Rússneska

Nám í rússnesku

Nám í rússnesku við Háskóla Íslands er opið nemendum sem ekki hafa kunnáttu í rússnesku fyrir. Námið er í senn hagnýtt og fræðilegt. Annars vegar er um að ræða tungumálanám þar sem nemendur fá kennslu og þjálfun í notkun tungumálsins, talþjálfun, ritun, hlustun og lesskilningi, og hins vegar nám í bókmenntum, menningu, sögu og stjórnmálum Rússlands. Áhersla er lögð á rússneskan samtíma og sögu Sovétríkjanna. Þá er þýðingum gerð nokkur skil í seinni hluta námsins.

 

Rússneskunám er góður undirbúningur að hvers kyns framhaldsnámi á sviði rússnesku, rússneskra fræða, Austur-Evrópu og Evrasíufræða. Þá er rússneskan afar heppilegur grunnur fyrir nám á sviði stjórnmálafræði, bókmenntafræði, sagnfræði, alþjóðalaga og alþjóðaviðskipta, svo eitthvað sé nefnt. Námið hentar einnig nemendum sem hafa áhuga á þýðingafræði eða störfum á sviði fjölmiðla, menningarmála, ferðamála og alþjóðasamskipta með áherslu á Rússland og tengd svæði.

 

Áhersla er lögð á að nemendur tileinki sér fræðileg vinnubrögð á öllum sviðum námsins, sem er forsenda þess að þeir verði í stakk búnir til að leggja stund á framhaldsnám.

 

Markmið námsins

Að nemendur nái góðum tökum á rússnesku rit- og talmáli; öðlist haldgóða þekkingu á sögu, menningu og bókmenntum Rússlands; hafi skilning á rússneskum samtíma og getu til að dýpka hann frekar; verði búnir undir frekara nám í rússnesku, rússneskum fræðum og tengdum greinum í Rússlandi eða annars staðar.

 

Kennsluhættir

Byrjað er á undirstöðuatriðum tungumálsins og því er mögulegt að hefja nám án grunnþekkingar á málinu. Kennsla í tungumálanámskeiðum fer að mestu fram á íslensku og ensku framan af, en þegar á líður einnig á rússnesku. Í öðrum námskeiðum fer kennsla alla jafna fram á íslensku.

 

Tungumálanámskeiðin eru ýmist með æfinga-, samræðu- eða fyrirlestrasniði. Einnig fer fram þjálfun í hljóðveri. Mikilvægt er að nemendur sæki tíma og undirbúi sig vel fyrir þá. Kennsla í rússnesku fer fram í Vigdísarhúsi og víðar

 

Námsleiðir í rússnesku og nám erlendis

Rússneska er kennd til BA-gráðu, sem aðalgrein og aukagrein. BA-nám tekur að jafnaði þrjú ár. Nemendum stendur til boða að stunda eins árs nám við Moskvuháskóla að loknu 120 eininga námi við Háskóla Íslands og ljúka þannig 180 eininga námi í rússnesku.

 

Aðalgrein til 120 e: Rússneska sem aðalgrein til 120 eininga er tveggja ára fjölbreytt og krefjandi nám með það að markmiði að nemendur verði færir um að tjá sig munnlega og í rituðu máli á rússnesku, geti skilið talað mál að vissu marki og séu læsir á fjölmiðla og einfaldari bókmenntatexta. Auk þjálfunar í tungumáli ljúka nemendur námskeiðum í bókmenntum og sögu Rússlands og Sovétríkjanna og í rússneskri samtímamenningu og stjórnmálum.

 

Aukagrein til 60 e: Hægt er að ljúka 60 eininga námi í rússnesku sem aukagrein með tvennum hætti:

 

Fyrri leiðin hentar vel nemendum sem vilja afla sér undirstöðukunnáttu í rússnesku auk nokkurrar þekkingar á bókmenntum, menningu og sögu. Hægt er að ljúka öllum námskeiðum á einu ár.

 

Síðari leiðin hentar einkum nemendum sem geta nýtt rússneskukunnáttu í tengslum við nám sitt í öðrum greinum, s.s. stjórnmálafræði, viðskiptafræði eða sagnfræði. Nemendur sem velja hana ljúka eingöngu tungumálanámskeiðum. Nemandi lýkur 40 einingum fyrra árið en 20 það síðara.

 

Aukagrein til 60e fyrir nema í viðskiptafræði og ferðamálafræði: Eins árs nám með aðalgrein (120e) þar sem lögð er áhersla á færni og hagnýta þekkingu á tungumáli og samfélagi.

 

Gildi námsins

Kunnátta í rússnesku veitir aðgang að samfélagi milljóna manna og um leið stórbrotinni og heillandi menningar- og þjóðfélagssögu. Rússnesk menning og saga hefur löngum höfðað til Íslendinga auk þess sem efnahagsleg samskipti þjóðanna hafa ávallt verið nokkur. Atvinnumöguleikar fyrir fólk með menntun í rússnesku eru margvíslegir, t.d. störf tengd viðskiptum, störf í ferðaþjónustu, þýðingar, fjölmiðlastörf og ýmis störf í menningargeiranum.

 

Greinarformaður:

Rebekka Þráinsdóttir
rebekka@hi.is
 

Kennarar:

Jón Ólafsson
jonolafs@hi.is
 
Rebekka Þráinsdóttir
rebekka@hi.is

Heimasíða:

Verkefnastjóri:

Bernharð Antoniussen
bernhard@hi.is

Verkefnastjóri  alþjóðamála:

Guðrún Birgisdóttir
gb@hi.is
 
 

 

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is