Sýning um ævi og störf Vigdísar

Listmunir og fatnaður, bréf og skjöl og gjafir erlendra þjóðhöfðingja er meðal þess sem Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, afhendir Háskóla Íslands fyrir sýningu sem sett verður upp í gömlu Loftskeytastöðinni og helguð er forsetatíð hennar. Vigdís, Ástríður Magnúsdóttir, dóttir hennar, og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, undirrituðu samning þessa efnis í Veröld – húsi Vigdísar á dögunum.

Samningurinn kemur í kjölfar viljayfirlýsingar sem undirrituð var á hátíðarsamkomu í Hátíðasal Háskóla Íslands sem haldin var í tilefni af 110 ára afmæli háskólans 17. júní í fyrra. Við athöfnina afhenti Vigdís Finnbogadóttir Háskóla Íslands nokkra muni frá forsetatíð sinni auk þess sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og þá starfandi mennta- og menningarmálaráðherra, og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, undirrituðu viljayfirlýsingu um að ríkisstjórnin myndi styðja undirbúning sýningarinnar. 
Samkvæmt hinum nýja samningi, sem undirritaður var á dögunum, afhendir Vigdís Finnbogadóttir Háskóla Íslands og Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur til eignar ýmsa muni úr forsetatíð sinni, svo sem bréf og skjöl, gjafir erlendra þjóðhöfðingja, listmuni og fatnað, auk annarra gripa úr einkaeigu sinni. Í samningnum kemur einnig fram að Háskólinn muni semja sérstaklega við Þjóðminjasafn Íslands og Þjóðskjalasafn um ráðgjöf um skráningu muna og skjala sem tilheyra gjöfinni og um mögulega varðveislu þeirra til lengri eða skemmri tíma. 

Ljósi varpað á störf og áhrif Vigdísar
Á sýningunni verður lögð áhersla á að varpa ljósi á störf Vigdísar sem forseta, áhrif hennar á íslenskt samfélag og stöðu hennar í alþjóðlegu samhengi. Meðal annars verður fjallað um áhrif Vigdísar á þróun jafnréttismála og náttúrvernd og ekki síst áherslu hennar á verndun tungumála og menningu smáþjóða í alþjóðlegu samhengi. Staðsetning sýningarinnar í Háskóla Íslands gefur einnig tækifæri til að eiga í samtali við fræðimenn af ólíkum fræðasviðum og verður lögð áhersla á að skapa lifandi umhverfi í tengslum við sýninguna með ýmsum viðburðum og miðla út í samfélagið. Sýningin mun heyra undir Vigdísarstofnun – alþjóðlega miðstöð tungumála og menningar sem er starfrækt undir merkjum UNESCO, menningarmálastofnunar Sameinuðu Þjóðanna. 
Nú standa yfir miklar umbætur á húsnæði gömlu Loftskeytastöðvarinnar sem kemur til með að hýsa sýninguna og þar verður jafnframt aðstaða til að stunda rannsóknir á störfum og málefnum sem Vigdís beitti sér fyrir. Háskóli Íslands fjármagnar endurbætur og rekstur húsnæðis en ríkisstjórn Íslands hefur tekið ákvörðun um fjármögnun undirbúnings og rekstur sýningar. 
Undirbúningur fyrir sýninguna er nú hafin og hefur Sigrún Alba Sigurðardóttir menningarfræðingur verið ráðin sýningarstjóri. Sigrún Alba hefur töluverða reynslu af sýningastjórnun og setti meðal annars upp sýninguna „Lífsblómið. Fullveldi Íslands í 100 ár“ í Listasafni Íslands sumarið 2018 en sú sýning var samstarfsverkefni Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Þjóðskjalasafns Íslands og Listatasafns Íslands. Aðspurð segir Sigrún að mikil alúð verði lögð í miðlun sýningarinnar í Loftskeytastöðinni og að varpa ljósi á áhrif Vigdísar á íslenskt samfélag, þau mál sem Vigdís beitti sér fyrir sem forseti og sem velgjörðarsendiherra tungumála hjá UNESCO. Við gerð sýningarinnar verður lögð áhersla á að efni hennar höfði til ólíkra hópa á ólíkum aldri og af ólíkum uppruna, bæði almennings, ferðamanna, ráðstefnugesta og hins fjölbreytta samfélags innan Háskóla Íslands.
Ráðgert er að sýningin verði opnuð seinni hluta árs 2023.