Reynsla flóttafólks frá Mið-Austurlöndum af tungumálalandslagi Íslands

Með það að markmiði að skapa vettvang þar sem raddir og reynsla flóttafólks á Íslandi af tungumálum og tungumálaréttindum fær að heyrast, efndi Vigdísarstofnun – alþjóðleg stofnun tungumála og menningar til opinnar málstofu um málefnið í Veröld – húsi Vigdísar þann 28. febrúar. 

Þingið hófst með inngangsorðum Sofiyu Zahova, forstöðumanns Vigdísarstofnunar, en eftir það tók Þórir Jónsson Hraundal, lektor í Mið-Austurlandafræðum við Háskóla Íslands til máls. Fjallaði hann um svæðið sem venjulega er skilgreint sem „Mið-Austurlönd“ og lýsti tungumálafjölbreytileika svæðisins. 

Boðsfyrirlesarar þingsins voru Erna Huld Ibrahimsdóttir og Qusay Odeh, sem bæði hafa langa reynslu af vinnu við túlkun. Í erindum sínum lýstu þau reynslu og fjölmörgum áskorunum flóttafólks frá Mið-Austurlöndum af íslensku tungumálaumhverfi og þeim áskorunum sem mörg þeirra þurfa að takast á við í daglegu lífi. Bentu þau einnig á ýmsar leiðir og aðferðir, byggða á reynslu sinni og annara, sem einstaklingar, stofnanir og fyrirtæki geta beitt til að bæta ástandið og auðvelda samskipti milli ólíkra menningarhópa. Lögðu þau sérstaka áherslu á að um afar fjölbreyttan hóp er að ræða, hvað varðar stétt, stöðu og tungumála- og menningarlegan bakgrunn. 

Að erindum loknum tóku við pallborðsumræður sem stýrt var af Sofiyu Zahova og spunnust í framhaldinu upp líflegar umræður með þátttöku gesta í salnum. 

Málþingið var haldið í tengslum við Alþjóða móðurmálsdaginn, sem fagnað er um heim allan þann 21. febrúar ár hvert. 

Upptöku frá viðburðinum má sjá hér

Þátttakendur á málþinginu, f.v.: Qusay Odeh, Þórir Jónsson Hraundal, Erna Huld Ibrahimsdóttir og Sofiya Zahova