Samningur um að Vigdísarstofnun starfi undir formerkjum UNESCO

Vigdis_Finnbogadottir_Irina_Bokova_sign_UNESCO_agreement

 

F

 

Fimmtudaginn 27. júní var undirritaður í París samningur um að Vigdísarstofnun - alþjóðleg miðstöð tungumála og menningar (the Vigdís International Centre for Multilingualism and Intercultural Understanding) við Háskóla Íslands starfi undir formerkjum Menningar- og vísindastofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO. Að samningnum standa íslensk stjórnvöld og UNESCO. Aðalframkvæmdastjórinn, Irina Bokova, undirritaði samninginn af hálfu UNESCO, en Katrín Jakobsdóttir, fv. menningar- og menntamálaráðherra, hafði áður undirritað samninginn í apríl sl.

Undirritunin fór fram við hátíðlega athöfn í aðalstöðvum UNESCO í París að viðstaddri  Vigdísi Finnbogadóttur. Meðal annarra gesta við athöfnina voru embættismenn UNESCO og fjöldi velgjörðarsendiherra þeirrar stofnunar, Berglind Ásgeirsdóttir, sendiherra Íslands í París og Auður Hauksdóttir, forstöðumaður Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum.

Að undirrituninni lokinni fluttu Irina Bokova og Vigdís stutt ávörp. Í máli sínu þakkaði Irina Bokova íslenskum stjórnvöldum fyrir að hafa stutt þennan samning dyggilega og Vigdísi Finnbogadóttur þakkaði hún einarðlega framgöngu á alþjóðavettvangi í þágu tungumála. Þá þakkaði hún fræðimönnum Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur fyrir framlag þeirra og sagði árangur tungumiðstöðvarinnar ekki síst ráðast af sérfræðikunnáttu og störfum þeirra. Hún lét þess getið að umburðarlyndi án athafna nægi ekki lengur – mannkynið verði að geta komið sér saman, geta rætt og leyst sín mál, og þar gegni tungumál veigamiklu hlutverki. Í því sambandi vísaði hún til orða Nelsons Mandela, sem sagði eitt sinn að, að ef talað sé við mann á tungumáli, sem hann skilur en ekki sé hans eigið, höfði það til skynseminnar, en ef talað sé við hann á móðurmálinu hitti það í hjartastað.  

Vigdísarstofnun byggist á þeirri einföldu hugmynd að tungumál sé hornsteinn sjálfsmyndar og menningararfs alls mannkyns. Fjöltyngi sé forsenda menningarlegs margbreytileika og sé drifkraftur framfara og nýrra viðhorfa, sem auki þekkingarforða okkar og hæfni til að hugsa á frjóan og skapandi hátt.  Tungumálakunnátta byggi brýr milli fólks, skapi tengsl sem geri okkur kleift að eignast hlutdeild í alþjóðlegum viðhorfum og reynslu. Slíkt sé forsenda þvermenningarlegs skilnings og orðræðu sem byggist á virðingu.

Vigdís þakkaði UNESCO fyrir ómetanlegan stuðning við Stofnunina sem ber nafnið hennar. Hún sagði að sá samningur, sem nú hafi verið innsiglaður, gefi Íslendingum mikla möguleika til að láta enn frekar til sín taka á vettvangi, sem löngum hafi styrkt ímynd þjóðarinnar, en hún hafi varðveitt tungu sína frá upphafi byggðar í landinu. Auk þess hafi Íslendingar á öllum tímum lært erlend tungumál, sem hafi verið lykill að farsælum samskiptum við umheiminn.   

Berglind Ásgeirsdóttir sendiherra Íslands í Frakklandi og fulltrúi þjóðarinnar hjá UNESCO ávarpaði einnig gesti og sagði að Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur yrði enn mikilvægari en áður eftir viðurkenningu UNESCO. Tungumál, tjáskipti og skilningur milli þjóða ykju umburðarlyndi og virðingu fyrir menningu annarra og stuðluðu að friðsamlegri sambúð. Þá þakkaði hún Vigdísi Finnbogadóttur fyrir að hafa eflt menningarmynd Íslands víða um lönd - framlag hennar vekti hvarvetna athygli og virðingu og hún væri því glæsileg fyrirmynd.   

Alþjóðlega tungumálamiðstöðin er sjálfstæð rannsókna- og fræðslumiðstöð sem heyrir undir Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum.

 

MYND: Irina Bokova, aðalframkvæmdastjóri UNESCO, undirritar samninginn. Henni til hægri handar er Hans d'Orville aðstoðarframkvæmdastjóri. Við hlið Vigdísar stendur Berglind Ásgeirsdóttir, sendiherra Íslands í Frakklandi.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is