungumál og menningu með fullkominni aðstöðu til kennslu og rannsókna og til að miðla þekkingu um tungumál og menningu.

Með því að setja á laggirnar Alþjóðlega tungumálamiðstöð á Íslandi vill Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur stuðla að aukinni tungumálakunnáttu og menningarlæsi á Íslandi og vekja athygli á heimsvísu á gildi slíkrar menntunar. Jafnframt vill stofnunin auka þekkingu á tungumálum og vekja unga sem aldna til vitundar um veigamikið hlutverk þeirra fyrir menningu einstakra málsvæða, sem og fyrir heimsmenninguna.

Í samvinnu við innlendar og erlendar rannsóknastofnanir, vísindamenn og alla þá sem láta sig tungumál varða vill stofnunin leggja sinn skerf til eflingar og viðgangs tungumála og þeirrar menningar sem þeim tengist. Þá vill stofnunin styðja við og halda áfram því brautryðjandastarfi sem Vigdís Finnbogadóttir hefur beitt sér fyrir á alþjóðavettvangi sem velgjörðarsendiherra tungumála heims hjá Menningarstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO). Síðast en ekki síst er tilgangurinn að heiðra framlag Vigdísar til tungumála, bæði móðurmálsins og erlendra mála, jafnt heima sem heiman.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is