Sænska

Nám

Sænskunámið miðar að því að nemendur nái hratt og örugglega valdi á sænsku máli. Þeir fá innsýn í sænska málfræði og bókmenntir, sænskt þjóðfélag og menningu, t.d. kvikmyndir og tónlist, auk þess að læra ýmislegt um tungumál og bókmenntafræði almennt.

Tengja má sænskunámið við ýmsar aðrar greinar, t.d. málvísindi, þýðingarfræði, önnur tungumál eða jafnvel greinar utan Hugvísindasviðs.

Öll námskeið á fyrsta ári er hægt að taka í fjarnámi. Allt námsefni má fá að láni hjá sendikennara, nemendum að kostnaðarlausu.

Íslendingar eiga margvísleg pólitísk, menningarleg og efnahagsleg samskipti við Svíþjóð. Margir Íslendingar dvelja í Svíþjóð við nám eða vinnu og kunnátta í sænsku nýtist því mörgum.

Viðskiptatengd sænska

Í viðskiptatengdri sænsku leggja nemendur áherslu á sænskunám og taka ennfremur jafngildi aukagreinar í almennri viðskiptafræði.

Markmið

Markmiðið með sænskukennslunni er að nemendur geti tjáð sig bæði í tali og riti á góðri sænsku, jafnframt því að afla sér undirstöðuþekkingar í sænskum bókmenntum, ásamt sögu og menningu Svíþjóðar.

 

Íslendingar eiga auðvelt með að læra sænsku. Sænska er Norðurlandamál eins og íslenska – við töluðum sama tungumálið fyrir þúsund árum!

 

Kennsluhættir
Kennsla í sænsku fer fram í Norræna húsinu og í byggingum Háskóla Íslands. Á bókasafni Norræna hússins er lestraraðstaða fyrir nemendur og er þar gott safn sænskra blaða, bóka, myndbanda, tónlistarefnis á geisladiskum og tímarita til útláns. Þar geta nemendur einnig fengið aðgang að Internetinu auk efnis á margmiðlunardiskum. Nemendur hafa aðgang að bókasafni á skrifstofu sænska lektorsins og að auki er þeim bent á Landsbókasafn – Háskólabókasafn.

 

Nemendahóparnir eru yfirleitt litlir svo að námið er sveigjanlegt eftir þörfum og óskum nemenda.

Kennsla fer fram á sænsku nema annað sé tekið fram. Krafist er stúdentsprófs í einu af Norðurlandamálunum, sænsku, norsku eða dönsku.

Húsnæði
Skrifstofa sænska lektorsins er í Norræna húsinu. Kennsla fer að mestu fram þar en einnig í byggingum Háskólans.

Námsleiðir í sænsku

Sænska er kennd til BA-gráðu (sem aðalgrein og aukagrein) og í meistaranámi í Norðurlandafræðum.

Hagnýtt gildi

Atvinnumöguleikar fyrir fólk með menntun í sænsku eru fjölbreyttir, t.d. þýðingar, störf tengd viðskiptum, störf í ferðaþjónustu, fræða-störf, blaðamennska og önnur fjölmiðlastörf og störf í menningar-geiranum.

Erlent samstarf

Sænskunemum stendur til boða að taka hluta námsins við sænska háskóla sem Nordplus- eða Erasmus-skiptinemar.

Kennarar

Lars-Göran Johansson, sænskur lektor
larsj@hi.is

Maria Riska, stundakennari
mar@hi.is

Linda-Marie Blom, stundakennari
rlb@hi.is

Vefur sænskunámsins
https://uni.hi.is/larsj

Vefur Norðurlandafræða
http://vefir.hi.is/norma

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is