Konfúsíusarstofnunin Norðurljós

Konfúsíusarstofnunin Norðurljós var formlega stofnuð þann 16. maí 2008 við Háskóla Íslands í samvinnu við Hanban, undirstofnun Menntamálaráðuneytis Alþýðulýðveldisins Kína, og Ningbo háskóla. Viðstödd opnunarhátíðina voru meðal annars Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þáverandi menntamálaráðherra, Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, Eiður Guðnason, fyrrverandi sendiherra í Kína og sex manna sendinefnd frá Kína, þar á meðal Ye Fei fan, aðstoðarrektor Ningbo háskóla.

Tilgangur stofnunarinnar er að stuðla að aukinni fræðslu á meðal Íslendinga um tungu, menningu og samfélag Kína með námskeiðum, fyrirlestrum, ráðstefnum, ljósmynda- og kvikmyndasýningum, o.fl.

Verkefni Konfúsíusarstofnunarinnar hafa verið ærin frá upphafi. Hún annast kínverskukennslu í námsleið kínverskra fræða við Háskóla Íslands, skipuleggur ýmis námskeið um kínverska tungu og menningu í samstarfi við Endurmenntun Háskóla Íslands, hefur umsjón með hluta kínverskukennslu við Háskólann í Reykjavík og stendur fyrir margvíslegum viðburðum við Háskóla Íslands. Fyrir tilstilli stofnunarinnar geta nemendur í kínverskum fræðum við Háskóla Íslands hlotið styrki til náms í Kína. Einnig hafa kínverskukennarar á Íslandi möguleika á veglegum styrkjum til að öðlast kennsluþjálfun í Kína.

Heimasíða Konfúsíusarstofnunnarinnar.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is