Frakkland (2014)

Fulltrúar Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur héldu til Frakklands í annað sinn til að kynna alþjóðlega tungumálamiðstöð Vigdísarstofnunar og afla verkefninu liðsauka. Verkefnið var kynnt almennt m.t.t. samkomulagsins við UNESCO og hlutverka og markmiða Vigdísarstofnunar. Fjárhagsstaða verkefnisins var kynnt í heild sinni og, þegar við átti, verkefnið um rafræna orðabók milli frönsku og íslensku.

Sendiráð Íslands í París hafði veg og vanda af skipulagningu dagskrárinnar. Dagskráin var byggð í kringum fund og kvöldverð með Eric de Rothschild, auðkýfingi og vínframleiðanda. Baróninn veitir forstöðu samtökum sem vinna að varðveislu minningu þeirra Gyðinga er fórust í Helferðinni í síðari heimsstyrjöldinni. Honum er annt um varðveislu bréfa sem rituð voru á Judendeutsch og fáir skildu nema Rothschild-frændurnir. Það verkefni er nú í höfn. Hann styrkir einnig frumkvöðlastarfsemi sem fer fram í úthverfum franskra stórborga. Sendiráðið kynntist Eric de Rothschild í gegnum sýninguna En Thule Froiduleuse sem haldin var í lok árs 2013 í listastofnunni FNAGP (Fondation Nationale des Arts Graphiques et Plastiques) sem Eric de Rothschild styrkir. Æsa Sigurjónsdóttir var sýningarstjóri. Í kjölfar sýningarinnar kom Eric de Rothschild að máli við Berglindi Ásgeirsdóttur sendiherra og sýndi áformum um Vigdísarstofnun mikinn áhuga.

Í för með Vigdísi Finnbogadóttur voru Torfi H. Tulinius, prófessor í íslenskum miðaldafræðum, og Guðrún Kristinsdóttir, verkefnisstjóri Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur.

17. febrúar 2014 – Fundur og kvöldverður í sendiherrabústaðnum í París

Fundur með Eric de Rothschild

Reiknað hafði verið með klukkutíma fundi með Eric de Rothschild til að segja honum frá alþjóðlegu tungumálamiðstöðinni og biðja hann um að styrkja hana með öllum ráðum. Baróninn kom hins vegar 40 mínútum of seint og ráðherra franskrar tungu mætti snemma þar sem hún þurfti að fara á þingið stuttu síðar. Þessi tímaþröng hafði þær afleiðingar að það þurfti að fara töluvert (og of) hratt yfir sögu. Þrátt fyrir það lofaði baróninn að styrkja húsbygginguna að einhverju marki, og tala máli verkefnisins við Jacob de Rothschild, frænda sinn, sem gæti haft meira um verkefnið að segja.

Kvöldverðarboð

Í kvöldverðarboðinu voru eftirfarandi gestir:
•    Yamina Benguigui, Ministre de la Francophonie. Hún gat einungis verið í fordrykknum.
•    Michel Zink og frú, aðalritari Académie des inscriptions et des belles lettres sem er ein af fimm stofnunum Académie française.
•    Xavier North, Délégué général à la langue française et aux langues de France, þ.e. forstöðumaður stofnunar sem heyrir undir menntamálaráðuneytið og sér um varðveislu franskrar tungu.
•    Eric de Rothschild.
•    Íslendingar í kvöldverði: Vigdís Finnbogadóttir, Torfi H. Tulinius, Guðrún Kristinsdóttir, Berglind Ásgeirsdóttir, Finnbogi Jónsson, Æsa Sigurjónsdóttir listfræðingur og Nína Björk Jónsdóttir, sendiráðunautur í íslenska sendiráðinu í París.

Í fordrykknum hélt sendiherra tölu þar sem hún bauð gesti velkomna og að því búnu hélt Vigdís Finnbogadóttir ræðu um mikilvægi tungumála. Yamina Benguigui, ráðherra franskrar tungu, var mjög snortin yfir orðum Vigdísar um mikilvægi tungumála sem minningarbrunn menningar. Hún sagði að allar þær kvikmyndir sem hún hefði gert fjölluðu um endurminningar og miðlun menningar. Hún rómaði mjög áform um Vigdísarstofnun.

Undir kvöldverðinum fullyrti Xavier North að stofnun hans myndi koma að fjármögnun íslensk-frönsku orðabókarinnar.

Þegar kvöldverðinum var lokið kom Eric de Rothschild að máli við Vigdísi Finnbogadóttur til að leita nánari fregna af undirbúningi Vigdísarstofnunar og gefa góð ráð í því sambandi. Miklu skiptir að vanda vel til verka við eftirfylgni eftir þennan fund.

18. febrúar 2014 - Fundir

Claude Chirac

Claude Chirac er dóttir Jacques Chirac, fyrrverandi forseta Frakklands, og var kynningarstjóri embættisins í forsetatíð hans. Hún veitir nú forstöðu Fondation Chirac.

Claude Chirac lýsti yfir stuðningi við Vigdísarstofnun og fullyrti að stofnunin gæti treyst á samstarf og velvilja Fondation Chirac. Fondation Chirac mun verða með í Tungumálasafninu og hugsanlega styðja fjárhagslega þann hluta sýningarinnar er snýr að Afríkumálum. Hún sagði að Jacques Chirac myndi gjarna vilja hitta Vigdísi næst þegar hún kemur til Parísar.

Varðandi bygginguna, ætlar hún að hugsa málið í nokkra daga og athuga hvaða fólki hægt væri að safna saman til að styðja fjárhagslega við bygginguna. Hún minnti á að mesta lausafé í heiminum væri nú að finna í Arabalöndunum og í Kína.

Hélène Carrère d'Encausse

Hélène Carrère d'Encausse er forstöðumaður l'Académie française (Secrétaire perpétuel). Hún er prófessor í sagnfræði, sérhæfð í sögu Rússlands.

Hélène Carrère d'Encausse sagði að Académie française væri mjög umhugað um að styðja við öll tungumál, ekki bara frönskuna, eins og oft er haldið. Hún fagnaði því að Vigdísarstofnun væri að verða til og sagði hlutverk hennar afar mikilvægt fyrir allan heiminn. Hún sagði að það væri mjög mikilvægt að tungumálamiðstöðin alþjóðlega væri staðsett á Íslandi en ekki í landi eins og Frakklandi, því það væri hægt að túlka sem pólitískan yfirgang.

Hún sagðist ætla að kynna Vigdísarstofnun formlega fyrir Académie française og mæla með samstarfi í framtíðinni þegar húsið er risið. Acedémie française hefur mikil áhrif í fræðaheiminum og víðar. Hún reiknar með að setja yfirlýsingu á heimasíðu Akademíunnar þar sem komi fram að Akademían styðji Vigdísarstofnun. Það þýðir að Vigdísarstofnun verður með gæðastimpil frá Académie française.

Akademían gefur verðlaun og styrki. Hún myndi taka að sér að fjármagna á þennan hátt dvöl erlendra fræðimanna til að stunda rannsóknir í Vigdísarstofnun, t.d. tvær stöður á ári.

Jacques Myard

Jacques Myard er þingmaður í neðri deild franska þjóðþingsins.

Hann mælti með að Vigdís sendi bréf til Aurélie Filipetti, franska menningarmálaráðherrans. Hann bauðst til þess að færa henni persónulega afrit af þessu bréfi og tala máli stofnunarinnar við ráðherrann.

Að auki mun hann tala máli stofnunarinnar við ýmis félagasamtök áhugafólks um tungumál og fjölbreytileika þeirra, sem hann þekkir til.

Henriette Walter

Henriette Walter er málvísindamaður við École pratique des hautes études við Sorbonne-háskóla.

Henriette Walter er greinilega kennari af guðs náð. Gaman væri að stinga því að franska sendiráðinu að bjóða henni til Íslands á Degi franskrar tungu.

Hún er formaður Société Internationale de Linguistique fonctionnelle, http://www.silf-la-linguistique.org/, sem hefur haldið árlega ráðstefnur í 35 ár út um allan heim, þó aðallega í Evrópu.

Hún er mikil áhugamanneskja um interlingua.

Ferðalangar drógu þann lærdóm af þessari ferð, að vænlegra er að kynna verkefnið og „sá fræjum til samstarfs“, heldur en að biðja beinlínis um fjárframlög. Einnig þyrfti innra starf stofnunarinnar að vera betur skilgreint. Loks er nauðsynlegt að fyrir liggi ítarlegri og nákvæmari lýsing á fyrirhugaðri tungumálamiðstöð ásamt framkvæmdaáætlun og dæmi um afurðir (t.d. sýningar).

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is