Auður Hauksdóttir

Auður Hauksdóttir er prófessor í dönsku og forstöðumaður Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum við Háskóla Íslands.

Auður lauk doktorsnámi frá Kaupmannahafnarháskóla árið 1998, cand.mag.-prófi í dönsku frá sama skóla árið 1987 og BA-prófi í dönsku og heimspeki frá Háskóla Íslands árið 1977.

Rannsóknasvið Auðar er danskt mál, einkum danska sem erlent mál, samanburðarmálvísindi og dönsk menning og tunga á Íslandi í sögu og samtíð.

Auður vinnur að bók um dönskukunnáttu Íslendinga og háskólanám Íslendinga í Danmörku, sem byggist á rannsókn hennar um þetta efni. Hún hefur, ásamt Guðmundi Jónssyni prófessor í sagnfræði, farið fyrir teymi íslenskra og danskra fræðimanna sem hafa unnið að rannsókninni Á mótum danskrar og íslenskrar menningar. Danir á Íslandi 1900-1970, sem hlaut m.a. styrki frá Rannsóknamiðstöð Íslands, Rannsóknasjóði Háskóla Íslands og danska vísindaráðuneytinu. Greinasafn um niðurstöður rannsóknarinnar kemur út í Danmörku á næstunni.

Þá hefur Auður unnið að samanburði á föstum orðatiltækjum í dönsku og íslensku, og þróað máltækið www.frasar.net í samvinnu við Guðrúnu Haraldsdóttur og sænska og danska fræðimenn. Hún leiðir nú norrænt rannsóknar- og þróunarverkefni, sem beinist að tileinkun Færeyinga, Grænlendinga og Íslendinga á dönsku talmáli og þróun hjálpartækis til að þjálfa danskan framburð. Veglegir styrkir hafa fengist til verkefnanna www.frasar.net og Talehjælp i dansk, þeir stærstu frá Nordplus Sprog og Kultur, Norræna menningarsjóðnum og Augustinus Fonden.

Aðsetur: Nýi-Garður, skrifstofa 13, sími 525-4209,

netfang: auhau@hi.is.

Auður Hauksdóttir´s website

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is