Styrkir og gjafir á árinu 2014

Styrkir frá íslenskum fyrirtækjum til undirbúnings Vigdísarstofnunar

Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur naut á árinu styrkja sem veittir voru skv. samningum sem undirritaðir voru á árunum 2012 og 2013. Á árinu 2012 gerði Arion banki samning um tveggja milljóna króna árlegan styrk til Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í þrjú ár og hinn 15. nóvember 2013 voru undirritaðir samningar við Íslandshótel hf., Landsbankann hf., MP-banka hf., Promens hf. og fasteignafyrirtækið Regin hf. um einnar milljón króna árlegan styrk í þrjú ár auk samninga um hálfrar milljón króna árlegan styrk frá fyrirtækjunum Bláa lónið hf., Icelandair Group hf., Icelandic Group hf. og olíufélaginu N1 hf. í jafn langan tíma. Styrkirnir nema alls ríflega 26 milljónum króna á þriggja ára tímabili. Samkvæmt samningunum skal fjármununum varið til að undirbúa starfsemi Vigdísarstofnunar – alþjóðlegrar miðstöðvar um tungumál og menningu.

Auk framangreindra styrkja veitti Icelandair Group hf. styrk til tveggja ára í formi sex flugmiða sem nýta má til ferðalaga sem til falla við undirbúning alþjóðlegu tungumálamiðstöðvarinnar.

Ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi þessara styrkja fyrir starfsemi Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur og þá sérstaklega fyrir undirbúning alþjóðlegu tungumálamiðstöðvarinnar. Einstakur liðsmaður SVF fyrr og síðar við fjáröflun og önnur brýn verkefni á hennar vegum hefur verið Ásmundur Stefánsson, fv. bankastjóri og stjórnarmaður í Styrktarsjóði Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur. Kann stofnunin honum miklar þakkir fyrir ómetanlegt framlag hans, sem og framangreindum styrktaraðilum fyrir öfluga liðveislu og árangursríkt samstarf. Framlög velunnara stofnunarinnar hafa skipt sköpum fyrir starfsemina í ár og á undanförnum árum.

Bókagjafir og úrklippusöfn til Vigdísarstofnunar

Afkomendur Pálínu Kjartansdóttur (1931–2010), færðu Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur að gjöf úrklippusafn Pálínu um Vigdísi Finnbogadóttur. Einnig færðu afkomendur Jófríðar Margrétar Guðmundsdóttur (1913–2003), stofnuninni að gjöf úrklippusafn Jófríðar um Vigdísi. Úrklippurnar, sem eru úr íslenskum jafnt sem erlendum blöðum og tímaritum, spanna framboð og forsetatíð Vigdísar og eru dýrmæt heimild um feril hennar.

Afkomendur Guðmundar Gíslasonar (1921–2002), yfirbókbindara hjá Ísafoldarverksmiðju, færðu stofnuninni að gjöf Íslensk-danska orðabók / Islandsk-dansk ordbog eftir Sigfús Blöndal. Bókin var gefin út í Reykjavík hjá Prentsmiðjunni Gutenberg 1920–1924 og bundin inn í gyllt band af Guðmundi Gíslasyni af fádæma kostgæfni. Orðabókin er árituð þann 12. júní af afkomendum hans.

Stofnunin hlaut ennSigrún_og_Philip_Rockmaker fremur myndarlega bókagjöf í lok ársins. Um er að ræða töluvert safn bóka, m.a. orðabækur, fagurbókmenntir og ýmis fræðirit úr safni Sigrúnar Tryggvadóttur Rockmaker þýðanda í Bandaríkjunum. Bækurnar eru fallega innbundnar og í sumum tilfellum er um frumútgáfur að ræða.

Mynd: Sigrún og Philip Rockmaker.

 

 

 

 

 

Stofnunin metur mikils vinarhug gefenda og er afar þakklát fyrir þessar góðu gjafir sem eiga eftir að sóma sér vel í Vigdísarstofnun og nýtast bæði nemendum og fræðimönnum í rannsóknum þeirra. Meðan Vigdísarstofnun er í byggingu, eru gögnin varðveitt á skjalasafni Háskóla Íslands.

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is