Útgáfuhóf í tilefni af útgáfu bókarinnar Heimar mætast. Smásögur frá Mexíkó

Í tilefni af útgáfu bókarinnar Heimar mætast. Smásögur frá Mexíkó í þýðingu Kristínar Guðrúnar Jónsdóttur, stóð Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur fyrir útgáfuhófi í Bókabúð Máls og menningar föstudaginn 25. nóvember.

Ásdís R. Magnúsdóttir setti viðburðinn f.h. ritnefndar Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur og Kristín Guðrún Jónsdóttir þýðandi kynnti bókina. Jón Thoroddsen las úr einni smásögunni og félagar úr hljómsveitinni Quinto Sol léku nokkur lög. Þá áritaði Kristín Guðrún bókina.

Félag Mexíkana á Íslandi hafði skreytt bókabúðina með munum og pappírsúrklippum frá Mexíkó.

Viðburðurinn var skipulagður í samvinnu Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur, Háskólaútgáfunnar og Bókabúðar Máls og menningar.

Bókin Heimar mætast. Smásögur frá Mexíkó er gefur út af Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur og Háskólaútgáfunni. Smásagnaritun hefur verið mikilvæg í löndum Rómönsku-Ameríku alla 20. öldina og fram á okkar daga, ekki síst í Mexíkó en þaðan koma margir af helstu rithöfundum álfunnar.  Í bókinni eru sextán smásögur eftir sextán höfunda og spanna tímabilið frá 1952 til 2009. Þær veita innsýn í hið fjölbreytta mannlíf í Mexíkó þar sem ólíkir menningarheimar og ólíkir tímar mætast.

Kristín Guðrún Jónsdóttir valdi sögurnar, þýddi og skrifaði inngang. Ritstjóri er Erla Erlendsdóttir.

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is