SAMTAL – DIALOGUE er opnunarsýningin í Veröld – húsi Vigdísar, þar sem fjallað er í máli og myndum um störf og hugðarefni Vigdísar Finnbogadóttur.

Sagt er frá námsárum Vigdísar erlendis og starfi hennar sem frönskukennari, leiðsögumaður og síðar leikhússtjóri Leikfélags Reykjavíkur 1972– 1980. Gerð er grein fyrir fjölbreyttu hlutverki hennar sem forseti Íslands árin 1980–1996 og öllu því góða starfi sem hún hefur unnið eftir að forsetatíð lauk, m.a. sem velgjörðarsendiherra tungumála á vegum UNESCO – mennta-, vísinda- og menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna og sem öflugur liðsmaður Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum.

Í sýningunni fáum við jafnframt innsýn í hugðarefni Vigdísar, sjáum nokkrar eftirlætisbækur hennar, tilvitnanir og kvæði og getum fylgst með vexti Vinaskógar í Þingvallaþjóðgarði, sem stofnaður var henni til heiðurs. Gestir eru hvattir til að taka beinan þátt í samtalinu við Vigdísi, setjast á bláu leikhússtólana og hugleiða hugtök á borð við heiðarleiki, mannréttindi, menning, þekking , jafnrétti, tungumál, framfarir, víðsýni og menntun.

Sýningin er á 1. hæð Veraldar og er opin kl. 11:00-16:00 alla virka daga.

Sýningin verður opin laugardaginn 15. desember 2018, sem er jafnframt síðasti sýningardagur.

 

 

Sýningin SAGATID – NUTID var opnuð af Margréti II. Danadrottningu þann 1. desember 2018 í Veröld – húsi Vigdísar, í tilefni 100 ára afmælis fullveldis Íslands.

Íslendingasögurnar komu út árið 2014 í nýrri danskri þýðingu, með myndskreytingum myndlistarkonunnar Karin Birgitte Lund. Sýning á verkum hennar fyrir útgáfuna er nú haldin í tilefni af 100 ára afmæli fullveldis Íslands.
Teikningarnar byggja á myndskreytingum og fagurfræði víkingatímans og miðalda, og Karin sækir innblástur í norræna myndlist þess tímabils. Verkin eru meðal annars undir áhrifum af íslenskum miðaldahandritum, veggmyndum í dönskum kirkjum, höggmyndum á Gotlandi og norskum stafkirkjum.
Á sýningunni eru einnig nokkrar glænýjar teikningar sem innblásnar eru af Íslendingasögunum.

Karin Birgitte Lund fæddist árið 1946 i Kaupmannahöfn og stundaði nám við Konunglegu dönsku listaakademíuna 1967–1973. Hún hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir list sína. Meðal verka hennar eru hönnun og myndskreytingar nýrra danskra peningaseðla.

Sýningin, sem haldin er í samstarfi við Sögu forlag, er á Heimasvæði tungumála, á 2. hæð Veraldar – húss Vigdísar og er opin kl. 11:00-16:00 alla virka daga.

Sýningin stendur yfir til 31. janúar 2019.

 

VIMIUC – Vigdís International Centre
for Multilingualism and Intercultural Understanding

Háskóli Íslands
Brynjólfsgötu 1
107 Reykjavík
s: 525 4191 / 525 4281
Kt. 600169-2039
Hér erum við!

Opnunartímar

Veröld – hús Vigdísar 9:00-17:00

X