Villa á öræfum - Allein durch die Einöde

Villa á öræfum - Allein durch die Einöde

Erindi flutt vegna þýðingar á hrakningasögum Pálma Hannessonar, 8. apríl 2008

Marion Lerner, menningar- og þýðingafræðingur

Bókin er ný tvímála útgáfa á þýsku og íslensku af kunnustu hrakningasögum Pálma Hannessonar, sem var rektor við Menntaskólann í Reykjavík og alþingismaður. Einnig fylgir ýtarleg greinargerð eftir Marion Lerner á þýsku og íslensku, en hún þýddi sögurnar á þýsku. Loks eru kort af sögusviði hverrar frásagnar í óbyggðum Íslands og er án vafa mikill fengur að þessu verki fyrir áhugamenn um hálendið og hrakningasögur Pálma Hannessonar sem hafa verið ófáanlegar árum saman og hafa lengi notið hylli maðal landsmanna.

Þegar Pálmi Hannesson rektor skrifaði sögurnar á fjórða og fimmta áratug 20. aldar var það gert í anda sjálfstæðisbaráttu Íslendinga, ættjarðarástar sem gekk m.a. út á stolt yfir því að lifa af í óblíðri náttúru. Ferðalög um landið urðu vinsæl og félög eins og Ferðafélag Íslands, Fjallamenn spruttu fram á sjónarsviðið. Hinn nýi lesendahópur, erlendir ferðamenn, sér Ísland þó í öðru ljósi og tengir það fyrst og fremst við draumkennda sýn af fallegum póstkortamyndum og nútímaferðamennsku. Hinni óblíðu hlið náttúrunnar hefur ekki verið haldið sérstaklega fram meðal þessa hóps. Með þýðingunni er því ekki aðeins búið að færa textann yfir á annað tungumál heldur einnig inn í annað menningarsamhengi á öðrum tíma.

Hvernig getur þýðandi brúað hið mikla menningarbil sem verður á milli frumtextans og þýðingarinnar? Hvert er hlutverk og ábyrgð þýðandans? Hvernig getur hann komið í veg fyrir að fyrirframgefnar ímyndir hafi afgerandi áhrif á textann? Í erindi sínu fjallaði Marion Lerner um vinnu sína við þýðingu á sögunum og hvernig tókst að kljást við þessar áleitnu spurningar. Einnig fór hún yfir nokkur einkenni frumtextans og textatengsl hans.

Marion Lerner lauk M.A. prófi í menningarfræði frá Humboldt-háskóla í Berlín (1998) og M.A. í þýðingafræði frá HÍ (2005). Þýðingin tengist lokaverkefni hennar í því námi. Hún hefur einnig starfað sem leiðsögumaður á Íslandi. Marion stundar doktorsnám við Humboldt-háskólann, og kennir þar menningarsögu Íslands á 19. og 20. öld, sögu ferðamennsku á Íslandi sem og þýðingar.

Erindi Marion Lerner á pdf sniði

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is