Tungumál eru lyklar að heiminum

Einn af hornsteinunum í menningu mannkyns eru tungumálin og sá menningarlegi margbreytileiki sem þeim tengist. Með tungumálinu öðlast maðurinn sjálfsmynd sína, fær skilning á heiminum og myndar tengsl við menningu sína og umhverfi. Tungumálið er lykill að menningu hvers málsamfélags. Góð tungumálakunnátta og læsi á ólíka menningarheima er mikilvægasta tæki mannsins til að mynda tengsl við einstaklinga og menningarhópa, jafnt heima sem heiman.

Alþjóðasamskipti og samvinna þjóða og menningarsvæða hafa aldrei skipt meira máli en á okkar tímum. Nægir í því sambandi að nefna samvinnu á sviðum mennta, menningar, vísinda, viðskipta og stjórnmála, sem og í tengslum við alþjóðlegt hjálparstarf. Í heimi sívaxandi samskipta á öllum sviðum gegnir tungumálakunnátta og fjöltyngi lykilhlutverki. Gildir það jafnt um möguleika einstaklinga til að menntast og til að njóta sín í leik og starfi, um viðskiptahagsmuni fyrirtækja og getu stjórnvalda til að láta að sér kveða á alþjóðavettvangi.

Í veröldinni knýja nú á erfið úrlausnarefni sem einungis verða leyst með alþjóðlegri samvinnu. Miklu skiptir að lýðræðið sé í hávegum haft og að raddir allra þjóða fái hljómgrunn. Í öllum samskiptum og samvinnu þjóða veltur skilningur og lausn slíkra vandamála ekki síst á tungumálakunnáttu og menningarlæsi, það er færni til að nema og skilja forsendur ólíkra menningarheima.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is