Vesenið við Babelturninn

Vesenið við Babelturninn

Erindi flutt í Hátíðarsal Háskóla Íslands á vegum Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum, 1. október 2001

Þorsteinn Gylfason, prófessor við Háskóla Íslands

§1 Það sem allir vita

Hinn 26ta maí 1767 skrifaði Voltaire vinkonu sinni Katrínu miklu sem oftar, og sagði henni meðal annars frá hefðarfrú við hirðina í Versölum sem hefði harmað mikið það sem hún kallaði „vesenið við Babelsturninn“ og tungumálaöngþveitið sem af því hefði sprottið meðal mannfólksins. Ef þetta hefði ekki gerzt, sagði frúin, hefðu allir alltaf talað bara frönsku. Voltaire tók náttúrlega fram við Katrínu að hann hefði aldrei verið sama sinnis og þessi frú. Annað hefði naumast verið kurteisi við keisarynju allra Rússlanda.

Nú tala ekki allir frönsku, og þá er ein spurningin hvað á að gera í því. Eitt sem ýmsir gera er að læra fleiri mál en eitt. Annað er að þeir sem kunna fleiri mál en eitt þýði úr þeim handa hinum. Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur er einmitt helguð þessari göfugu viðleitni: að læra mál, og þýða svo af einu á annað.

Þessi viðbrögð við veseninu liggja í augum uppi. Ég þarf til dæmis ekki að brýna fyrir neinum Íslendingi að þjóð hans sé hollast að sem flestir þegnar hennar kunni skil á erlendum málum, og helzt fleiri en einu hver maður eða kona. Bærileg málakunnátta hefur, meðal margs annars, gert Íslendingum kleift að stunda nám í mörgum löndum, og flytja þaðan heim með sér að minnsta kosti einhvern bjarma af menningu ólíkra þjóða, og auka þar með útsýn okkar eyjarskeggja til annarra landa.

Það þarf ekki heldur að brýna fyrir neinum Íslendingi nauðsyn þess að dvergþjóð eins og við, og jafnvel hvaða þjóð sem er, leggi stund á þýðingar. Allt frá miðöldum til siðaskipta, og svo frá upplýsingaröld til tuttugustu aldar og fram á þennan dag, hafa þýðingar verið mikill giftufengur í  menningarsögu Íslands. Þær hafa jafnvel skipt sköpum.

Íslenzkt ritmál varð fyrst til í þýðingum kristinna helgirita. Nútímaritmál á Íslandi - mál Halldórs Kiljans Laxness til dæmis - leit fyrst dagsins ljós í Hómersþýðingum Sveinbjarnar Egilssonar á 19du öld. Glæsilegasta íslenzka núlifandi fólks stendur í þýðingum Helga Hálfdanarsonar. (Þess vegna lögðum við Eyjólfur Kjalar Emilsson einhvern tíma til að höfuðnámsgrein í þýðingafræði í heimspekideild yrði lyfjafræði.)

Í ljósi þessarar löngu sögu er alls ekki skrítið að málakennsla á Íslandi var til skamms tíma - fram yfir skólaár mín - einkanlega þýðingakennsla. Það var lítið skeytt um að gera okkur skrifandi á þýzku eða dönsku, og næstum ekkert um að gera okkur talandi á þessum málum né öðrum. Hvorttveggja átti að koma af sjálfu sér ef við bara lærðum að þýða vönduð og vel skrifuð rit. Það þarf ekki að brýna mikilvægi málakunnáttu og þýðinga fyrir neinum, og þess vegna ætla ég ekki að segja meira í þá veru. Í staðinn langar mig til að hugleiða málakunnáttu og þýðingar í örstutta stund frá öðru sjónarmiði en því sem býr oftast nær að baki brýningunum. Og af því að Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur er fræðileg stofnun - háskólastofnun - vildi ég mega binda mig við fræðilegt sjónarmið. Án þess þó að ég ætli að fara halda hér fyrirlestur um heimspeki málsins. Við erum í hátíðasal en ekki í kennslustofu.

§2 Gildi í máli og gildi mála

Faðir nútímamálvísinda var svissneski málfræðingurinn Ferdinand de Saussure (1857-1913). Hér eru tvær af frægum kenningum hans. Hin fyrri segir að í tungumáli sé ekkert nema mismunur, til dæmis mismunurinn á hljóðum málsins. Hin síðari er sú að tungumál sé kerfi atriða, sem falla hvert að öllum hinum, og gildi hvers atriðis velti á því að öll hin eru fyrir hendi á sama tíma. Nú ætla ég ekki að útlista þessar kenningar, hvað þá að rökræða þær. Mig langar til að inna eftir öðru en því hverjar þær eru og hvers vegna þær eru eins og þær eru.

Kenningarnar tvær eru kenningar um hvert tungumál fyrir sig. Þá kynni að fljúga að okkur hvort það mætti líka hafa þær um fjölskyldu allra mála. Ef við mættum það væru flugurnar sem við fengum þær að á tungumálum sé ekkert nema mismunur, og að gildi hvers máls (eins og ensku eða sænsku) velti á því að öll önnur mál (eins og japanska, svahíli eða úrdú) eru fyrir hendi á sama tíma.

Væntanlega sjáum við öll í hendi okkar að þetta gengur ekki. Fyrri flugunni mætti banda frá sér með því að það sé ekki bara mismunur á sænsku og ensku né jafnvel á japönsku og finnsku. Kannski eru öll mál meira og minna skyld á endanum. Því heldur Noam Chomsky fram sem kunnugt er. Síðari flugunni mætti vísa á dyr með því að segja gildi mannlegs máls ekki þurfa að raskast neitt jafnvel þótt öll önnur mál hyrfu úr sögunni. Hirðfrúin í Versölum hefur væntanlega trúað því að franska mundi dafna í allri sinni dýrð þótt hún yrði eina málið í heiminum. Og það væri ekki augljóslega rangt hjá henni hvað sem öðru líður.

Hvers vegna er ég að spyrja þessara kjánalegu spurninga sem hægt er að svara neitandi viðstöðulaust? Jú, vegna þess að þær eru til þess fallnar að vekja okkur til umhugsunar um hvað mismunur á málum, jafnvel þegar þau eru náskyld vegna sameiginlegrar sögu eins og Norðurlandamálin, er raunar margvíslegur og merkilegur. Og eins um hitt að kannski veltur gildi hvers máls fyrir sig, að mikilsverðu og merkilegu leyti, einmitt á því að önnur mál eru til. Þessi efni langar mig til að hugleiða stuttlega áður en ég hætti, og þá í ljósi einfalds atriðis úr málspeki okkar daga þar sem hún fjallar um þýðingar.

§3 Þýðingar, skilningur og skýrleiki

Þýðingar - eða öllu heldur kosturinn á þeim (þýðanleiki)-eru frumskilyrði þess að athæfi einhverrar skepnu geti talizt vera málnotkun. Án þýðinga eru engin mál hugsanleg. Fuglasöngur er ekki mál - því miður, mætti segja - vegna þess að það er engin leið að þýða hann yfir á eitthvert af okkar málum. Hins vegar getur verið að dans býflugnanna sé mál einmitt vegna þess að við getum þýtt hann. Það getur jafnvel verið að svonefnt dulmál erfðanna („the genetic code“) sé mál vegna þess að þar eigum við kost á eins konar þýðingum. (Þarna koma reyndar fleiri atriði til álita en kosturinn á þýðingum. Eins og um dans býflugnanna ef út í hann væri farið.) Mál er mál ef og aðeins ef hægt er að þýða það.

Kosturinn á þýðingum er eðli tungumáls vegna þess meðal annars að hann er til marks um að málið sé skiljanlegt. Og mál er til þess að vera skilið, stundum með lævíslegasta hætti eins og í skáldskap. Saussure sagði reyndar að mál og hugsun væru eins og forsíða og baksíða sama pappírsblaðs, og að það væri ekki nokkur leið að klippa forsíðuna án þess klippa baksíðuna í sömu leið.

Hugsum nú um flugurnar tvær. Tungumál eru afar ólík þótt þau séu stundum lík. Og þá er hugsunin ólík. Á dögunum varð fyrir mér snúin rökræða ensks heimspekings sem spratt öll, bæði hjá honum og fjölda annarra fræðimanna, af því að í ensku eru engin orð sem samsvara íslenzku orðunum „skárri“ og „skástur“ til aðgreiningar frá „betri“ og „beztur“. Þar er sagt „better“ og „best“ um hvorttveggja, og þetta getur valdið lygilegum flækjum þegar fjallað er af fræðilegri nákvæmni um val milli tveggja illra kosta.

Enskumælandi siðfræðingar hafa þurft að skrifa tugi eða hundruð ritgerða um slíkan vanda á síðustu tveimur áratugum. Þeir spyrja: „Hvernig getur verið að bezti kosturinn sé ekki góður og blessaður?“ Íslendingur hefði aldrei þvælzt út í þetta efni. Hann segði bara: „Þú ert ekki að tala um bezta kostinn, heldur þann skásta. Og hann þarf ekki að vera góður.“ Hin yfirlætislausu orð „skárri“ og „skástur“ hefðu leyst vandann fyrir hann frá fyrstu byrjun. (Hann hefði svo líka geta hugsað til Íslendingasagna: „Nú geri ég þér tvo kosti, og er hvorugur góður.“) Svo er annað. Hér kemur að síðari flugunni. Tungumál eiga á hættu að spillast með ýmsum hætti. Sagnaskáldinu Gustave Flaubert þótti franska síns tíma slitin og snjáð og ormétin svo að það dyttu á hana göt við hverja snertingu. Eða lítum á þá ensku sem er alþjóðamál okkar tíma, eins og hún er töluð og skrifuð til dæmis hjá Sameinuðu þjóðunum eða í Brussel. Það er engin venjuleg enska heldur stofnanamál sem á næstum ekkert skylt við tungu lifandi fólks.

Og hver er nú vörnin gegn snjáðu og ormétnu máli? Eða gegn uppþembdu lífvana máli? Hún er að sjálfsögðu sú að við reynum að þýða það yfir á heilt og lifandi mál svo að það verði skiljanlegt. Þá skiptir litlu máli hvort við þýðum á kínversku, arabísku eða íslenzku.

Höfuðdygð talandi og skrifandi fólks er skýrleiki. George Orwell mundi bæta því við að höfuðfjandi skýrleikans sé óheilindi. Skýrleikans vegna höfum við málið. Og honum vona ég að Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur megi þjóna, og það af fullum heilindum því að annars stæði stofnunin ekki undir nafni Vigdísar. Hún er fræðileg stofnun, og kannski á engin fræðileg stofnun á hvaða sviði sem er að þjóna öðru markmiði af heilum hug en skýrum skilning

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is