Alþjóðleg ráðstefna til heiðurs Elenu Poniatowska

Elena_PoniatowskaAlþjóðleg ráðstefna um mexíkóska rithöfundinn Elenu Poniatowska var haldin þriðjudaginn 11. september 2012 í Norræna húsinu í samvinnu Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur og Deildar spænsku og portúgölsku við Kaliforníuháskóla í Santa Barbara.

Ráðstefnan var haldin í tilefni útgáfu skáldsögunnar Jesúsa hjá Forlaginu í þýðingu Maríu Ránar Guðjónsdóttur, og hófst mánudaginn 10. september með hátíðadagskrá í Iðnó í boði Reykjavíkur - Bókmenntaborgar UNESCO. Aðalfyrirlesari var rithöfundurinn Elena Poniatowska en auk hennar héldu erindi Friðrik Steinn Kristjánsson, ræðismaður Spánar á Íslandi, Margrét Njarðvík, vararæðismaður Spánar á Íslandi og María Rán Guðjónsdóttir, þýðandi. Þórey Kristjánsdóttir las kafla úr bókinni.

Aðalfyrirlesarar á ráðstefnunni í Norræna húsinu voru :

•    Ástráður Eysteinsson, prófessor við Háskóla Íslands
•    Hólmfríður Garðarsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands
•    Claudia Parodi, prófessor við Kaliforníuháskóla í Los Angeles
•    Sara Poot Herrera, prófessor við Kaliforníuháskóla í Santa Barbara
•    Suzanne Jill Levine, prófessor við Kaliforníuháskóla í Santa Barbara
•    Viola G. Miglio, dósent við Kaliforníuháskóla í Santa Barbara
•    Iliana Alcántar, lektor við Queens College í New York
•    Nathaniel Gardner, lektor við háskólann í Glasgow
•    Ana Bundgaard, dósent við háskólann í Árósum

Veg og vanda af skipulagningu og framkvæmd ráðstefnunnar höfðu þær Viola G. Miglio, Sara Poot Herrera og Hólmfríður Garðarsdóttir, auk Guðrúnar Kristinsdóttur, verkefnisstjóra SVF.

Ráðstefnan var styrkt af ræðismannsskrifstofu Spánar á Íslandi, sendiráði Mexíkós í Danmörku, Barandiaran Chair of Basque Studies við Kaliforníuháskóla í Santa Barbara, UC Mexicanistas rannsóknarhópi við Kaliforníuháskólakerfið, Forlaginu og Deild spænsku og portúgölsku við Kaliforníuháskóla í Santa Barbara.

Sjá dagskrá ráðstefnunnar.

Mexíkóski rithöfundurinn og blaðakonan Elena Poniatowska er fædd í París árið 1933 og er ein af sterkustu og mikilvægustu röddum í bókmenntum og blaðamennsku hins spænskumælandi heims.

Eitt þekktasta skáldverk hennar, Jesúsa (Hasta no verte Jesús mío) frá árinu 1969, kemur nú út hjá Forlaginu í þýðingu Maríu Ránar Guðjónsdóttur.

Elena Poniatowska hefur sent frá sér skáldsögur, leikrit, smásögur og greinar. Ein frægasta bók hennar, La noche de Tlatelolco (1971), er vitnisburður um fjöldamorð á stúdentum sem hófu mótmæli á Plaza de las Tres Culturas í Mexikó árið 1968. Auk bókmenntaverka er Elena Poniatowska þekkt fyrir skrif sín á mörkum bókmennta og blaðamennsku (e. literary journalism), en þau verk hennar hafa verið gefin út í 7 bindum í safnritinu Todo México (1991-1999).  

Elena Poniatowska er margverðlaunuð fyrir verk sín og hlaut til að mynda tvisvar sinnum Mazatlán-verðlaunin fyrir Hasta no verte Jesús mío (1970) og Tinísima (1992). Einnig voru henni veitt Alfaguara-bókmenntaverðlaunin fyrir skáldsöguna La piel del cielo, 2001. Þá hlaut hún alþjóðlegu Rómulo Gallegos-verðlaunin fyrir skáldsöguna El tren pasa primero (2007) og Biblioteca Breve-verðlaunin fyrir skáldsöguna Leonora (2011).

Elena Poniatowska er heiðursdoktor við marga háskóla.

Fyrirlestrarnir voru haldnir á ensku og spænsku. Í lok dagskrár ávarpaði Poniatowska gesti ráðstefnunnar.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is