Útgáfa þýddra bóka

Útgáfa þýddra bóka

Erindi flutt á Þýðingahlaðborið Bandalags þýðenda og túlka í Norræna húsinu, 29.11.2005

Snæbjörn Arngrímsson, útgefandi

Góðir áheyrendur,

Þegar ég vera beðinn um að halda erindi á þessu þýðingaþingi þráaðist ég auðvitað við þar sem ég hef ekki aldrei haft  ánægju af því tala yfir fjölmenni, sama hversu virðulegt tilefnið er. Þar að auki fer í hönd annasamasti tími ársins fyrir útgefendur og þótti mér því erfitt að hugsa mér að standa hér á meðan allt væri á öðrum endanum á forlaginu, allt á suðupunkti. Ég reyndi því að koma mér undan þessu verkefni með öllum tiltækum ráðum, en fundarboðandinn varð hálfhneykslaður á þessum undanbrögðum og sagði að ég gæti nú varla neitað því að halda þetta litla erindi þar sem ég hefði „meikað það á þýðingum“. Ég varð auðvitað svo undrandi á þessari nýju kenningu að ég gat ekki annað en tekið að mér að flytja þetta erindi.

Ég fór í framhaldi af þessu að hugsa hvað maðurinn hefði átt við, að ég hefði meikað það á þýðingum. Í hverju fólst þessi „meikun“? Hélt hann að ég hefði ég grætt svo mikla peninga á útgáfu þýddra bóka eða fannst honum að fyrirtækið hefði hækkað á einhvern hátt í status við að gefa út þýðingar sem þykja vandaðar og góðar? Það má segja að verðmæti útgáfufyrirtækja liggi í tvennu. Í fyrsta lagi er hægt að meta eignir og skuldir fyrirtækisins og fá þar með út virði þess í krónum og aurum. Sum útgáfufyrirtæki eru á hlutabréfamarkaði og þá hækkar gengi hlutabréfa þeirra í kauphöllum þegar vel gengur. Til dæmis hefur hlutbréfagengi Gyldendal í Danmörku hækkað gífurlega á þessu ári (fyrirtækið er hástökkvari ársins eins og sagt er) og hafa fjármálaskýrendur bent á að ástæðan fyrir velgengni Gyldendal í kauphöllinni dönsku sé að nú sé sú að ný þýðing á Harry Potter bók komi út í ár og Gyldendal er útgefandi Harrys í Danmörku.
Ég get alveg fullvissað fundargesti að útgáfa á þýðingum hefur að öllu jöfnu ekki hækkað hlutabréfagengi útgáfufyrirtækja heldur þvert á móti. Meðan ég var að hugsa um hvað ég ætti að tala í þessu erindi hringdi útgáfustjóri annars forlags hér í bæ í mig til að spjalla um stöðu og horfur. Hann sagði mér meðal annars að nú eftir langa bið væri loksins komin út bókin Kertin brenna niður eftir Sandor Marai frá Ungverjalandi. Þetta væri stórkostleg bók og vel þess virði að bíða eftir henni. Að vísu ætti bókin ekki eftir að seljast í mörgum eintökum og fyrirtækið ætti eftir að tapa rúmri milljón á bókinni en það væri frábært að gefa út þessa stórkostlegu bók.

Ég get nefnt annað dæmi sem ég gjörþekki. Á dögunum eða á afmælisdegi Jónasar Hallgrímssonar fengum við hjá Bjarti viðurkenningu frá menntamálaráðuneytinu Þetta var dagur íslenskrar tungu og viðurkenningin var veitt fyrir útgáfu á bókaflokki sem við köllum neon. Í þessum bókaflokki gefum við út fimm til sex bækur á ári, eingöngu þýðingar á nýjum bókum sem hafa vakið athygli í heimalandi sínu. Oft eru þetta bækur frá málsvæðum sem við höfum lítinn bókmenntasamgang við eins og til dæmis Spánn, Ítalía, Japan, Brasilía, Belgía. Bækurnar seljum við flestar í áskrift og við reynum að stilla verði í hóf, 1280 krónur á bók. Útgáfan á þessum bókum er auðvitað fjárhagslegt rugl. Við seljum um 1200 bækur. Og innkoman er því ein og hálf milljón en kostnaður við hverja bók er um 1.8 milljónir

  • Þýðing: 550 þús.
  • Prentun 500 þús.
  • Vsk 190 þús.
  • Dreifing: 130 þús.
  • Kápa 50 þús.
  • Innheimta 90 þús.
  • Yfirlestur 120 þús.
  • Plastpökkun; 20 þús.
  • Útgáfuréttur 100 þús.
  • SAMTALS: 1.750 þús.

Hver maður sér að þetta er hreint fjárhagslegt glapræði og ekki á nokkurn hátt hægt að segja að verðgildi fyrirtækisins aukist á þessari útgáfuröð. En samt sem áður hef ég ekki haft undan við að taka við hóli, viðurkenningum og aðáendabréfum vegna þessarar ritraðar fyrir hönd fyrirtækisins.

Og þá kem ég að seinna atriðinu hvernig meta má verðmæti útgáfuyrirtækja og það er nefnilega í því sem kallað er menningarlegt kapítal. Neon-serían er einmitt dæmi um verk sem hækkar menningarlegt verðmæti fyrirtækisins þrátt fyrir að vera fjárhagslegur baggi. Ég nefni annað dæmi.

Á bókmenntahátíð hér í haust kom hingað til lands ótölulegur fjöldi magnaðra snillinga. Þetta voru höfundar, þýðendur og útgefendur. Meðal gesta var útgáfustjóri Gyldendal í Danmörku, Jóhannes Riis sem er ógnarstórt nafn í dönsku menningarlífi. Jóhannes þessi flytur ræðu einu sinni á ári sem öll þjóðin tekur eftir og ræðir vikum saman um efni hennar eftir að hún er flutt. Eins og sumri hér vita þá starfar Bjartur líka í Danmörku undir dulnefninu Hr. Ferdinand. Hr. Ferdinand gefur meðal annars út Dan Brown sem samdi þá vinsælu bók Da Vinci lykilinn. Bækur Dan Brown, sem nú eru orðnar þrjár í danskri þýðingu, sitja allar á danska metsölulistanum og hafa gert það árum og mánuðum saman og selst í mörg hundruð þúsund eintökum. Þegar Jóhannes Riis kom hingað ákvað ég að leggja örlítið próf fyrir hann. Niðurstaðan sýnir mjög vel mat forleggjara í hverju verðmæti forlags liggja. Og sýnir líka hvað skiptir máli í þessum bransa fyrir forleggjara.
Sem sagt, Gyldendal í Danmörku gefur út uppáhaldshöfund minn sem heitir Kazuo Ishiguro. Ishiguro skrifaði Dreggjar dagsins, Óhuggandi og núna í haust kom út nýjasta bókin hans. Slepptu mér aldrei sem verður lesið út hér á eftir. Ég veit að þóttt Ishiguro sé besti höfundur í heimi þá seljast bækur hans í nokkur hundruð eintökum í Danmörku. Ég veit líka hvaða tilfinning það er að gefa út bækur hans þótt þær seljist hægt.

Ég gekk því til Jóhannesar í einu af kokteilboðunum á bókmenntahátíð nú í haust og sagði við hann:

“Jóhannes, ég ætla að gera þér tilboð, mjög gott tilboð.”
“Já,” svarar Jóhannes. “Hvað var það?”
Jóhannes er mjög hæglátur maður og kurteis.
“Nú vil ég skipta við þig.” Segi ég. “Þú færð útgáfuréttinn á nýju bókinni hans Dan Brown sem á eftir að seljast í 500 þúsund eintökum.”
“Já, og hvað vilt þú í staðinn?” svarar Jóhannes.
“Í staðinn vil ég fá útgáfuréttinn á nýjustu bók Kazuo Ishiguro.”
Jóhannes svarar ekki strax en glottir. Fyrr en varir kemur einhver og truflar þetta mikilvæga tal okkar svo við getum ekki gert út um viðskiptin fyrr en í næsta kokteilboði og þá vík ég mér aftur að Jóhannesi og spyr:
“Jæja, Jóhannes, ertu búinn að hugsa þig um?”
“Já,” svarar hann.
“Og hvað?” segi ég.
“Ég fer ekki að láta þig hafa svona verðmætan höfund í staðinn fyrir Dan Brown!”

Ágætu gestir. Ég spyr svona í lokin hvar eru þessar fínu þýðingar okkar í flaumnum sem nú ríður yfir? Margar þessar bóka eru bestu bækur ársins. Þær eru ekki í straumnum sem brýtur leið, þær eru langt á eftir. Þær fá ekki ritdóma í sjónvarpi, þær fá ritdóma í blöðum korteri fyrir jól og virðast skipta þjóðina æ minna máli.

Snæbjörn Arngrímsson, útgefandi

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is