Juergen Boos hlýtur Vigdísarverðlaunin 2022

Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra veitti í dag Juergen Boos, forstjóra Bókastefnunnar í Frankfurt, alþjóðlegu Vigdísarverðlaunin 2022 við hátíðlega athöfn í Háskóla Íslands. Verðlaunin eru árlega veitt einstaklingi sem brotið hefur blað með störfum sínum í þágu tungumála, menningarheima og þýðingastarfs. Íslensk stjórnvöld, Háskóli Íslands og Vigdísarstofnun – alþjóðleg miðstöð tungumála og menningar efndu til Vigdísarverðlauna í tilefni af stórafmæli Vigdísar Finnbogadóttur vorið 2020, en þá voru jafnframt liðin 40 ár frá sögulegu forsetakjöri hennar. Stuðningur Vigdísar við mikilvægi tungumála og menningar hefur öðrum þræði einkennt ævistarf hennar. Sem velgjörðarsendiherra tungumála hjá UNESCO (Mennta, menningar- og vísindastofnun Sameinuðu þjóðanna) hefur hún lagt ríka áherslu á að efla tungumál fámennra málsamfélaga og standa þannig vörð um fjölbreytni tungumála og menningararf.

Juergen Boos hlýtur Vigdísarverðlaunin fyrir störf sín við Bókastefnuna í Frankfurt sem er stærsta og áhrifamesta bókastefna heims. Bókastefnan kynnir bókmenntir frá öllum heimshornum, einnig þær sem skrifaðar eru á tungumálum fámennra málsamfélaga. Árlega býður bókastefnan einu landssvæði að vera heiðursgestur en til að mynda voru bókmenntir frá Íslandi í kastljósinu árið 2011. Í störfum sínum á vegum bókastefnunnar hefur Juergen Boos vakið athygli á ríkidæmi tungumála og menningararfs í heimi bókmennta og veitt þar með höfundum, þýðendum, útgefendum og viðkomandi málsvæðum ómældan stuðning.

Juergen Boos varð forstjóri og stjórnarformaður Bókastefnunnar í Frankfurt árið 2005. Hann er jafnframt formaður LITPROM, félags sem kynnir með markvissum hætti afrískar, asískar og rómansk-amerískar bókmenntir, og starfandi formaður LitCam, nefndar sem hefur það að markmiði að efla læsi. Hann var sæmdur austurrískri heiðursorðu fyrir vísindi og listir árið 2017 og ári seinna útnefndur riddari af orðu bókmennta og lista í sendiráði Frakklands í Berlín. Juergen Boos er meðlimur vísindanefndar Sheikh Zayed bókaverðlaunanna og Akademíu þýsku bókmenntaverðlaunanna.

Fyrri handhafar Vigdísarverðlaunanna eru grænlenska ljóðskáldið og málvísindakonan Katti Frederiksen (2021), og færeyski málvísindamaðurinn, kennarinn og útgefandinn Jonhard Mikkelsen (2020).

Í stjórn Vigdísarverðlauna frá 2022 sitja Rósa Signý Gísladóttir dósent í málvísindum (formaður stjórnar), tilnefnd af rektor Háskóla Íslands, Birna Bjarnadóttir, rannsóknasérfræðingur í bókmenntum, tilefnd af Vigdísarstofnun, og Sigtryggur Magnason, íslenskufræðingur og aðstoðarmaður innviðaráðherra, tilnefndur af menningarmálaráðherra. Magnús Diðrik Baldursson, skrifstofustjóri rektorsskrifstofu Háskóla Íslands, starfar með nefndinni.