Þýðingasetur Háskólans var stofnað árið 2000 innan Hugvísindastofnunar Háskóla Íslands og er starfrækt undir Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. Dr. Gauti Kristmannsson, dósent í þýðingafræðum, er forstöðumaður Þýðingaseturs Háskóla Íslands.

Þýðingasetrið er rannsóknastofa með tvíþætt hlutverk, annars vegar að standa fyrir rannsóknum og hagnýtum verkefnum í þýðingum og þýðingafræði og hins vegar að styðja við kennslu og miðlun fræðanna innan og utan Háskóla Íslands. Nám í þýðingafræðum til meistaragráðu hófst árið 2002 og leggja nú milli 30 og 40 stúdentar stund á námið.

Með þessi markmið að leiðarljósi hefur Þýðingasetrið unnið að ýmsum verkefnum í margmála þýðingum, ráðgjöf til atvinnulífsins og miðlun sérhæfðra verkefna á sviðum þýðinga. Þýðingasetrið hefur unnið að verkefnum í samvinnu við Símann, Össur, Skýrr, Háskóla Íslands, ÓB-ráðgjöf, Norrænu ráðherranefndina, Xerox svo nokkrir séu nefndir.

Þýðingasetrið hefur einnig skipulagt og tekið þátt í ráðstefnum og málþingum, auk útgáfu fræðirita í samvinnu við ýmsa aðila. Sem dæmi má nefna ráðstefnu um margtyngda ljóðlist árið 2001 sem haldin var með stuðningi ESB og fleiri aðila í tilefni af Evrópska tungumálaárinu 2001. Haldin var ljóðaþýðingasamkeppni í samvinnu við Lesbók Morgunblaðsins og fyrirlestrar og ljóðaþýðingar gefnar út í samvinnu við tímarit þýðenda, Jón á Bægisá.

Þýðingasetrið hefur einnig unnið að málþingum um tungumál og atvinnulífið í samvinnu við Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur og tengjast mörg verkefni þess raunar starfsemi Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur, eins og til dæmis þátttaka í tengslanetinu ERIC á vegum Sókrates-áætlunar ESB, en Þýðingasetrið leiðir eitt af undirnetum þess verkefnis og stendur fyrir ráðstefnu af því tilefni í september 2005.

Þýðingasetrið hefur einnig staðið fyrir gerð sjónvarpsþáttar í samvinnu við Bandalag þýðenda og túlka um störf og viðfangsefni þýðenda á Íslandi á nýrri öld. Mynd þessi heitir Þjóðin og þýðingarnar og var sýnd í Sjónvarpinu 17. júní 2005. Segja má að sú mynd sé í rökréttu samhengi þeirra rannsókna sem setrið hefur staðið fyrir á stöðu þýðinga í samtímanum.

Þýðingasetrið studdi til dæmis rannsóknina Þýðingar á íslenskum markaði 2001 sem hlaut styrk Nýsköpunarsjóðs námsmanna og voru niðurstöður þeirra Auðnu Haddar Jónatansdóttur og Rannveigar Jónsdóttur birtar í tímariti þýðenda, Jóni á Bægisá. Einnig birti setrið samantekt á ensku um efnið í tengslum við Evrópuverkefnið TNP3 sem hefur að markmiði að kanna þátt tungumála og þýðinga í atvinnulífi Evrópu.

Þýðingasetrið hefur einnig starfað með dóms- og kirkjumálaráðuneytinu að undirbúningi og framkvæmd prófa fyrir löggilta skjalaþýðendur og dómtúlka.

Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur
í erlendum tungumálum

Háskóli Íslands
Brynjólfsgötu 1
107 Reykjavík
s: 525 4191
Kt. 600169-2039
Hér erum við!

Opnunartímar

Veröld – hús Vigdísar 9:00-17:00

X