Um þýðingar

Um þýðingar

Erindi flutt á Þýðingahlaðborði Bandalags þýenda og túlka í Norræna húsinu, 29.nóvember 2005

Ingibjörg Haraldsdóttir

 

Oft hef ég verið spurð að því hversvegna ég hafi byrjað að þýða bækur, og hef þá auðvitað gefið hin aðskiljanlegustu svör eftir því hvernig hefur legið á mér hverju sinni. Hvernig í ósköpunum ætti maður líka að hafa pottþétt svar á reiðum höndum við þessari spurningu? Það er eins hægt að spyrja hvort maður sé masókisti eða mannafæla eða eitthvað álíka. Einu sinni hitti ég á förnum vegi mann sem ég kannast við og spurði hann m.a. hvað systir hans, sem ég var líka kunnug, hefði fyrir stafni. „Hún? Ekki neitt. Liggur mest í rúminu. Hún er eitthvað að þýða.“

Satt að segja hef ég oft furðað mig á því hve margir virðast hafa lítið álit á þessu yndislega starfi okkar. „Til hvers er verið að eyða peningum í að þýða allar þessar bækur?“ spyr fólk. „Kunna ekki allir ensku nú til dags?“ Einsog enska sé eina erlenda tungumálið, allar erlendar bækur séu skrifaðar á ensku. Sem „allir kunna“, vel að merkja.

Um þessar mundir liggja jólabækurnar á búðaborðunum í háum stöflum, litríkar og plastaðar. Nafn höfundarins blasir við manni bæði framan og aftan á kápunni. Margar þessara bóka eru þýddar – en í flestum tilfellum er nafni þýðandans haldið kirfilega leyndu. Engu líkara en hann sé skúrkurinn sem er afhjúpaður í sögulok, bötlerinn sem reynist vera morðingi. Getur verið að íslenskir útgefendur hafi smitast af bandarískum kollegum sínum? Mér er sagt að þar vestra seljist þýddar bækur svo illa að oft sé þess hvergi getið að um þýðingu sé að ræða, það sé ekki einu sinni svo gott að upp um skúrkinn komist á innsíðum, einsog hér tíðkast þó.

Svona getum við tuðað, endalaust, og yfirleitt haft rétt fyrir okkur, starf okkar er alltof oft til fárra fiska metið. Við erum soldið einsog fólkið á bakvið tjöldin í Spaugstofunni, við sjáumst ekki, og við erum alltaf að gera eitthvað sem tölvurnar okkar ættu að geta gert sjálfar á þessum tímum hagræðingar og skilvirkni. Við höfum mætur á úreltum hugtökum einsog vandvirkni, þolinmæði, samviskusemi, trúmennska.

Af einhverjum ástæðum er einsog maður fari umsvifalaust í varnarstöðu þegar talið berst að þýðandastarfinu. Nú langar mig að venda mínu kvæði í kross og segja eitthvað jákvætt. Innst inni vitum við að einmitt nú, á tímum alþjóðavæðingar, eru þýðendur nauðsynlegri en nokkru sinni fyrr. Við höfum fulla ástæðu til að bera höfuðið hátt, vera stolt af starfi okkar og krefjast þess að aðrir, og þá sérstaklega útgefendur, opni augun fyrir mikilvægi þessa starfs og átti sig á því að tölvurnar koma aldrei alveg í staðinn fyrir þýðendur, sama hve fullkomnar þær verða. Tungumálin eru lifandi, þýðendur líka, en tölvurnar eru dauðir hlutir. Hlutverk okkar er, meðal annars, að sjá til þess að tungumálin verði áfram lifandi, en renni ekki saman í einn allsherjar graut, eitt frumstætt hrognamál á borð við þessa svokölluðu ensku sem notuð er til hagræðis þegar fólk af ýmsum þjóðernum kemur saman nú á dögum. Þær stundir koma í lífi mínu að ég harma hvernig fór fyrir esperantó, að ekki skyldi takast að innleiða það um allan heim einsog vonir stóðu til. Það hefði verið skárra en að misþyrma móðurmáli Shakespeares á þennan miskunnarlausa hátt.

Hinn almenni þýðandi, einn og stakur, hugsar kannski sjaldan á þessum nótum þar sem hann situr sveittur við tölvuna sína og hamast við að ljúka verki fyrir tilsettan tíma. En ég held að við þurfum öðru hverju að rifja upp fyrir okkur þá staðreynd að við erum stétt sem skiptir máli og á sér langa sögu. Þýðingar hafa verið stundaðar á Íslandi frá upphafi ritaldar á tólftu öld. Þegar Oddur Gottskálksson lét prenta og gaf út þýðingu sína á Nýja testamentinu árið 1540 var hann m.a. að stuðla að því að íslenska, en hvorki latína né danska, yrði mál kirkjunnar og prestanna hér á landi um alla framtíð.

Okkar hlutverk í dag er að sjá til þess að íslenskir lesendur geti lesið á góðri íslensku það sem þeir vilja lesa, hvort sem um er að ræða heimsbókmenntir, reyfara, skjátexta eða eitthvað annað. Þannig getum við stuðlað að menningarlegu jafnrétti í landinu og jafnframt því að íslensk tunga haldi áfram að lifa og dafna.

Enn hef ég varla minnst á það sem ég tel vera stærsta kost þýðingarstarfsins. Þegar öllu hjali um menningarlega ábyrgð og sögulegt hlutverk þýðenda lýkur, blasir við sú einfalda staðreynd að það er gaman að þýða, sérstaklega þegar maður er farinn að þekkja höfundinn og finnst maður hafa náð einhverjum tökum á honum, er hættur að óttast hann. Það er spennandi og gefandi að kafa í hugarheim höfundar á borð við Fjodor Dostojevskí svo nærtækt dæmi sé tekið, reyna að ímynda sér hvað karlinn hafi verið að grufla þegar hann skrifaði tiltekna setningu eða hvort hann hafi komið við í spilavítinu þann daginn. Freista þess að skynja muninn á röddunum í margradda textanum. Skemmtilegast er að fylgja honum eftir eins langt og maður kemst þegar hann hefur sig til flugs með skáldlegum ærslum. Mér hefur verið sagt að þetta persónulega viðhorf þýðanda til höfundar sé rómantískt nítjándualdarfyrirbæri, og vera kann að svo sé, enda er textinn skrifaður á nítjándu öld þótt höfundurinn hafi ekki verið bendlaður við rómantík svo ég viti. Hann var a.m.k. kallaður raunsæishöfundur þar sem ég lærði mína rússnesku. Þýðandinn kann svosem að hafa búið yfir einhverjum rómantískum hneigðum á sínum yngri árum, en verður samt að teljast tuttugustualdar manneskja, held ég. Þótt mér finnist ég þekkja Dostojevskí upp að vissu marki, geri ég greinarmun á höfundinum annarsvegar og manninum hinsvegar. Ég geri líka greinarmun á höfundinum og þýðandanum, en það hafa ekki allir þýðendur gert.

Í bók sinni Tvímæli vísar Ástráður Eysteinsson í jarlinn af Roscommon sem orti eftirfarandi heilræðavísu til þýðenda árið 1684:

And chuse an Author as you chuse a Friend:

United by this Sympathetick Bond,

You grow Familiar, Intimate and Fond;

Your thoughts, your Words, your Stiles, your Souls agree,

No longer his Interpreter, but He.

Jarlinn er semsé að ráðleggja þýðendum að velja sér höfund einsog þeir velja sér vini, það muni enda farsællega með því að þýðandinn hætti að vera túlkandi og verði höfundurinn sjálfur.

Þarna finnst mér of langt gengið. Mig langar ekki til að „vera“ neinn af þeim höfundum sem ég hef þýtt (enda eru þeir flestir löngu komnir undir græna torfu). Hinsvegar hef ég ort dálítinn ljóðabálk til Marínu Tsvetajevu, sem er ein úr þessum hópi. Það gerðist fyrir tíu árum og bálkurinn birtist í bók minni Höfuð konunnar. Ástæðan fyrir þessu uppátæki mínu var sú, að ég hafði verið að þýða langan og mikinn bálk eftir Marínu og var ákveðin í að koma honum fyrir í bókinni ásamt mínum eigin ljóðum. Munurinn á hennar ljóðum og mínum var hinsvegar himinhrópandi og dæmið virtist ekki ætla að ganga upp. Þá kom þessi hugmynd, að yrkja til Marínu og brúa þannig bilið á milli okkar. Ég held að það hafi bara tekist nokkuð vel. Þessi brú var kannski táknræn fyrir samband höfundar og þýðanda, en einsog þið vitið er nokkuð algengt að líkja þýðingum við brúarsmíði. Við smíðum brýr sem er ætlað að tengja saman ólíka menningarheima. Það er okkar aðferð til að gera heiminn að örlítið skárri stað, smátt og smátt.

En svo ég víki aftur að upphafsorðum mínum: hversvegna byrjaði ég að þýða bækur? Í dag er svarið svona: ég kunni mál sem fáir kunnu, ég var blönk, mig vantaði þægilega innivinnu. Svo vandist þetta.

Þakka ykkur fyrir,

Ingibjörg Haraldsdóttir

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is