í Fréttir, News, VIMIUC

Hátt í tvö hundruð sérfræðingar í tungumálum, menningu og málefnum Mið-Austurlanda voru saman komnir í Veröld – húsi Vigdísar dagana 22.-24. september þegar alþjóðlega ráðstefnan The Middle East in Myth and Reality var haldin í samstarfi við samtökin The Nordic Society for Middle Eastern Studies (NSMES). Aðalskipuleggjandi ráðstefnunnar var Þórir Jónsson Hraundal, lektor í Mið-Austurlandafræðum við Háskóla Íslands, en hún var styrkt af Hugvísindastofnun Háskóla Íslands, rektorsskrifstofu og norska Sendiráðinu.

Á ráðstefnunni voru kynntar rannsóknir á sviðum Mið-Austurlandafræða, mannfræði, fornleifafræði, trúarbragafræði, stjórnmálafræði, félagsfræði, tungumála og bókmennta. Lykilfyrirlesarar voru Ragnhild Johnsrud Zorgati, dósent í trúarbragðafræði við Háskólann í Osló, Charles Kurzman, prófessor í félagsfræði við University of North Carolina at Chapel Hill og Jakob Skovgaard-Petersen, prófessor í Mið-Austurlandafræðum við Kaupmannahafnarháskóla.

Á meðan ráðstefnunni stóð var sett upp sýning á málverkum fræðimannsins og myndlistakonunnar Yafa Shanneik frá háskólanum í Birmingham. Einnig voru veitt verðlaun fyrir bestu meistararitgerðina á sviði Mið-Austurlandafræða, og féllu þau í skaut Mathias Ghyoot sem nú er doktorsnemi við Princeton Háskóla.

Boðið er upp á 60 eininga nám í Mið-Austurlandafræðum við Mála- og menningardeild Háskóla Ísland með það að markmiði að auka fræðslu, þekkingu og áhuga á menningu svæðisins í víðum skilningi og veita nemendum grunnfærni í arabísku.

 

Aðrar fréttir
X