Reglur fyrir Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum

1. gr.
Almennt
a.
Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum við Háskóla Íslands er vísindaleg rannsóknastofnun, starfrækt sem grunnstofnun innan vébanda Hugvísindastofnunar Háskóla Íslands.
b.
Í tengslum við Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur er starfræktur Styrktarsjóður Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og meðal rannsóknastofa hennar er Alþjóðleg tungumálamiðstöð.

2. gr.
Hlutverk
Hlutverk Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum er:
a.    að vera vettvangur  rannsókna í erlendum tungumálum, kennslufræði erlendra mála, máltileinkun, málvísindum, menningarfræðum, þýðingafræðum, bókmenntum og notagildi tungumála, ein eða í samvinnu við aðra;
b.    að stuðla að upplýstri umræðu á fagsviðum stofnunarinnar með því að gangast fyrir útgáfu, ráðstefnum, fyrirlestrum og hvers kyns annarri starfsemi sem stutt gæti rannsóknir og kennslu og eflt tengsl við alþjóðlegt háskólasamfélag sem og við íslenskt þjóðlíf;
c.    að veita rannsóknanemum, nýdoktorum og gestafræðimönnum aðstöðu og tækifæri til rannsóknastarfa eftir því sem kostur er og efla um leið tengsl rannsókna og kennslu;
d.    að stuðla að vexti og viðgangi Alþjóðlegrar tungumálamiðstöðvar.
Stjórn Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum getur ákveðið, að fengnu samþykki félagafundar eða ársfundar og í samráði við stjórn Hugvísindastofnunar (sbr. 4. gr. reglna  um Hugvísindastofnun Háskóla Íslands), að koma á fót rannsóknastofum sem sinna tilteknum rannsóknaverkefnum, rannsóknasviði eða samstarfi sem fellur að hlutverki Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum.

3. gr.
Fjármál og rekstur
Stofnunin fær árlegt framlag sem stjórn Hugvísindastofnunar ákveður hverju sinni. Stofnunin getur auk þess fengið framlag til einstakra verkefna úr sjóði Hugvísindastofnunar. Stofnunin aflar eigin tekna eftir því sem kostur er.

Stofnunin nýtur þjónustu Hugvísindastofnunar um bókhald og daglegan rekstur eftir samkomulagi formanns stjórnar Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og stjórnarformanns Hugvísindastofnunar hverju sinni. Fjárhagsáætlun ásamt yfirliti yfir rekstur liðins árs skal lögð fyrir forseta Hugvísindasviðs og stjórn Hugvísindastofnunar til samþykktar. Stofnunin á aðild að sameiginlegu húsnæði Hugvísindastofnunar.

Reikningshald stofnunarinnar skal vera hluti af reikningshaldi Háskólans.

4. gr.
Aðild
Fastir kennarar við Deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda eru félagar í Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum, nema þeir óski eftir og fái aðild að annarri grunnstofnun. Stundakennarar, sérfræðingar og styrkþegar stofnunarinnar, doktorsnemar á fagsviðum stofnunarinnar og aðrir kennarar við Háskóla Íslands geta sótt um og fengið aðild að stofnuninni með samþykki stjórnar á meðan þeir eru í námi eða starfa við Háskólann. Einungis fastir kennarar á Hugvísindasviði Háskóla Íslands hafa atkvæðisrétt á ársfundi.

5. gr.
Stjórn og hlutverk
Forseti Hugvísindasviðs skipar Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum fimm manna stjórn til þriggja ára í senn. Í stjórn skulu sitja bæði karlar og konur og skal þess gætt að hlutfall hvors kyns sé ekki minna en 40%, sbr. 15. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
a.    Félagar í Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum tilnefna, á grundvelli kosningar á ársfundi, formann stjórnar úr hópi fastra kennara.
b.    Einnig tilnefnir ársfundur þrjá meðstjórnendur og tvo til vara úr hópi félaga og skulu að minnsta kosti þrír þeirra vera fastir kennarar.
c.    Fimmti stjórnarmaðurinn er að jafnaði doktorsnemi á fagsviðum stofnunarinnar sem Félag doktorsnema á Hugvísindasviði hlutast til um að þeir velji úr sínum hópi.
Einungis félagar í Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum geta setið í stjórn. Einn meðstjórnenda er kjörinn varaformaður stjórnar á fyrsta fundi og skal hann vera fastur kennari.

Stjórnarformaður á sæti í stjórn Hugvísindastofnunar. Sé stofnuninni ekki ráðinn forstöðumaður (sjá gr. 8) hefur formaður stjórnar umsjón með daglegum rekstri og fjármálum stofnunarinnar, gengur frá tillögum að rekstraráætlun og kemur fram fyrir hönd stofnunarinnar.

Stjórnin útfærir stefnu Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og ber ábyrgð á framkvæmd hennar. Stjórnin ber ábyrgð á fjármálum stofnunarinnar og daglegum rekstri gagnvart stjórn Hugvísindastofnunar og forseta Hugvísindasviðs. Stjórnin sker úr í vafaatriðum sem upp kunna að koma og varða innri starfsemi stofnunarinnar.

Stjórn stofnunarinnar skipar Styrktarsjóði Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur stjórn.

Stjórnin skipar þriggja manna ritnefnd útgáfu á vegum stofnunarinnar og setur henni erindisbréf.

Formaður stjórnar boðar stjórnarfundi bréflega, eða í tölvupósti, með þriggja daga fyrirvara. Fundarboð skal greina frá dagskrá fundar.

Skylt er að boða stjórnarfund óski meirihluti stjórnar þess. Sama gildir ef forseti Hugvísindasviðs eða rektor ber fram slíka ósk og hefur þá hann, eða sá sem sækir fund í umboði hans, málfrelsi og tillögurétt á fundinum.

Falli atkvæði jöfn á stjórnarfundi ræður atkvæði formanns eða þess sem gegnir formannsstörfum.

Halda skal gerðabók stjórnar og skulu staðfestar fundargerðir færðar í hana.

6. gr.
Ársfundur og félagafundur
Ársfund skal halda á fyrri helmingi hvers árs. Formaður skal boða til hans með a.m.k. einnar viku fyrirvara bréflega eða með tölvupósti. Ársfundur tilnefnir fulltrúa í stjórn (sbr. 5. gr.) og fjallar um stefnu stofnunarinnar. Aðeins fastir kennarar á Hugvísindasviði hafa atkvæðisrétt á ársfundi.

Fari þriðjungur félaga í Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum fram á það skal boða sérstakan félagafund. Sömu reglur um atkvæðisrétt gilda fyrir félagafund og ársfund.

7. gr.
Réttindi og skyldur félaga
Félagar geta sótt um aðstöðu, þjónustu og styrki til Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og Hugvísindastofnunar. Þeir geta birt greinar og rit, sótt um styrki, skipulagt ráðstefnur, fyrirlestra og samstarfsfundi, rannsóknarverkefni og samvinnu í nafni stofnunarinnar, með samþykki ársfundar eða stjórnar í umboði hans eftir því sem tilefni er til. Félagar eiga rétt til setu á ársfundi. Formaður stjórnar getur falið einstökum félögum trúnaðarstörf á vegum stofnunarinnar.

8. gr.
Forstöðumaður
Forseti hugvísindasviðs getur ráðið stofnuninni forstöðumann að fenginni tillögu stjórnar stofnunarinnar, sbr. 6. tölul. 4. mgr. 27. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands. Forseti hugvísindasviðs setur forstöðumanni erindisbréf.

Skal sá sem ráðinn er forstöðumaður að lágmarki hafa meistaragráðu eða annað sambærilegt háskólapróf en doktorsgráða er æskileg.

Forstöðumaður er ábyrgur fyrir daglegum rekstri stofnunarinnar, áætlanagerð og fjáröflun og samræmir fjáröflunarleiðir. Forstöðumaður sér enn fremur um framkvæmd á öðrum þeim málum, sem stjórnin felur honum.

9. gr.
Gildistaka
Reglur þessar, sem stjórn Hugvísindastofnunar hefur sett að fenginni tillögu stjórnar Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum, sbr. 2. mgr. 4. gr. reglna um Hugvísindastofnun Háskóla Íslands nr. 1022/2009, taka gildi 1. desember 2010. Um leið falla úr gildi eldri reglur. Núverandi stjórn stofnunarinnar sem skipuð var skv. eldri reglum heldur umboði sínu og starfar í samræmi við ákvæði í þessum reglum fram að  ársfundi 2012.

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is