Styrkir á árinu 2012

Styrkir_Arion_banka

Mynd: Monica Caneman, stjórnarformaður Arion-banka, Höskuldur Ólafsson, bankastjóri Arion-banka, Kristín Ingólfsdóttir rektor og Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands.

Arion banki mun styrkja Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum með sex milljóna króna framlagi sem úthlutað verður á næstu þremur árum. Í samkomulaginu kemur fram að styrknum skuli varið til undirbúnings alþjóðlegrar tungumálamiðstöðvar. Samningur um styrkinn var undirritaður af Kristínu Ingólfsdóttur, rektor Háskóla Íslands, og Höskuldi Ólafssyni, bankastjóra Arion banka, og vottaður af frú Vigdísi Finnbogadóttur og Monicu Caneman, stjórnarformanni Arion banka, í Háskóla Íslands þann 19. desember sl.

Vigdís Finnbogadóttir þakkaði forsvarsmönnum bankans mikilvægt framlag og sagði það auðvelda stofnuninni að hrinda í framkvæmd metnaðarfullum áformum á sviði tungumála og menningar. Fátt skipti Íslendinga nú meira máli en að stuðla að jákvæðum samskiptum við umheiminn og í því sambandi myndi alþjóðleg tungumálamiðstöð við Háskóla Íslands gegna lykilhlutverki.

Monica Caneman, stjórnarformaður Arion banka, sagði að þeim hjá Arion banka væri ljúft og skylt að koma að því verkefni að styðja við rekstur Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. „Það var auðvelt fyrir okkur að samsvara stefnu bankans við það góða verk sem hér er unnið.“

Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum er rannsóknastofnun innan Hugvísindastofnunar Háskóla Íslands. Á undanförnum árum hefur verið unnið ötullega að því að reisa henni sérstaka byggingu sem hýsa mun kennslu og rannsóknir í erlendum tungumálum við Háskóla Íslands. Þar verður einnig Vigdísarstofnun - alþjóðleg miðstöð tungumála og menningar sem hlaut í nóvember 2011 samþykki Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, til að starfa undir formerkjum hennar.

Í Vigdísarstofnun verða sérstök heimasvæði fyrir þau 14 tungumál sem kennd eru við Háskóla Íslands auk sérhæfðs bókasafns og gagnasmiðju með efni sem tengist tungumálakennslu og menningarfræðslu. Þar verður einnig aðstaða fyrir fundi og ráðstefnuhald og fyrir samstarf við erlenda og innlenda gestafræðimenn. Einnig verður starfrækt fræðslu- og upplifunarsetur sem verður vettvangur fyrir erlend tungumál og menningu og allt sem lýtur að samskiptum Íslands við erlendar þjóðir.

Styrkir_Arion_banka_2012

Mynd: Björk Þórarinsdóttir, af skrifstofu bankastjóra Arion-banka, Höskuldur Ólafsson, bankastjóri Arion-banka, Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, Monica Caneman, stjórnarformaður Arion-banka, Kristín Ingólfsdóttir rektor, Auður Hauksdóttir, forstöðumaður Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur, og Ástráður Eysteinsson, prófessor og forseti Hugvísindasviðs Háskóla Íslands.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is