í Fréttir

Rannsaka á sameiginlegar fornnorrænar rætur Danmerkur og Íslands og skilning þjóðanna á þeim á tímabilinu frá endurreisn til vorra tíma í nýju rannsóknarverkefni sem Þjóðminjasafn Íslands og Þjóðminjasafn Danmerkur standa saman að í samstarfi við Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. Tveir nýdoktorar tóku við styrkjum til rannsóknarverkefnisins úr hendi Margrétar II. Danadrottnirnar á hátíðarviðburði í Veröld – húsi Vigdísar á fullveldisdeginum 1. desember. Styrkirnir eru veittir með stuðningi frá hinum danska Carlsberg-sjóði.

Efnt er til samstarfsins í tilefni af hundrað ára fullveldisafmæli Íslands en því hefur verið fagnað með ýmsum hætti á yfirstandandi ári. Það voru þau Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður, Mette Skougaard, stjórnandi Þjóðminjasafns Danmerkur, og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sem undirrituðu samstarfssamning um verkefnið sem hefur það að markmiði að varpa frekara ljósi á aldalangt samband Íslendinga og Dana og sameiginlega sögu þjóðanna. Verkefnið hefur yfirskriftina ”Dronning Margrethe den II’s ”Distinguished” forskningsprojekt om den dansk-islandske reception af den nordiske oldtid” og eins og nafnið bendir til beinist það að sameiginlegri fortíð þjóðanna og skilningi þeirra á henni.

Sem fyrr segir munu tveir nýdoktorar sinna rannsóknunum, þau Dale Kedwards, sem hafa mun aðsetur við Þjóðminjasafn Íslands og vera í samstarfi við Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum við Háskóla Íslands, og Katarzyna Anna Kapitan, sem hafa mun aðsetur við Þjóðminjasafn Danmerkur. Dale lauk doktorsprófi frá York-háskóla árið 2015 og hefur í rannsóknum sínum rýnt í það hvaða sögu íslensku handritin segja um hugmyndir norrænna manna um stöðu þeirra í alheiminum. Katarzyna er að ljúka doktorsprófi frá Kaupmannahafnarháskóla og hefur rannsakað sýn lærðra manna frá miðri sautjándu öld til þjóðernisrómatíkurinnar á 19. öld á norræna fornöld. Gert er ráð fyrir að þau Dale og Katazyna muni eiga gott samstarf í rannsóknum sínum.

Samstarfssamningurinn milli þjóðminjasafnanna tveggja og Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur nær líka til sýningarstarfs og ráðstefnuhalds þar sem áherslan er á að fræða og stuðla að auknum skilningi beggja þjóða á sögu hvorrar annarrar.

Sem fyrr segir afhenti Margrét Danadrottning styrkina á hátíðarviðburði í Veröld – húsi Vigdísar á fullveldisdaginn 1. desember en við athöfnina var einnig kynnt máltæknistofnunin Almannarómur og Háskólakórinn söng nokkur lög.

Myndir frá heimsókn Danadrottningar í Veröld er að finna á myndasíðu Háskóla Íslands og upptaka af athöfninni er aðgengileg á YouTube-rás Háskólans.

Fréttin birtist fyrst á vef Háskóla Íslands.

Aðrar fréttir
X